Inngangur
Í þessari grein verður vellt upp þeirri spurningu hvers vegna Íslendingar kusu að stofna herlaust lýðveldi árið 1944 og í framhaldinu verður nokkrum öðrum spurningum vellt upp, t.d. hvort að það hafi verið eðlilegt ástand eða einhvers konar millibilsástand á meðan Íslendingar voru að finna leiðir til að tryggja öryggi landsins. Var landið í raun herverndarlaust á tímabilinu 1946 1951? Bar ástandið á þessu fyrrgreinda tímabili einkenni af því að hér var ákveðið tómarúm sem íslensk stjórnvöld reyndu að fylla upp í, fyrst með inngöngu í NATÓ og síðan varnarsamninginn við Bandaríkin? Einkennist ástandið í dag af sömu vandamálum, að finna einhverja heildarlausn á varnarmálum landsins og fylla upp í tómarúm? Var það ekki léleg afsökun af hálfu íslenska ríkisins fyrir valdaafsali (hersetu erlends ríkis) til Bandaríkjanna að fámenni og fátækt landsins kæmi í veg fyrir stofnun íslensks hers á sínum tíma og Íslendingar væru mótfallnir vopnaburði?
Aðdragandinn heimastjórn og varnir
Strax á tíma sjálfstæðisbaráttunnar um 1900 fóru íslenskir ráðamenn að huga af alvöru að vörnum landsins samfara því að landið fengi fullt sjálfstæði. Þorvaldur Gylfason segir í Fréttablaðinu þann 19. júní 2003 að rök þeirra, sem töldu Ísland ekki hafa efni á því að slíta til fulls sambandinu við Dani fyrir 100 árum, lutu meðal annars að landvörnum og vitnar hann í Valtý Guðmundsson sem sagði árið 1906 að fullveldi landsins stæði í beinu sambandi við getuna til varnar og sagði m.a. að þó að þjóðin ,, gæti það í fornöld [staðið sjálfstæð], þá var allt öðru máli að gegna. Þá var ástandið hjá nágrannaþjóðunum allt annað, og meira að segja hefði engin þeirra þá getað tekið Ísland herskildi, þó þær hefðu viljað. Það var ekki eins auðgert að stefna her yfir höfin þá eins og nú.
Þorvaldur telur að þarna hafi Valtýr reynst forspár að því leyti, að Íslendingar hafi aldrei þurft eða treyst sér til að standa straum af vörnum landsins. Lýðveldi var ekki stofnað á Íslandi fyrr en útséð var um hvernig vörnum landsins yrði fyrir komið enda þótt nokkur ár liðu frá lýðveldisstofnuninni 1944 þar til varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin 1951.
Íslendingar lýstu þó yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda 1918 en treystu í reynd á vernd Dana og Breta. Hernám Breta 1940 breytti lítið skoðunum flestra í þessum efnum, að falla þyrfti frá hlutleysisstefnunni en í lok heimstyrjaldarinnar áttu Íslendingar í mestum erfiðleikum með að losa sig við hersetulið Bandaríkjamanna og Breta en það tókst loks 1947. Hins vegar var óljóst hvað átti að taka við.
Herverndarsamningur við Bandaríkin 1941
Styrjaldarhorfurnar voru ískyggilegar hjá Bretum á öndverðu ári 1941. Á þessum tíma voru Þjóðverjar umsvifamiklir og sigursælir, og var þá og þegar búist við að þeir réðust á Bretlandseyjar. Meðal þeirra sem höfðu áhyggjur af þessari þróun mála voru Bandaríkjamenn. Þeir vörðust hins vegar að dragast inn í ófriðinn, en studdu fast við bakið á Bretum.
Meðal annars vegna fyrrgreindra ástæðna, að líkur voru á innrás Þjóðverja inn í Bretland, fengu Bretar talið Bandaríkjastjórn á að taka við hernámi Íslands og gæslu Grænlands, sem taldist dönsk nýlenda. Þeir síðarnefndu vildu þó ekki taka við hernámi Breta á Íslandi, að Íslendingum forspurðum.
Í ritinu Foreign Relations of the United States fyrir árið 1940 er birt frásögn af viðtali sem Vilhjálmur Þór átti 12. júlí við A. A. Berle aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna þar sem Vilhjálmur varpaði m.a. fram þeirri spurningu hvort Bandaríkin litu á Ísland sem hluta af vesturhveli jarðar og veiti því vernd samkvæmt Monroekenningunni. Vilhjálmur sagði að hann væri hér að tala ,,óformlega og óopinberlega en með vitund og samþykki ríkisstjórnar sinnar. Bandaríski ráðherrann kvaðst ekki geta gefið svar við þessari fyrirspurningu að svo komnu.[i] Gangur styrjaldarinnar átti hins vegar eftir að hafa veruleg áhrif á afstöðu Bandaríkjamanna til hernaðarmála á Norður-Atlantshafsvæðinu.
Það voru Bretar sem hófu viðræður við Bandaríkjamenn um yfirtöku hernámsins en fyrirætlanir Breta og Bandaríkjamanna um bandaríska hervernd Ísland voru ekki ræddar við Íslendinga lengi vel. Á Íslandi vissu menn af viðræðunum en það voru skiptar skoðanir á ágæti slíkrar herverndar, sumir töldu að hlutleysisstefnan væri ekki í hættu þótt slíkir samningar væru gerðir, aðrir voru á því að slík hervernd bryti gegn henni.
Þann 14. júní 1941 var svo komið að endanlega hafði verið gengið frá samkomulagi Breta og Bandaríkjamanna um að semja við Ísland um bandaríska hervernd.
Breski sendiherranum í Reykjavík, Howard Smith, var falin samningsgerðin við Íslendinga. Niðurstaða viðræðanna við breska sendiherrann varð sú að gert var samkomulag um hervernd Bandaríkjanna er fólst í skiptum á orðsendingum milli forsætisráðherra Íslands og forseta Bandaríkjanna 1. júlí 1941.
Í orðsendingu forsætisráðherrans voru m.a. eftirfarandi skilyrði fyrir hervernd Bandaríkjanna:
1. Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burtu af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.
2. Bandaríkin skuldbinda sig ennfremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands....
3. Bandaríkin skuldbinda sig til að haga vörnum landsins, þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt....
4. Af hálfu Íslands er það talið sjálfsagt, að ef Bandaríkin takast á hendur varnir landsins, þá hljóti þær að verða eins öflugar og nauðsyn getur frekast krafist....Íslenska ríkisstjórnin leggur sérstaklega áherslu á, að nægar flugvélar séu til varnar, hvar sem þörf krefur og hægt er að koma þeim við.... [ii]
Í orðsendingu Roosevelts forseta er lýst yfir samþykki á skilyrðum þeim sem nefnd eru í íslensku orðsendingunni. Mánudaginn 7. júlí 1941, sigldi inn í höfnina í Reykjavík bandarísk flotadeild með um rúmlega 4000 landgönguliða innanborðs sem áttu að sjá um hervernd landsins af hálfu Bandaríkjamanna. Það var hins vegar ekki fyrr enn þann 27. apríl 1942 sem það var tilkynnt í Washington að Bandaríkjamenn hefðu tekið við yfirherstjórn á Íslandi af Bretum.
Vorið 1942 hófust viðræður um land undir flugvöll á Miðnesheiði við Keflavík. Bandaríkjamenn fengu bestukjararéttindi varðandi þann flugvöll en lofuðu að afhenda hann Íslendingum í stríðslok.
Stofnun herlauss lýðveldis 1944
Gangur heimsmála frá og með fyrri heimsstyrjöld fór að hafa bein áhrif á innan- og utanríkisstefnu landsins. Haf og fjarlægð voru ekki lengur skjöldur og verja landsins. Þetta vissu íslenskir ráðamenn og höfðu vitað í marga áratugi. Þetta höfðu þeir hugfast þegar þeir hugðu að stofnun íslensks lýðveldis 1944, og ekki nóg með það, þeir hófu að leita hófanna að ásættanlegri lausn á varnarmálum landsins.
Keflavíkursamningurinn
Hinn 1. október 1945 óskaði Bandaríkjastjórn eftir viðræðum við ríkistjórn Íslands um leigu á þremur tilteknum stöðum fyrir herstöðvar næstu 99 ár. Það tók 12 manna nefnd allra þingflokka skamman tíma að sameinast um að vísa þeim tilmælum á bug. Fyrir kostningarnar í júnílok 1946 lýstu allir stjórnmálaflokkarnir yfir því að þeir væru andvígir hernaðarbækistöðvum á Íslandi á friðartímum.
Samkvæmt herverndarsamningunum átti hernámsliðið að hverfa frá Íslandi þegar að ófriðnum loknum. Stóð í setuliðinu að fara af landinu. Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefðu tekið við herstjórn landsins af Bretum og tilkynningu bresku yfirstjórnarinnar í maí 1942 um brottfarir nokkurs hluta bresku hersveitanna, dvaldist áfram á Íslandi til styrjaldarloka nokkurt lið breska flughersins og breska flotans.
Vorið 1946 fór af landi brott mestur hluti bresku hermannanna sem þá var eftir á Íslandi. Hinn 4. júlí 1946 var gerður endanlegur samningur um afhendingu Reykjavíkurflugvallar. Bretar samþykktu að ,,nægilega margir breskir starfsmenn skuli verða eftir til þess að æfa og aðstoða Íslendinga við starfrækslu mannvirkjanna og útbúnaðarins,[iii] en þó eigi lengur en átta mánuði frá gildistöku samnings. Í þessum samningi var einnig tekið fram, að semja skyldi um afhendingu miðunarstöðvarinnar í Sandgerði, lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli við Vík og fleiri staði.
Hinn 22. maí 1947 var birt svohljóðandi fréttatilkynning frá íslenska utanríkisráðuneytinu:
Með erindi dags, 8 maí hefur breski sendiherrann tilkynnt utanríkisráðherra, að allir breskir hermenn séu nú farnir brott af Íslandi, en eins og kunnugt er hefur lítil sveit úr breska flughernum starfað á Reykjavíkurflugvelli undanfarna mánuði til aðstoðar við rekstur hans samkvæmt ósk flugmálastjórnarinnar....
Það stóð einnig í Bandaríkjamönnum að taka sitt hafurtask og veturinn 1945-46 var ekkert fararsnið á Bandaríkjamönnum. Í júlílok 1946 hóf forsætisráðherra viðræður um þessi mál við trúnaðarmenn Bandaríkjastjórnar. Á aukaþingi um haustið lagði forsætisráðherrann fram þingályktunartillögu, sem heimilaði ríkisstjórninni að gera samning við ríkisstjórn Bandaríkjanna um brottför hersins. Í samningsuppkastinu var megináherslan lögð á eftirfarandi atriði: Að herverndarsamningurinn frá 1941 væri úr gildi felldur, að Bandaríkin skuldbindu sig til þess að hafa flutt allan her sinn burtu af Íslandi innan sex mánaða frá því að hinn nýi samningur gengi í gildi og loks að Bandaríkin afhentu Íslendingum tafarlaust Keflavíkurflugvöllinn til fullrar eignar og umráða. Sú kvöð fylgdi þó þessum samningi að Bandaríkjamenn fengju ákveðin afnot af flugvellinum til þess að geta sinnt skyldum sínum vegna hersetu í Þýskalandi.
Þingsályktunartillagan var samþykkt 5. október og samningurinn undirritaður 7. október 1946. Hann er almennt nefndur Keflavíkur-samningurinn.[iv] Um gildistíma samningsins sagði:
Samningur þessi skal gilda á meðan á stjórn Bandaríkjanna hvílir sú skuldbinding að halda uppi herstjórn og eftirliti í Þýskalandi; þó má hvor stjórnin um sig hvenær sem er, eftir að fimm ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, fara fram á endurskoðun hans....Skal samningurinn þá falla úr gildi tólf mánuðum eftir dagsetningu slíkrar uppsagnar.
Eftir samningnum sem þar af leiddi hurfu síðustu hermennirnir úr landi 8. apríl 1947. Bandaríkjamenn fólu flugfélögum og verktökum að gæta hagsmuna sinna í flugstöðinni, og voru ýmsar umbætur gerðar þar 1946-50 vegna almenns millilandaflugs, sem þá var að komast á. Bandarískir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli voru að jafnaði um þúsund að tölu, um 2/3 hlutar á vegum flugfélaga en hinir á vegum verktaka.
Andstæðingar samningsins sögðu að ekki þyrfti að semja um brottför hersins. Í herverndarsamningnum frá 1941 stæði skýrum stöfum að herinn ætti að fara að ófriðnum loknum. Stuðningsmenn hann töldu aftur á móti að hann væri eina leiðin til að koma hernum úr landi, þar sem Bandaríkjamenn túlkuðu 1. grein herverndarsamningsins frá 1941 þannig að hugtakið stríðslok sem ,,gerð endanlegra friðarsamninga [sbr. alþjóðalög] eða lyktir á loftflutningum hermanna milli Bandaríkjanna og hernuminnar Evrópu.[v] Í skjóli þessarar túlkunar gat stjórnin í Washington gert áframhaldandi hernaðarréttindi að skilyrði fyrir niðurfellingu herverndarsamningsins.
Ljóst er að Bandaríkjamenn ætluðu sér ekki að hverfa á brott með her sinn fyrr en nýr samningur, sem tryggði þeim lágmarksréttindi á Íslandi, hefði verið undirritaður. Þeir voru hins vegar óánægðir með Keflavíkursamninginn en að mati utanríkisráðuneytisins bandaríska var hann ,,það, besta, sem hægt var að ná fram undir núverandi kringumstæðum í stjórnmálum Íslands.[vi]
Um sama leyti og hugmyndir um stofnun Atlantshafsbandalagsins NATO voru að fæðast, kom upp hugmynd um sérstakt varnarbandalag Norðurlanda en fljótlega kom í ljós að hún var andvana fædd. Það næsta sem gerðist í stöðunni var að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu 1949. Um miðjan mars 1949 héldu þrír ráðherrar til Washington og ræddu við Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lögðu þeir áherslu á sérstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar, sem vildi ekki koma sér upp eigin her, segja nokkru ríki stríð á hendur eða hafa erlendan her eða herstöðvar í landinu á friðartímum. Í skýrslu ráðherranna segir m.a.:
Í lok viðræðanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:
1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það myndi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.
2. Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.
3. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.
4. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.[vii]
Eins og kunnugt er stóð mikill styrr um þetta mál en þrátt fyrir átök og mótmæli var Atlantshafssáttmálinn undirritaður í Washington 4. apríl 1949.
Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi. Frá sjónarhóli Atlantshafsbandalagsríkjanna horfði málið öðruvísi við. Þrátt fyrir fyrirvara Íslendinga við sáttmálann vildu yfirmenn Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli. Þeir óttuðust aðallega skemmdarverk sósíalista eða valdarán þeirra en ekki áform Sovétmanna um að leggja Ísland undir sig. Hjá íslenskum ráðamönnum var hvorki samstaða um að fá erlent herlið né koma á íslensku varnarliði og var aðallega borið við bágt efnahagsástand landsins.
Kalda stríðið og Kóreustyrjöldin 1950 breytti afstöðu íslenskra ráðamanna á sama hátt gagnvart aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarsamstarfi og valdarán kommúnista í Prag 1948. Það voru því íslensk stjórnvöld sem höfðu frumkvæði að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins. Niðurstaðan varð sú að þríflokkarnir féllu frá stefnu sinni um herleysi á friðartímum og gerðu varnarsamning við Bandaríkjamenn um vorið 1951.
Segja má að allt frá stríðslokum og fram á fyrri hluta 6. áratugarins gegndi Ísland lykilhlutverki í stríðáætlunum Bandaríkjamanna. Fyrir utan Bretland og það svæði sem tekur til Norður-Afríku og Austurlanda nær hafði ekkert land meira árásagildi í stríði við Sovétríkin eða öryggi Bandaríkjanna væri stefnt í hættu ef Sovétmenn legðu landið undir sig. Héðan gætu meðaldrægar sprengjuflugvélar gert árásir á skotmörk í Sovétríkjunum með kjarnorkuvopnum og venjulegum vopnum. Grænland eitt var mikilvægara en Ísland fyrir varnir Bandaríkjanna.
Varnarsamningurinn frá 1951
Í varnarsamningnum frá 1951 er lögð skýr áhersla á varnarhlutverk herstöðvarinnar í Keflavík og Bandaríkjamenn hétu því, samkvæmt 4 lið samningsins, að framkvæma skyldur sínar gagnvart Íslandi í varnarmálum sem frekast má verða sé stuðlað að öryggi íslensku þjóðarinnar.
Samningurinn er í 8 liðum. Þar segir m.a.:
1. Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi.
2. Ísland lætur í té þá aðstöðu í landinu sem báðir aðilar eru ásáttir um að sé nauðsynlegt.
3. Það er háð mati Íslands hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu....
4. Bandaríkjamenn heita því að framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningnum þannig að sem frekast má verða sé stuðlað að öryggi íslensku þjóðarinnar....
5. Tekið er fram að ekkert ákvæði samningsins skuldi skýrt þannig að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.
6. Samningurinn frá 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðarbirgðaafnot Keflavíkurflugvallar fellur úr gildi.
7. Ísland tekur í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli en ríkin tvö skulu koma sér saman um hluteigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemina þar notkun vallarins í þágu varna Íslands.
8. Varðandi uppsögn varnarsamningsins segir að hvor aðili um sig geti óskað endurskoðunar á honum og leiði hún ekki til samkomulags innan sex mánaða geti hvor ríkisstjórnin hvenær sem er eftir það sagt samningnum upp, og skuli hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar.
Í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna er lögð áhersla á varnarhlutverki herstöðvarinnar í Keflavík og tekið fram að íslensk stjórnvöld verði að heimila allar hernaðarframkvæmdir á Íslandi. Bandaríkjamenn höfðu þó ákveðið svigrúm í hernaðaráætlunum sínum vegna þess að í samningnum var ekki gerð tilraun til að skilgreina notkun Íslands á stríðstímum.
Heimildir:
[i]Pétur J. Thorsteinsson: Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál 1, 207.
[ii]Alþingistíðindi. 1941 (aukaþing), A. 1.
[iii]Samningar Íslands II, 1049 - 1051.
[iv]Samningar Íslands, II, 1353 - 1356.
[v]Þór Whitehead: Lýðveldi og herstöðvar 1941-46, 149.
[vi]Þór Whitehead: Lýðveldi og herstöðvar 1941-46, 167.
[vii]Alþingistíðindi 1948, A, 917.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | 8.4.2022 | 10:44 | Facebook
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.