Íslendingar heimskir og huglausir?

Frásagnir um Ísland heitir merk bók eftir Niels Horrebow en hún segir frá því helsta sem hann sá á ferðum sínum um Ísland. Óhætt er að segja að glöggt er gests auga. Hér skal getið skil á manninum áður en farið er út í frásögn eða lýsingu hans á Íslendingum.

Niels Horrebow fæddist í Kaupmannahöfn árið 1712. Hann nam stjörnufræði og stærðfræði um skeið en lagði síðan stund á lögfræði og varði doktorsritgerð í fræðum þeim. Árið 1749 var hann sendur á vegum danska Vísindafélagsins til Íslands til að gera ýmsar athuganir og lýsingar á landinu, náttúrfari þess og atvinnuháttum. Hér dvaldi hann í tvö ár við frekar rýran kost. Hann hafði lélegan tækjabúnaði og lítið fé til ferðalaga.

Horrebow var kallaður heim, þó með fullri sæmd fyrir störf sín. En í hans stað tóku Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson að rannsaka landið á vegum danska Vísindafélagsins. Horrebow skrifaði bók er heim kom og kom hún út árið 1752.

Rit Horrebows var einskonar varnarrit til að hrekja óhróður um Ísland sem komið hafði fram í bók eftir þýskan höfund að nafni Johann Anderson. Hafði hann skrifað bók um Ísland og byggði hann fróðleik sinn um Ísland á frásögnum danskra kaupmanna og sjómanna sem sigldu milli Íslands og Gluckstad, nú í Þýskalandi. Þessi bók kom út í danskri þýðingu árið 1947 og er mikið ýkjurit.  

En hvernig hljómar vörnin fyrir Íslendinga í orðum Niels Horrebow? Hér kemur brot úr riti hans:

"Ég hef áður gert þeim skil ummælum að Íslendingar séu svo huglausir að þeir fást ekki til að skjóta úr hlaðinni byssu og sannað að svo sé engan veginn farið, því að þeir eru ákafir skotmenn, þegar þeir einungis hafa efni á að eignast byssu. En þótt dýrt sé, eru þeir alls ófáir, sem keypt hafa byssur, sem þeir kunna vel með að fara, enda skjóta þeir refi, villifugla og því um líkt, og enginn er sá, sem er hræddur við að skjóta úr byssu, ef honum stendur það til boða, þótt hann hafi aldrei séð hana áður, eins og ég hef þrásinnis sagt.

Hinu mörgu hálærðu Íslendingar, sem allur heimurinn veit deili á, sýna það og sanna, að þeir eru hvorki heimskir né þrællyndir. Á hverju ári koma nokkrir Íslendingar til náms við háskólann í Kaupmannnahöfn. Þar gefst tækifæri á að kynnast skaphöfn þeirra, sem reynist vera harla fjarri ómennsku og níðangahætti, heldur reynast þeir vera djarfhuga, og svo sjaldgæft að hitta varmenni í hópi íslenskra stúdenta. Meðal almennings í landinu er svo margt snjallra og gáfara manna, að það má kallast algengt. Þannig er það alrangt, að kvarta yfir eðlisgáfum Íslendinga, og enn fráleitara að kveða upp hann stóradóm, að engra umbóta sé á þeim að vænta. Slík eru gífuryrði og annað ekki.

Eins og annarra þjóða menn eru Íslendingar haldnir heimþrá. Þegar þeir eru erlendis, þrá þeir sárlega heimaland sitt, þótt ætla mætti, að þeim byðist betri kjör og meiri lífsþægindi í öðrum löndum. Þetta er samt ekki undrunarefni, því að sama gerist með öðrum þjóðum, en þó hyggst ég að það sé almennast með norrænna manna. Það er því síður en svo vitnisburður um lítilmennsku þeirra eða aumingjaskap, eða að háleitt hugarfar finnist ekki. En í huga höfundar á heimþráin að vera ein sönnun þess."

Hér eru því tvær ólíkar lýsingar á Íslendingum. Anderson lýsir Íslendingum sem aumingjum og heimskingjum, en Horrebow ber hönd fyrir höfuð þeirra. Anderson dregur sína þekkingu frá öðrun en Horrebow er vottur og hafði komið til Íslands. Hann ætti að teljast betra vitni. Því er best að draga fram þriðja vitnið sem er einnig vottur.

Aðmírálinn Yves Joseph de Kerguelen de Trémarec (1734-1797) heitir maður einn en hann ferðist til Íslands árin 1767 og 1768, sem má telja vera fyrsta erlenda vísindaleiðangurinn til Íslands. Hann er því nokkurn veginn eða í raun samtíðarmaður Horrebow og Anderson. Eftirfarandi texti er úr B.A. ritgerðinni Fyrsti erlendi vísindaleiðangurinn til Íslands Um leiðangra Kerguelen Trémarec til Íslands árin 1767 og 1768 eftir Pétur Hreinsson.

"Kerguelen sagði líkt og Anderson að Íslendingar væru hraustir og lifðu heilsusamlegu en þó annasömu lífi. Þá væru þeir einnig vel byggðir, hefðu góðar tennur og ljóst hár. Kerguelen sagði íslenskar konur hins vegar ekki vera með eins góða líkamsbyggingu og hinn íslenski karlmaður og rökin fyrir því voru að þær stunduðu ekki jafn mikla erfiðisvinnu. Einungis heyskapur væri líkamlega erfiður fyrir þær. Ljóst er að sjaldgæft var að konur stunduðu sjósókn og að þær sáu meira um innanhússtörf en karlar á 18. öld. Íslendingar ala upp börn sín af alúð að sögn Kerguelen og venja þeir börn sín ekkiaf brjósti fyrr heldur en Frakkar eins og Anderson hafði haldið fram.

Kerguelen hefur svo eftir Horrebow að Íslendingar þurfi mikið á læknum að halda eftir að þeir ná 50 ára aldri og að fátítt væri að menn lifðu yfir áttrætt. Kerguelen nefnir ástæðurnar ekki beint en talaði þó um hina erfiðu vinnu sem flestir Íslendingar unnu allt sitt líf og aðhaldssamt líferni þeirra.

Kerguelen fer á milli þeirra Anderson og Horrebow er hann lýsir skaplyndi Íslendinga. Að mati hans eru Íslendingar góðhjartaðir, góðlyndir og mannlegir en hafa þó einnig sína ókosti; eru latir, tortryggnir og drykkfelldir. Kerguelen finnst Íslendingar ekki sérlega hugrakkir en hann hefur þó heyrt að nokkrir Íslendingar hafi staðið sig vel á herskipum Dana og að nokkrir hafi verið teknir í vinnu á hollenskum fiskiskipum við góðan orðstír. Þetta hefur Kerguelen líklega frá Horrebow. Íslendingar eru einnig skynsamir menn, eru hrifnir af listum og vísindum, eru miklir skákmenn og nokkuð háðir leiknum að sögn Kerguelen. Kerguelen segir marga Íslendinga tala latínu og segir hann fjölda þeirra fara til Kaupmannahafnar og læra þar með góðum árangri."

Eftirfarandi lýsingar eru úr rit Sumarliða R. Ísleifssonar: Sumarliði R. Ísleifsson, Tvær eyjar á jaðrinum

"Gories Peerse var þýskur kaupmaður frá Hamborg sem stundaði Íslandsviðskipti og hafði m.a. aðsetur í Hafnarfirði. Því má ætla að hann hafi verið gagnkunnugur landi og þjóð. Frásögn hans birtist í kvæðisformi undir titlinum, Van Yslandt. Mannlífið verður honum einnig tilefni til umræðu. Hann getur þess að loðnir hundar landsmanna séu seldir háu verði en börn megi fá án borgunar. Guðrækni og kristnihald sé heldur ekki til fyrirmyndar. Þá sé hórdómur algengur, fólk sé hrokafullt, alþýðufólk berist á, karlar monti sig af styrkleika sínum og fólkið stundi það að pretta kaupmenn (segir kaupmaðurinn sjálfur)." Látum Sumarliða halda áfram:

"Áhrifamest ferðasagna um Ísland er rit Dithmars Blefkens, Islandia, sem fyrr segir; rétt er að taka fram að ekkert er um höfundinn vitað og eins víst að nafn hans sé dulnefni; vitaskuld er því einnig óvíst um uppruna hans. Hér kemur lýsing hans: Og þegar nær allt kristið fólk, í því grátlega myrkri og titli kirkjunnar, eins og Whitchcraft blekkt, var stöðvað í dýpstu böndum hjátrúar; það gátu ekki verið en þeir, sem voru lengst fjarlægir samfélagi lærðra manna, og búa við ósiðlegt og villimannslegt loftslag, ættu að falla í grófustu skurðgoðadýrkun, þegar stundum (eins og hér á eftir skal lýst yfir) höfðu þeir djöfla til að þjóna sér, jafn kunnugir og heimilisþjónar. Höfundur gerði mikið úr villimannslegum lífsháttum Íslendinga, allir lægju saman í fleti, þvægju sér úr hlandi, ætu hræ og að hórdómur væri svo algengur að engum þætti hann tiltökumál, væri jafnvel vegsauki að honum. Margar þessara staðhæfinga hafði Blefken frá Gories Peerse en fjölmargir höfundar tóku þær  upp á 17. og 18. öld og felldu inn í verk sín.

Blefken nefndi einnig að landsmenn væru við góða heilsu og yrðu langlífir, án þess þó að hafa aðgang að lyfjum eða læknisaðstoð. Blefken staðhæfði einnig að fólkið væri ágætlega menntað og kynni að lesa, bæði karlar og konur. Hann ræddi einnig um fegurð íslenskra kvenna: „The Womenkinde there are very beautifull, but ornaments are wanting“, sagði hann. En Blefken var fyrstur manna til þess að lýsa íslenskum konum á þennan hátt og birtist þetta atriði oft í yfirlitsritum, eins og fyrr hefur verið nefnt."

Af þessum fáum frásögnum má glöggt greina gestsauga en líka þekkingarleysi. Þetta eru engar mannfræðirannsóknir sem þessir menn stunduðu, bara eigin athuganir og það sem þeir tíndu til úr misgáfulegum ritum eða frásögnum.

En þegar þeir tala um drykkjuskap, lauslæti og aðra lesti, er það ekki skrýtið. Lífið á Íslandi, fyrir tíma hitaveitu, rafmagns, heilsugæslu og annarra nútímaþæginda, getur ekki hafa verið létt eða þægilegt. Við höfum engan rétt í dag að dæma menningu og siði annarra, hvorki í nútímanum né fortíð. Enn í dag er Ísland kalt og hróstrugt land, vetur langir og dimmir og þunglyndið sækir á menn. Enn berja nátttúru öflin á Íslendingum, nú síðast á Grindvíkingum.  Er ekki mesta furða að byggð skuli hafi haldist í landinu en ekki lagst af eins og á Grænlandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Mér lýst vel á þennan Niels Horrebow, hann hugsar rétt, að mínu mati.  Hann er í tengzlum við veruleikann.
Þar sker hann sig nokkuð frá svo mörgum, ef ekki flestum sem ég þekki, sem hugsa undarlegar, rakalausar hugsanir.

Ásgrímur Hartmannsson, 14.12.2023 kl. 18:42

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Hann var góður maður sem sá gott í Íslendingum.

Birgir Loftsson, 14.12.2023 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband