Heimastjórn og varnir
Í raun voru menn þá farnir að huga af alvöru að vörnum landsins samfara því að landið fengi fullt sjálfstæði. Þorvaldur Gylfason segir í Fréttablaðinu þann 19. júní 2003 að rök þeirra, sem töldu Ísland ekki hafa efni á því að slíta til fulls sambandinu við Dani fyrir 100 árum, lutu meðal annars að landvörnum og vitnar hann í Valtý Guðmundsson sem sagði árið 1906 að fullveldi landsins stæði í beinu sambandi við getuna til varnar og sagði m.a. að þó að þjóðin ,, gæti það í fornöld [staðið sjálfstæð], þá var allt öðru máli að gegna. Þá var ástandið hjá nágrannaþjóðunum allt annað, og meira að segja hefði engin þeirra þá getað tekið Ísland herskildi, þó þær hefðu viljað. Það var ekki eins auðgert að stefna her yfir höfin þá eins og nú.
Þorvaldur telur að þarna hafi Valtýr reynst forspár að því leyti, að Íslendingar hafa aldrei þurft eða treyst sér til að standa straum af vörnum landsins. Lýðveldi var ekki stofnað á Íslandi fyrr en útséð var um, hversu vörnum landsins yrði fyrir komið, enda þótt nokkur ár liðu frá lýðveldisstofnuninni 1944 þar til varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin 1951.
Íslendingar lýstu þó yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda 1918 en treystu í reynd á vernd Dana og Breta. Hernám Breta 1940 breytti lítið skoðunum flestra í þessum efnum, að falla þyrfti frá hlutleysisstefnunni en í lok heimstyrjaldarinnar áttu Íslendingar í mestum erfiðleikum með að losa sig við hersetuliðin bæði en það tókst loks 1947 en óljóst var hvað átti að taka við.
Stofnun herlaus lýðveldis á Íslandi
Gangur heimsmála fór hér eftir að hafa bein áhrif á innan- og utanríkisstefnu landsins. Haf og fjarlægð voru ekki lengur skjöldur og verja landsins. Því leið ekki á löngu þar til að Íslendingar hófu að leita hófanna að ásættanlegri lausn á varnarmálum landsins. Um sama leyti og hugmyndir um stofnun Atlantshafsbandalagsins voru að fæðast, kom upp hugmynd um sérstakt varnarbandalag Norðurlanda en fljótlega kom í ljós að hún var andvana fædd.
Samfara undirbúningi að inngöngu Íslands í NATO fór fram umræða hvort stofna ætti íslenskan her og sitt sýndist hverjum. Um miðjan mars 1949 héldu þrír ráðherrar til Washington og ræddu við Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lögðu þeir áherslu á sérstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar, sem vildi ekki koma sér upp eigin her, segja nokkru ríki stríð á hendur eða hafa erlendan her eða herstöðvar í landinu á friðartímum. Í skýrslu ráðherranna segir m.a.:
Í lok viðræðanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:
- Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það myndi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.
- Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.
- Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.
- Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.
Eins og kunnugt er stóð mikill styrr um þetta mál en þrátt fyrir átök og mótmæli var Atlantshafssáttmálinn undirritaður í Washington 4. apríl 1949.
Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi. Frá sjónarhóli Atlantshafsbandalagsríkjanna horfði málið öðruvísi við. Þrátt fyrir fyrirvara Íslendinga við sáttmálann vildu yfirmenn Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli. Þeir óttuðust aðallega skemmdarverk sósíalista eða valdarán þeirra en ekki áform Sovétmanna um að leggja Ísland undir sig. Hjá íslenskum ráðamönnum var hvorki samstaða um að fá erlent herlið né koma á íslensku varnarliði og var aðallega borið við bágt efnahagsástand og fámenni landsins.
Kalda stríðið og Kóreustyrjöldin 1950 breytti afstöðu íslenskra ráðamanna á sama hátt gagnvart aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarsamstarfi og valdarán kommúnista í Prag 1948. Það voru því íslensk stjórnvöld sem höfðu frumkvæði að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins. Niðurstaðan varð sú að þríflokkarnir svonefndu féllu frá stefnu sinni um herleysi á friðartímum og gerðu varnarsamning við Bandaríkjamenn um vorið 1951. Hingað kom bandarískt herlið sem hefur verið m.a. staðsett á Keflavíkurflugvelli síðan.
Á ýmsu hefur gengið á í sambúð hers og þjóðar en í heildina séð hefur það gengið með ágætum. Svo gerðist það að Bandaríkjaher tók að týgja sig til brottferðar. Þessi hótun eða réttara sagt tilkynning um brottför hluta hersins á Keflavíkurflugvelli kom í byrjun tíunda áratugarins.
Í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál árið 1993 varð grundvallarbreyting á samskiptum ríkjanna er varðar varnarmál. Í raun lögðu Bandaríkjamenn til að horfið væri aftur til ársins 1947 þegar þeir fengu aðgang að Keflavíkurflugvelli, þar staðsettur lágmark mannskapur til að standsetja stöðina ef með þyrfti en engar trúverðugar varnir hafðar uppi.
Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 hefur reynst bæði árangursríkt og sveigjanlegt verkfæri, sem hefur staðist tímans tönn. Hinu sérstöku aðstæður sem ríktu á tímum kalda stríðsins gerðu aðilum samningsins kleift í meira en fjörutíu ár að komast hjá því að leggja mat á þær lágmarks skuldbindingar sem kveðið er á um í samningnum. Við lok kalda stríðsins var vart við öðru að búast en að á það reyndi hvort aðilar litu mikilvægustu ákvæði samningsins sömu augum.
Tillögur Bandaríkjamann 1993 benda eindregið til þess að stjórnvöld á Íslandi og í Bandaríkjunum leggi og hafi e.t.v. ætíð lagt ólíkan skilning á varnarsamningnum í veigamiklum atriðum. Munurinn felst einkum í því að Bandaríkjamenn virðast telja að varnarviðbúnaður á Íslandi eigi einkum að ráðast af breytilegu mati þeirra sjálfra á hernaðarógninni á Norður-Atlantshafi, en Íslendingar líta á hinn bóginn svo á að varnarsamningurinn eigi að tryggja lágmarksöryggi landsins án tillits til hernaðarógnarinnar hverju sinni.
Í stuttu máli sagt, lögðu Bandaríkjamenn til að hafið yrði brotthvarf flughersins frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og loftvarnir Íslands yrði sinnt frá austurströnd Bandaríkjanna. Þeir sögðust hins vegar vilja starfrækja áfram herbækistöðina á flugvellinum, loftvarnareftirlit, og áframhald yrði á Norður-Víking æfingunum en viðbúnaðurinn háður breytilegum aðstæðum á alþjóðavettvangi.
Ekki var við öðru að búast en að Íslendingar yrðu algjörlega ósammála þessum tillögum Bandaríkjanna og hafa reynt allar götur sínan að koma í veg fyrir að umtalsverðar breytingar verði á varnarbúnaði herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Allt bentir til þess nú að andmæli Íslendinga verði að engu höfð og hafa þeir því neyðst til þess, nauðugir sumir hverjir, að endurmeta veru herliðs á Íslandi og hvað beri að gera ef Bandaríkjamenn fari.
Björn Bjarnason og umræðan um stofnun íslensks hers
Óhægt er að segja að umræðan um varnarmál á síðastliðnum áratugum hafi ekki verið fjörug. Aðeins hefur verið deilt um keisarans skegg; um dvöl og sambúðarvanda hers og þjóðar en lítið talað um raunverulegar þarfir Íslendinga sjálfra eða alvarleg herfræðileg úttekt á vegum stjórnvalda gerð á varnarþörfum landsins eða hvað Íslendingar geti gert sjálfir til að treysta varnirnar.
Svo gerðist það að stjórnmálamaðurinn Björn Bjarnason reið á vaðið og varpaði stórbombu inn í íslenskt samfélag þegar hann kom með hugmyndir um stofnun íslensks hers á tíunda áratug tuttugustu aldar sem hann reyfaði líklega fyrst 1995 en ítrekaði í Morgunblaðinu í maí 2001.
Björn sagði að ,, það væri frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að sýna fram á, að hún hefði gert áætlanir til að verja borgara sína og land. Ekki væri til frambúðar unnt að setja allt sitt traust í þessu efni á Bandaríkjamenn. Hann sagði jafnframt að á liðnum árum því verið borið við þau rök að ekki kæmi til álita, vegna fámennis þjóðarinnar og fátæktar, að stofna íslenskan her. Þetta ætti ekki lengur við sem röksemd þar sem við væru bæði fjölmennari og um leið ein ríkasta þjóð jarðar. Björn leggur til að Íslendingar annað hvort taki að sér að hluta til varnir landsins eða að fullu ef Bandaríkjamenn fari.
Hann sagði að með því að nota þumalfingursreglu ,, væri unnt að kalla 8 til 10% þjóðarinnar til að sinna vörnum landsins á hættustundu eða milli 20.000 og 28.000 manns, án þess að efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist. Við slíkan fjölda væri miðað í Lúxemborg, þar sem um 1000 manns sinntu störfum í her landsins á friðartímum. Unnt yrði að þjálfa fámennan hóp Íslendinga, 500 til 1000 manns, til að starfa að vörnum landsins, án þess að setja vinnumarkaðinn úr skorðum.
Björn sér önnur not fyrir slíkt herlið en eingöngu til hernaðarþarfa. Hann telur að hægt sé að nota liðið til að bæta almannavarnir og í því skyni að bregðast við náttúruhamförum og hann sér ennfremur möguleika sem skapast hafa með stofnun íslensku Friðargæslunnar og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Hún hafi aukist ár frá ári og sé orðin liður í gæslu öryggishagsmuna Íslendinga.
Inn í slíkt öryggiskerfi sér Björn einnig not fyrir sérsveit á vegum ríkislögreglustjóra, í heræfingum hér á landi annað hvert ár. Hann virðist því sjá fyrir sér þríarma ,,öryggisstofnun, sem saman stendur af eins konar smáher eða öryggissveitum, íslenskri friðargæslustofnun með hernaðarlegum ívafa og sérsveitum ríkislögreglustjóra. Hann virðist einnig sjá fyrir sér að hægt sé að færa mannafla milli þessara arma. Þar stendur hnífurinn í kúnni, því að mestu deilurnar hafa skapast um störf Friðargæslunnar. Sumir virðast aðeins sjá fyrir sér að hún sé og verði borgaraleg stofnun með engin tengsl við hernaðarmaskínu nokkurs konar, erlenda eða innlenda en aðrir telja, þar með talin íslensk stjórnvöld, að í lagi sé að tengja hana við störf t.d. NATO í Afganistan.
Andstaðan við hugmyndir Björn um stofnun íslensks hers virðast aðallega vera á vinstri væng stjórnmálanna, þó að einstaka menn á þeim vængi hafa ljáð máls á að kannski sé tími til kominn að huga alvarlega að þessum málum. En flestir hafa tekið frumkvæði Björns heldur fálega og kosið að persónugera þessa umræðu og telja best að hæða og spotta sem mest og vonast þannig til að umræðan falli um sjálfa sig. En eins og rakið hefur verið í greininni snýst málið ekki um einstaka persónur, heldur hina sígilda spurningu, hvernig tryggjum við innra og ytra öryggi samfélags okkar?
Hafa mál staðið þannig hingað til, hafa fáir komið með lausn á hvernig eigi að haga vörnum landsins ef og til þess kemur að það ákveður einn góðan veðurdag að Bandaríkin geti ekki sinnt vörnum landsins. Menn eru flestir sammála um það, burt séð frá hvaða flokka þeir styðja, að einhverjar trúverðugar varnir verði að vera og þá með einhvers konar innlendu herliði, sérsveitum, öryggissveitum, heimavarnarliði eða hvað menn vilja kalla það, verði að vera til staðar ef til þess kemur.
Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvort einhverjar líkur eru á að hér verði stofnaður her í náinni framtíð. Ef litið er á stöðuna eins og hún er í dag, þá virðist það vera frekar ólíklegt. Íslensk stjórnvöld virðast ekki einu sinni geta rekið Landhelgisgæsluna með sómasamlegum hætti eins og allir vita og því verða þau virkilega að endurskoða afstöðu sína til þessara mála. Einhverjar bakdyraleiðir verða þess í stað farnar, svo sem með fjölgun í víkingasveitinni og að sveigja Friðargæsluna meira í átt til hermennsku.
Umræðan og stofnun Varnarmálastofnunar Íslands
Þegar leitað er að mönnum sem ræða reglulega um varnarmál Íslands og hafa gert síðan um aldarmótin 2000, þá má telja þá á fingrunum. Mætir menn eins og prófessor Baldur Þórhallsson hafa reglulega slegið á putta stjórnvalda og skammað þau. Aðrir gera það líka en ekki markvisst. Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, birtist skyndilega á sjónarsviðið nýlega með bók sína Íslenskur her, og Birgir Loftsson hefur skrifað reglulega í blöðin greinar um varnarmál Íslands. Það 27. október 2005 kom hann með hugmynd um stofnun Varnarmálastofnun Ísland sem sendiherra Bandaríkjanna viðraði fyrstu áður en hann fór úr landi. Um stofnun varnamálastofnunar
Þann 1. júní 2009 tilkynnti Utanríkisráðuneytið um stofnun Varnarmálastofnunar Íslands. Þar segir:
"Þegar bandaríski herinn fór héðan af Miðnesheiði í september árið 2006 eftir ríflega 55 ára dvöl, lauk löngum og umdeildum kafla í sögu lýðveldisins. Nú stöndum við á tímamótum því hafinn er nýr kafli þar sem við Íslendingar berum í fyrsta skipta sjálfstæða ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Ísland sem fullvalda ríki hefur nú óskorað forræði yfir þessum mikilvæga málaflokki, og það er okkar að skrifa söguna....
Varnarmálastofnun Íslands sem tekur formlega til starfa í dag er skýr birtimynd þessa nýja sjálfstæðis. Eitt af meginhlutverkum hennar er að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Nýrri Varnarmálastofnun er ennfremur falin framkvæmd margvíslegra verkefna sem eru hluti af skuldbindingum okkar vegna aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Þessi verkefni eru m.a. rekstur og viðhald mannvirkja NATO á Íslandi, umsjón og framkvæmd æfinga og samskipti við erlend herlið, og að vinna upplýsingar úr kerfum NATO, sem m.a. nýtast til að tryggja öryggi íslenskra ríkisborgara á hættusvæðum.
Annar mikilvægur þáttur í því að axla ábyrgð á öryggi og vörnum Íslands eftir brottför Bandaríkjahers var setning varnarmálalaga. Í lögunum er skýrt kveðið á um ábyrgð í málaflokknum, og skilið á milli verkefna sem lúta að innra öryggi annars vegar, og ytra öryggi og vörnum og varnarsamskiptum við önnur ríki hins vegar."
Svo er árétta að rétt er að hafa í huga að öryggis- og varnarmál eru í eðli sínu síbreytilegt langtímamál, þar sem horfa ber til áratuga, ekki mánaða eða ára. Þó friðsamlegra sé í okkar heimshluta en lengst af á síðustu öld, þá kennir reynslan okkur að skjótt skipast veður í lofti. Við vitum einfaldlega ekki hvaða aðstæður kunna að verða uppi hér á norðurslóðum eftir 10-20 ár, hvað þá eftir 30-40 ár." pphaf starfsemi Varnarmálastofnunar Íslands
Svo gerist það sem er sjaldgæft í stjórnsýslusögu Íslands, að stofnunin er lögð niður. "Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu utanríkisríkisráðherra um að samræma niðurlagningu Varnarmálastofnunar og samþættingu verkefna hennar við hlutverk annarra opinberra stofnana við áform um stofnun innanríkisráðuneytis....Varnarmálastofnun verður hins vegar lögð niður þegar á næsta ári eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Breytingum sem leiða af niðurlagningu hennar þarf því að ljúka fyrr og þær þurfa að rúmast innan óbreyttrar verkaskiptingar Stjórnarráðsins. Það felst m.a. í því að verkefni Varnarmálastofnunar verða færð til þeirra borgaralegu stofnana sem næst standa verkefnum hennar í dag en jafnframt yrðu burðarás í fyrirhuguðu innanríkisráðuneyti. Samhliða þessu þarf að móta skýra framtíðarsýn um verkaskiptingu utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis í varnar- og öryggismálum." Varnarmálastofnun lögð niður og verkefni flutt til fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis
Þessi verkaskipting er enn ekki komin á hreinu, árið 2023 eins og ég hef rakið í annarri blogggrein. Í stað þess að endurreisa Varnarmálastofnun, ákvað Alþingi að fara fjallabaksleið og stofna Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála sem á að vera á vegum Háskóla Íslands. Menn hafa sum sé gert sér grein fyrir að einhver þekking eigi að vera á varnarmálum enda ekki hægt að taka upplýstar ákvarðanir í málaflokknum nema sérfræðiþekking sé fyrir hendi. Þetta var einmitt eitt af hlutverkum Varnarmálastofnunar að stunda rannsóknir og hjálpa stjórnvöld að taka upplýstar ákvarðanir. Sjá slóðina: Rannsóknasetur öryggis- og varnarmála
Í tillögu til þingsályktunar um rannsóknarsetur öryggis- og vararmála á löggjafaþingi 2023-2024 segir: "Í 6. tölul. þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti 13. apríl 2016 segir að stefnan feli í sér: Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
Þessi ályktun snýr að því að tryggja að í landinu sé fyrir hendi sérfræðiþekkingin sem er einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnunnar." Málið er ekki komið lengra en þetta.
Framkvæmdaraðili varnarmála Íslands er Landhelgisgæslan. Hún er svo vanbúin, að hún getur ekki einu sinni sinnt löggæslu hlutverki sínu og standa nú umræður um fjárskort hennar meðal þingmanna.
Varnarmálalög frá 2008 eru nú í gildi. Sjá slóð: Varnarmálalög 2008 nr. 34 29. apríl Eins og sjá má, ef litið er á lögin, er málaflokkurinn umfangsmikill en eins og áður sagði, er verkaskiptingin milli Landhelgisgæslunnar og Utanríkisráðuneytisins - varnarmálaskrifstofu óljós. LHG sinnir innanríkismál en UTN utanríkismálum. Varnarmál falla undir bæði sviðin og er það óheppilegt. Rannsóknarsetrið fyrirhugaða er mistök, enda hlutverk þess sérstækt. Nær væri að endurreisa Varnarmálastofnun sem heldur algjörlega utan um málaflokkinn. Það hlýtur að vera gert í náinni framtíð.
----
Sögulegt yfirlit varnarmála - sjá slóð: Sögulegt yfirlit
29. apríl 2008
Fyrsta heildstæða löggjöfin um varnarmál samþykkt á Alþingi með varnarmálalögum nr. 34/2008, en með henni er málaflokknum komið í fastan farveg með skýrum lagaramma um verkefni íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála.
Mars 2009
Áhættumatsskýrsla fyrir Ísland gefin út um hnattræna, samfélagslega og hernaðarlega þætti. Skýrslan er afrakstur vinnu þverfaglegs starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði árið 2007.
2009
Nýr kafli í norrænu varnarmálasamstarfi hófst þegar NORDEFCO-samstarfi varnarmálaráðuneytanna er hleypt af stokkunum.
2010
Samkomulag undirritað við Kanada um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála.
30. júlí 2014
Utanríkisráðherra og innanríkisráðherra undirrita samning þar sem embætti Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands er falið að sinna daglegri framkvæmd varnar- og öryggistengdra verkefna á grundvelli varnarmálalaga.
24. desember 2014
Ísland er fyrsta ríkið til þess að fullgilda alþjóðlegan samning um vopnaviðskipti sem samþykktur er á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2013.
29. júní 2016
Samkomulag við bandarísk stjórnvöld um aukna viðveru bandaríska sjó -og flughersins á Keflavíkurflugvelli.
13. apríl 2016
Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu Íslands samþykkt á Alþingi en meðal áherslna stefnunnar er að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi, að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum landsins og að efla enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál með sérstöku tilliti til norðurslóða.
1. september 2016
Lög um stofnun þjóðaröryggisráðs samþykkt á Alþingi. Hlutverk þess er að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og stuðla að endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti ásamt því að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum.
1. október 2017
Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins endurreist og Íslenska friðargæslan færð undir hina nýju skrifstofu.
Október 2017
Ísland og Írland taka við formennsku í eftirlitskerfinu með flugskeytatækni (e. Missile Technology Control Regime, MTCR). Formennskutímanum lýkur í desember 2018.
Nóvember 2018
Nýtt leiðarljós í norræna varnarsamstarfinu (e. Nordic Defence Cooperation, NORDEFCO) samþykkt á varnarmálaráðherrafundi NORDEFCO. Leiðarljósið er vegvísir samstarfsins fram til ársins 2025 og lýsir markmiðum um aukna varnargetu og varnarsamvinnu Norðurlandanna.
26. mars 2019
Endurskoðað samkomulag frá árinu 2008 um grannríkjasamstarf við Bretland á sviði varnar- og öryggismála.
1. janúar 2020
Nafn varnarmálskrifstofu breytist í kjölfar skipulagsbreytinga og tilfærslu á málaflokkum. Nýtt heiti er öryggis- og varnarmálaskrifstofa og nýju málaflokkarnir eru öryggispólitík ásamt afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stríð, Utanríkismál/alþjóðamál | 27.11.2023 | 10:38 (breytt kl. 11:06) | Facebook
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.