Er lögmálahyggjan einhver helsta stoðin í hugmyndakerfi marxismans eða er hún í andstöðu við hann?

Marx_and_Engels

Flókin spurning sem gefur ekki kost á einföldu svari í stuttu máli en ég ætla þó að reyna að svara henni hér. Heldur er ekki hægt að setja hugmyndir marxista undir einn hatt, því að hugmyndir þeirra hafa reikað til og frá í gegnum tíðina.

Ef spurt hefði verið hver hafi verið ríkjandi stefna á 7. áratug 20. aldar, væri svarið einfalt, lögmálshyggja (hagræn nauðhyggja) og lögmálahyggjumenn réðu stefnunni og töldu sig sjá allt út frá lögmálum en viss áherslubreyting varð hjá þeim, stéttarbarátta hætti að vera tískuhugmyndafræði (marxista) og þessir menn fóru að tala um baráttu einstaklinga sín á milli. Ef til vill er best að nálgast viðfangsefnið út frá fræðimönnunum sjálfum sem hafa kennt sig við marxisma og taka fyrir þá sem hér voru til umfjöllunar.

Á fimmta áratugnum gekk Christopher Hill (1948) mjög langt í því að afneita hagrænni nauðhyggju sem féll varla í kramið hjá mörgum flokksfélögum hans (þó hjá sumum þeirra) sem og ,,marxistum” austantjalds en þar var söguleg nauðsyn eða nauðhyggja ríkjandi söguskoðun, a.m.k. hjá ráðamönnum. Efnahagsleg nauðhyggja og hin ,,óhjákvæmilegu sögulegu lögmál” var þá grundvallarrök eða –afsökun þarlendra stjórnvalda fyrir tilvist sinni.

Christopher Hill segir m.a. þetta: ,,Marxistar trúa hvorki að sagan sé gerð af miklum mönnum né að efnahagslegar breytingar gefi sjálfkrafa pólitískar niðurstöður. T.d. hefði rússneska byltingin átt sér stað, en ef Lenín hefði ekki verið, þá hefði hún eflaust tekið aðra stefnu”. Þarna talaði hann ekki fyrir hönd allra marxista (afneitun lögmálahyggju að vissu leyti) en slíkar hugmyndir náðu einnig til Íslands.

Gísli Gunnarsson sagnfræðingur, var á svipaðri skoðun og Christopher Hill en hann snérist þó af meiri ákafa gegn sögulegri nauðhyggju og trotskýisma, eftir að hafa m.a. þurft að taka afstöðu til glæpa framda af sovéskum stjórnvöldum á valdaskeiði Stalíns.

Isaac Deutscher, frægur fræðimaður, sem skrifaði ævisögu Stalíns árið 1952 og afsakaði glæpi hans með því að þetta hafi verið óhjákvæmilega söguleg nauðsyn til þess að koma á fyrirmyndarríki á jörðu. Þessi skoðun er andstæð rökfræði eða gagnrýnin þekkingafræði (e. dialektic) sem í grófum dráttum heldur fram samspili allra hluta í samfélaginu.. Þessi kenning varð hins vegar að haldreipi margra, meðal annars sumra trotskýista og á Íslandi en þar varð þessi hugmynd uppáhaldskenning upplýstra sósíalista – kommúnista eins og Gísli rekur ágætlega í grein sinni ,,Söguleg nauðsyn” (vefritið Kistan, 2000).

Haldreipi Gísla varð aftur á móti, að hans sögn, hinn siðrænni húmanistmi sem hann kynntist á 7. áratugnum (sem sé e.k. blanda af existentialisma og og efnishyggju). Þessi kynni urðu til þess að sannfæra hann um persónulega ábyrgð einstaklinga á gjörðum sínum og um ,,frjálsan vilja” hvers manns og hann varar sérstaklega við sögulega efnishyggju (það sé efnisheimurinn sem ráði hugmyndum) en hún geti leitt til nauðhyggju (allt sé ákveðið fyrirfram).

Eugene Genovese (1971) snérist einnig af alefli gegn allri hagrænni nauðhyggju, líkt og Gísli Gunnarsson, og er greinilega mest í nöp við klíómetranna, einkum Robert William Fogel, og ásakar þá um verri hagræna nauðhyggju en þá marxista sem hann skammar. Hann segir að marxísk túlkun bíður upp á óneitanlega tvíræðni/margræðni, sem skapar hættu á stefnu til efnahagslega nauðhyggju – hið grófa og gagnlausa sögulega kennikerfi að mati hans.

Hann kennir slakt gengi marxismans í Bandaríkjunum m.a. til þess að þarlendir menn rugli marxismanum saman við efnahagslega nauðhyggju. Andmarxistar meðal sagnfræðinga rugla oft þessum hlutum saman, og þar sem auðvelt er að kveða niður hugmyndir efnahagslega nauðhyggju, meðhöndla þeir um leið marxisma sem fyrirbrigði sem hafi ekkert gildi.

Annað sem háð hefur marxismanum í Bandaríkjunum er misskilningur hina opinberu marxista á hinni marxískri kenningu. Það er að þeir hafa kynnt hana á hinum almenna grundvelli sem efnahagslega nauðhyggju og á því stig sem sérstakri grein af þröngsýnni örlagatrú.

Eugene Genovese segir að ef marxismi sé misskilinn sem efnahagsleg nauðhyggja, bæði af vinum og óvinum, sé það að hluta til vegna Marxs og Engels sjálfra. Marx, kennismiðurinn var saklaus af slíku, en Marx, blaðamaðurinn og ritgerðasmiðurinn, var ekki alltaf saklaus. Með tilhneigingu til efnahagslegrar túlkunar og óagaðrar stjórnmálalegri ástríðu, skrifuðu þeir Marx and Engels ekkert af gagni eða gagnrýni um hluti eins og t.d. þrælahaldið í Suðurríkjunum. Kjarninn í málflutningi hans er að hann segir að Marx og Engel segi okkur að hugmyndir vaxi af félagslegri tilveru, en hafi líf út af fyrir sig.[1]  Samkvæmt þessu má skilja þetta svo að mennirnir séu sínir eigin örlagavaldar og ekki háðir hinum efnislega heimi við ákvörðunartöku nema að nokkru leyti – e.k. samspil sé hér að ræða.

E.J. Hobsbawn (1984) heldur því fram að marxísk söguritun sé í dag marggátuð eða marghliða. Einföld og kórrétt túlkun á sögunni er ekki arfleiðin sem Marx lét okkur í té (sem þó varð arfleið marxismans frá 1930), a.m.k. er hún ekki lengur viðurkennd. Þessi (e. pluralism) marghliðunarhyggja hefur sinn galla. Hún hefur greinilega meiri áhrif meðal þeirra sem kennigera söguna en þeirra sem skrifa hana. Marghliðunarhyggjan er óhjákvæmilegur hluti sagnaritunar í dag og ekkert rangt við hana segir hann. Vísindi er samræða milli mismunandi sjónarmiða. Þau hætti hins vegar að vera það þegar það eru engar aðferðir eru fyrir ákvörðun á því hvaða skoðun sé röng eða beri síst árangur.

Hobsbawn segir hins vegar ekki hreint út hvar hann stendur gagnvart þessu máli en sýnir þó viss merki um afneitun á allri nauðhyggju með því að viðurkenna marghliðunarhyggjuna.

Til þess að svara spurningunni sem felst í titli þessa prófssvars, þá er stutt og laggott svar við henni: já og nei, en slíkt svar dugar ekki eitt og sér og rekja verður ,,söguna” til þess að geta svarað henni.

Lögmálahyggja á rætur að rekja til áhrifa frá náttúruvísindunum, einkum eins og þau birtust mönnum á 19. öld en þá bjuggu fræðimenn til skýlaus samfélagslögmál. Einn af þeim var Ricardo sem hafði aftur á móti áhrif á Karl Marx og lærisveina hans annars vegar og hins vegar á marginalistanna (stefna sem kom upp á seinasta hluta 19. aldar) sem skópu þá nýklassísku hagfræði sem er í dag ríkjandi í háskólum og stjórnkerfi Vesturlanda (Gísli Gunnarsson, fyrirlestur í desember 1999).

Lögmálahyggjan á því sér langa sögu og henni hefur verið mis hart haldið fram í tímanna rás en því sem nær okkur dregur í tíma, hefur hún verið á undanhaldi.

Já, lögmálahyggjan var einhver helsta stoðin í hugmyndakerfi sumra marxista lengi framan af, m.a. í austantjalds marxistanum síðan um 1930, en margir marxistar snérust gegn þessari hyggju upp úr miðri 20. öld, sumir gengu alla leið en aðrir skemmri, og segja má að nú sé marxísk söguritun í dag marggátuð eða marghliða eins og Hobsbawn bendir á.

Nei, hún er í andstöðu við sjálfan marxismann, ef marka má Eugene Genovese, en hann segir að Marx og Engel segi okkur að hugmyndir vaxi af félagslegri tilveru, en hafi líf út af fyrir sig. Með öðrum orðum segir Genovese okkur að meginatriði marxismans sé, að hann fjalli um stéttarbaráttu og slíkt sé ósamrýmanlegt hugmyndum um ,,óhjákvæmilega framvindu” sögunnar, nauðhyggja sé því ekki helsta stoð hins upprunalega marxisma.

[1] Hann segir í framhaldinu að sérstakur grundvöllur, framleiðsluhættir (e. mode of prodution) muni framkalla samsvarandi yfirbyggingu (e. superstructure) – stjórnarkerfi, hugmyndakerfi, menningu o.s.frv. en þessi yfirbygging muni síðan þróast samkvæmt eigin lögmálum (logic) sem og einnig sem samsvörun við þróun grundvallarins (framleiðsluhættina).

Annars er það merkilegt að það skuli vera kenndur marxismi í háskólum heims ennþá, í ljósi þess að þessi kenning hefur reynst vera kolröng eins og sjá má í framkvæmd alls staðar og reyndar vitsmunalega séð einnig.

Nýjasta dæmið um mislukkaðan sósíalisma er í sjálfri háborg kapitalisma - Bandaríkjunum - en stefna hefur skilið eftir sviðna jörð þar í landi síðastliðið eitt ár. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband