Starf aðalsmanns á Bessastöðum er á lausu

Það kom ekki á óvart að núverandi forseti skuli ekki bjóða sig frama aftur. Sjá "völvuspá" blogg ritara. Ef menn hlustuðu vel á hvað hann sagði er hann bauð sig fram, sagðist hann ekki ætla að vera lengi í embætti. Eina sem kom á óvart var að hann sat bara í tvö tímabil, ekki þrjú sem hann sagðist ætla að sitja.

Guðni hafði skýra sýn á hvað hann ætlaði að gera sem forseti. Hann ætlaði sér að halda sig til hlés í störfum sínum, í anda Kristjáns Eldjárns, vera nokkuð konar tákngervingur en ekki gerandi. Hann sagðist vona eftir að geta sinnt fræðistörfum meðan hann væri í embætti. Eflaust hefur hann haft nóg að gera, þótt ekki bæri á opinberlega (sjá lista hér að neðan). En það geislaði aldrei af honum sannfæringakrafturinn eða leiðtoga hæfileikarnir sem sjá mátti í fari Ólafs Ragnars. Og áræðið að standa með íslensku þjóðinni í Icesave málinu. Guðni fékk gott tækifæri til að vera sameiningatákn í covid faraldrinum. Lítið bar á honum í faraldrinum, þótt hann hafi komið fram í nafni embættisins.

Hann fékk mótframboð 2020 frá Guðmund Franklín Jónsson í forsetaembættið. Sá vildi gjörbreyta embættinu, virkja dauða lagabókstafi um embættið í anda Ólafs Ragnars Grímssonar. Guðmundur reyndist vera of róttækur í skoðunum, fólk sá fyrir sér ófrið um hlutverk forsetans og kaus hann ekki. Hann fékk þó 8% fylgi. Íslendingar eru með þá sýn að sitjandi forseti eigi að klára tíma sinn, sem hann velur sjálfur, og ekki fá mótframboð. Þetta er skynsamlegt, því fyrir eru tveir fyrrverandi forsetar á nánast fullum launum.

Það er rándýrt að reka forsetaembættið, jafnvel hjá atkvæðalitlum forsetum. En hvaða hlutverki gegnir forsetinn í raun? Fyrir utan að hlutast til við stjórnarskipti?

Forsetinn er n.k. yfir sendiherra, bæði gagnvart eigin þjóð og erlendum. Við vitum að sendiherrar sitja í virðulegum embættum og því fylgir virðingar hlutverk. Þeir, ásamt forsetanum, fá herrasetur með þjónustuliði og glæsibifreiðar. Þeir ásamt forsetanum haga sér eins og aðalsmenn, virðulegir og með stæl.

Á vefsetri forsetans segir frá hlutverki forsetans og það er:

 

  • Forseti er oft í hlutverki talsmanns þjóðarinnar, svo sem þegar hann veitir fjölmiðlum viðtöl, ekki síst erlendum.
  • Forseti kemur fram sem fulltrúi Íslands á fundum með stjórnendum og öðrum starfsmönnum stofnana og sem ræðumaður á ráðstefnum.
  • Forseti kemur fram sem talsmaður þjóðarinnar þegar hann á viðræður við erlenda þjóðhöfðingja eða aðra forsvarsmenn þjóða og flytur ávörp t.d. í opinberum heimsóknum.
  • Forseti leggur margvíslegum félagasamtökum og hreyfingum lið með því að opna ráðstefnur eða koma að öðrum atburðum á þeirra vegum.
  • Forseti styður ýmiss konar félagasamtök með því að vera verndari þeirra eða vera verndari einstakra atburða og vekur þannig athygli á góðu málefni.
  • Forseti vinnur að landkynningu, oft í samráði við utanríkisþjónustu Íslands, Íslandsstofu eða aðra aðila, í ferðum sínum erlendis.
  • Forseti liðsinnir stundum einstökum félögum eða fyrirtækjum sem leita til hans um aðstoð sem talin verður gagnleg þjóðinni.
  • Forseti kemur fram sem leiðtogi þjóðarinnar þegar erlendir þjóðhöfingjar koma í opinbera heimsókn til Íslands og efla þannig kynni og tengsl milli Íslendinga og vina- og viðskiptaþjóða þeirra.
  • Forseti vinnur að innri samheldni Íslendinga meðal annars með því að fara í opinberar heimsóknir innanlands, heimsækja vinnustaði og kynna sér málefni líðandi stundar á fundum með þeim sem til hans leita.
  • Forseti er yfirmaður embættis forseta Íslands með líkum hætti og ráðherra sem stjórnar ráðuneyti sínu auk þess sem forseti fer með húsbóndavald á jörðinni Bessastöðum.
  • Forseti flytur ræður sem ná eyrum margra, svo sem við þingsetningu og á nýársdag, þar sem hann vekur athygli á brýnum málefnum sem varða samfélag okkar.
  • Forseti er gestgjafi á Bessastöðum og eflir virðingu fyrir sögu Íslands og þjóðhöfðingjasetrinu og skipta þeir gestir sem heimsækja staðinn og hitta forseta þúsundum ár hvert.
  • Forseti á fundi með stjórnmálaleiðtogum í því skyni að fylgjast með þjóðmálum og stjórn landsins og getur í því hlutverki veitt góð ráð og aðhald eftir atvikum.
  • Forseti svarar margs konar fyrirspurnum og erindum einstaklinga, hópa, félaga, fyrirtækja og stofnana um allt milli himins og jarðar.
  • Forseti tekur á móti erlendum sendiherrum þegar þeir afhenda trúnaðarbréf sitt sem fulltrúar síns þjóðhöfðingja og á sama hátt undirritar forseti trúnaðarbréf íslenskra sendiherra því til vitnis að þeir séu trúnaðarmenn hans og fulltrúar gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum.

Hljómar þetta ekki eins og konungsliðið í Evrópu gerir dags daglega? Eini munurinn á forsetanum og konungi, er að hann situr tímabundið og embætti hans er ekki arfbundið. Í stjórnarskránni var bara skipt um hugtak, í stað konungs, kom forseti.

Fyrirséð að ekki verði breyting á hlutverki forsetans í náinni framtíð. Það er tvennt sem gæti breytt því. Í fyrsta lagi: Róttæk og ný stjórnarskrá.  En í þeim drögum sem hafa verið lögð fram, er ekki hróflað við embættinu. Í öðru lagi, eitthvað stórkostlegt gerist á Íslandi eða erlendis, sem veldur því að íslenska lýðveldið fellur. Og allt stjórnkerfið verði tekið til róttækar breytinga í kjölfarið.

Á meðan má velta fyrir sér hvort ekki megi hugsa íslenska stjórnkerfið upp á nýtt. Allt er breytingum umorpið, þótt við trúum því ekki, og margt hefur breyst frá lýðveldisstofnun 1944. Íslenskt þjóðfélag er óþekkjanleg miðað við hvernig það var í stríðslok. Tæknin bíður upp á ný tækifæri, t.d. hvað varðar þátttöku borgaranna í stjórn ríkisins. Fulltrúarnir, hafa hins vegar verið tregir, ef ekki beinlínis mótfallnir, að afsala sér nokkur völd.

Hér er viðrað hvort ekki megi sameina hlutverk forseta og forsætisráðherra?  Sjá má slíka forsetastjórn í Finnlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Forsetinn er kosinn beint af þjóðinni og hann myndar ríkisstjórn. Þrískipting valdsins þar með komið á í fyrsta sinn á Íslandi og ráðherrar valdir af forsetanum, eftir hæfileikum, ekki pólitískt.  Ráðherrar sinntu bara stjórn landsins, fyrir hönd framkvæmdarvaldsins og koma ekki nálægt lagasetningu.  Kannski að flokksræðið myndi minnka á Alþingi við það. En slík ríkisstjórn, undir forystu forseta, yrði mjög öflug. Ekki samsett af nokkrum flokkum, þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Stjórnarstefnan væri skýr.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Merkilegt að í þessari upptalningu af vef embættisins sé ekki minnst orði á þau mikilvægustu hlutverk Forseta sem eru stjórnarskrárbundin, eins og að láta ráðherra framkvæma vald sitt, stefna saman og rjúfa Alþingi, staðfesta lög með undirritun sinni (eða synja, eftir atvikum).

Ég vil Forseta sem framfylgir stjórnarskránni númer eitt, fremur en að klippa á borða og veita verðlaun.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.1.2024 kl. 17:00

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Guðmundur, já ég tók líka eftir þessu. Lýsingin á við starf sendiherra! En eins og Ólafur Ragnar sannaði, þá er forsetinn öryggisventill.  Hann sparaði okkur hundruð milljarða í Icesave málinu, þegar stjórnmálamennirnir guggnuðu fyrir Bretum og fleiri. 

Og það þarf mann (karl eða konu) með bein í nefinu til að takast á við stjórnmálamennina. Það þarf leiðtoga með sjarma sem hvetur þjóðina áfram. Guðni fékk eitt tækifæri til þess að vera leiðtogi, ekki bara forseti og það var í covid faraldrinum.  Hann steig ekki upp í hlutverki sínu. 

Ég var ekki hrifinn af Ólafi í fyrstu en hann vann á með tímanum, þannig að hinn misheppnaði stjórnmálamaður sem hann var, gleymdist á endanum.

Birgir Loftsson, 2.1.2024 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband