Orðskrípi notuð til að breyta skynjun veruleikans

Eftir því sem tímarnir breytast og þjóðfélagið verður flóknara, breytist tungutakið; orðaforðinn breytist. Margar ástæður eru fyrir því að ný orð eru mynduð og tekin til notkunar. Það skortir t.d. sérstækan orðaforða fyrir nýja tækni. Bloggritari þýddi eitt sinn úr ensku fræðibók þar sem ekki voru til orð á íslensku fyrir ýmis hugtök sem notuð voru í bókinni. Bloggritari telst svo til að hann hafi komið með rúmlega 300 nýyrði sem flest hafa ekki ratað í daglegt mál eða orðabækur, en eru til.

Yfirleitt eru nýju orðin sem verða til, mjög lýsandi og þurfa ekki frekari skýringar en þau hljóma eða líta út. Það þarf þar með ekki hálærðar skýringar til að skýra ný hugtök, þau útskýra sig sjálf. Þetta er helsti munurinn á íslensku og ensku, hin fyrrnefnda sækir í norrænan orðaforða til að útskýra nýjan veruleika. Orð eins og sími og tölva sækja í menningararfinn. Farsími, sjónvarp,útvarp o.s.frv. eru orð sem beygjast og falla inn í íslenska tungu án örðugleika.

En síðan kemur pólitíkin og réttrúnaður nútímans með sinn orðaforða. Ekki til að lýsa veruleikanum, heldur að breyta skynjun okkar á honum. Fundin eru alls konar feluorð eða hliðrunarorð, til að fá okkur til að breyta um hugsun. Það skal tekið fram að oft er nauðsynlegt að breyta um hugtök, sum gömlu hugtökin voru niðurlægjandi.  Fávitahæli kallaðist Kópavogshæli eða Kleppur á sínum tíma og er það niðurlægjandi hugtak. Geðsjúkrahús hljómar betur og er jafn lýsandi. Maður ólst upp við hugtakið kynvillingur, hugsaði ekkert um það en var vanari hugtakinu hommi. Það síðarnefndi var fyrst frýjunarorð en er í dag notað daglega af öllum, líka samkynhneigðum sem er nokkuð flott hugtak og lýsandi. 

Atvinnurekandi eða vinnuveitandi. Hvort hugtakið er meira lýsandi? Ef hugtakið vinnuveitandi er notað, þá er verið að hampa þann skilning að verið sé veita af guð náð vinnu til starfsmanns sem hann megi þakka fyrir, ekki að hér sé um samningur tveggja aðila um kaup og kjör. Svo er mörgum meinilla við tegundarheitið maður. Við erum menn en ekki apar, ekki satt? Ýmis kvennmenn eða karlmenn til aðgreiningar. Viðkomandi getur verið flugmaður en ekki flugapi. Í sjálfu sér ekkert athugavert að nota orðið flugkona eða skólastýra í stað skólastjóri. Þetta verður bara að þróast í málinu. Stofnanamál er sérkapituli út af fyrir sig og ekki ætlunin að fara í hér. Oft búa embættismenn til óskiljanleg hugtök sem aðeins er hægt að skilja með hjálp orðabókar.

En svo kemur wokisminn með sinn orðaforða sem vekur á köflum furðu. Hvað þýðir t.d. hugtakið inngilding? Inngilding nýrra reglna um notkun rafmagnstækja? Lesandi sem sér orðið í fyrsta sinn og jafnvel í tíunda, klórar sig í kollinum og skilur ekki neitt í neina. Þarf að lesa orðið í samhengi en skilst samt ekki.

Svo eru það hælisleitendurnir sem eru ekki lengur að leita hæli, heldur alþjóðlega vernd.  Alþjóðlega vernd? Eru þeir ekki að leita sér íslenska vernd? Eða eru þeir að leita sér vernd og hæli í mörgum löndum? Sum sé, alþjóðlega vernd til að njóta íslenskrar verndar!

Svo er það hliðrunar hugtakið þungunarrof sem kemur í stað fóstureyðingu. Nú er það þannig að aðeins er leyft að eyða barn í móðurkviði er það er fóstur eða fósturvísir. Ekki síðar. Um endanlegan verknað er að ræða sem ekki er aftur tekið og því er fóstureyðing, sem er harkalegt orð, nákvæmari lýsing en þungunarrof. Það síðarnefnda getur verið ef læknir grípur inn í þungunina og gerir aðgerð á fóstri og er það inngrip sem kalla má þungunarrof, er rof en ekki endir.

Mörg ný orð hafa fest sig í sessi og eru lýsandi. T.d. aflandskrónur (krónur fastar erlendis), lágkolvetnafæði, samfélagsmiðlar, innviðir, sjálfa, hatursglæpur, hefndarklám og ótal íðorð í fræðigreinum eins og til dæmis deili hagkerfi.

Sum orð leggja menn ekki í reyna að þýða, eins og transkona eða transmaður? Er það til? Trans er í beinni þýðingu umbreyting. Má þá kalla transmanneskju umbreyting? Það er reyndar ekki lýsandi hugtak, umbreyting á hverju? Skilning manna á gangverki alheimsins? Nei, ekki nógu gott hugtak. Svona er þetta vandasamt að finna góð orð.

Höfum varan á þegar pólitískusarnir eða menntaelítan úr háskólum landsins koma með nýyrði. Líklegra en ekki, er þetta lið að reyna að breyta hugsun okkar. Bloggritari tekur lítið mark á hugtaki sem RÚV hefur tekið upp, sem er Belarús...algjört orðskrípi en gamla heitið er sígilt: Hvíta-Rússland. Hef útskýrt annars staðar af hverju. Svo kom RÚV með hugtökin víðóma og tvíóma. Einhvers sem skilur þessi hugtök?

Gróskumikil þróunin er í íslenskunni. Mörg orð koma inn, staldra stutt við og hverfa. Önnur lifa. Sum eru bara slanguryrði. Sjá má hér á nýyrðavef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hver gróskan er. Bloggritari verður að viðurkenna að ótrúlega mörg orð eru á þessum vef sem hann hefur aldrei séð áður. Kvikflaug, sorpari, kvikhjól...o.s.frv. en eru lýsandi þótt þau þurfi kannski aðeins skýringu við í fyrstu atrennu.

Nýyrðavefur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Að lokum. Íslenskan hefur haldið formi sínu síðan á miðöldum en orðaforðinn hefur breyst eða merking orða.  Til dæmis þýddi lóðbyssa á miðöldum fallbyssa sem skaut skotum á stærð við fiskilóð. Í dag er lóðbyssa hitatæki til að bræða kopar. Lóð getur  verið landskiki í borg, fiskilóð, lyftingartæki, eða fallbyssuskot í gamla daga. Á miðöldum var ragur maður hommi en í dag notað um huglausan eða huglítill maður.

Í íslenskunni eru a.m.k. yfir 600 þúsund orð og af nóg er að taka ef við viljum lýsa tilverunni. En um leið og við sleppum hendinni af íslenskunni, getum við pakkað saman, hætt að vera þjóð og sótt um að vera hluti af Bandaríkjunum og tekið upp enska tungu. Viljum við það? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband