Talibanar taka tvær héraðsborgir í Afganistan

Það er í fréttum að Talibanar séu í stórsókn og stjórnarherinn ráði ekki við eitt eða neitt. En nota bene, ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Það hefur farið lítið fyrir því en héraðshöfðingjar - stríðsherrar, eru að safna að sér liðafla og vopn.  CIA verður með annan fótinn þarna og sér til þess að útvega vopn eins og í stríðinu gegn Sovétríkin. Talibanar réðu og réðu ekki Afganistan á sínum tíma. 

Ómögulegt er í raun fyrir miðstýrða stjórn að stjórna landinu vegna, eins og ég hef áður sagt, ólík þjóðerni, tungumál og menning og vegna landfræði landsins. Landið er fjöllótt og er eins og Tíbet, á þaki heimsins.

Kíkjum aðeins á sögu borgarastyrjaldarinnar í Afganistan sem skipta má í tvö tímabil. Frá 1992-1996 og 1996-2001.

Fyrri hluti borgarastyrjaldarinnar 1992 -1996

Fyrra tímabilið hófst 28. apríl 1992, daginn sem ný bráðabirgðastjórn átti að leysa af hólmi lýðveldið Afganistan, Mohammad Najibullah forseta, og endar með sigra talibana í Kabúl og stofna íslamska emíraldæmis Afganistan 27. september 1996.

Þann 25. apríl 1992 hafði borgarastyrjöld kviknað milli þriggja, síðar fimm eða sex, mujahideen herja, þegar Hezb-e Islami Gulbuddin undir forystu Gulbuddin Hekmatyar sem var studdur af pakistanska leyniþjónustunni (ISI) neitaði að mynda samsteypustjórn með öðrum mujahideen hópum og reyndu sjálfur að sigra Kabúl.

Eftir fjóra mánuði hafði þegar hálf milljón íbúa í Kabúl flúið borgina eftir mikla sprengjuárásir. Næstu ár mynduðu nokkrir þessara herskáu hópa margsinnis samtök og brutu þau jafnan aftur.

Um mitt ár 1994 höfðu upphaflegar íbúar Kabúl, tvær milljónir, farið niður í 500.000. Á árunum 1995–96 var ný herská herhreyfing  talibanar mynduð, studd af Pakistan og ISI, orðin sterkasta aflið.

Í lok árs 1994 höfðu talibanar náð Kandahar, árið 1995 tóku þeir Herat, í byrjun september 1996 tóku þeir Jalalabad og að lokum í lok september 1996 náðu þeir Kabúl. Baráttan myndi halda áfram næstu ár, oft á milli nú ríkjandi talibana og annarra hópa.

Seinni hluti borgarastyrjaldinnar 1996-2001

Annar hluti borgarastyrjaldarinnar er tímabilið frá því Talibanar sigruðu Kabúl og stofnuðu Íslamska emíraldæmið (furstaveldi) í Afganistan 27. september 1996 og innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Afganistan þann 7. október 2001: tímabil sem var hluti af afgönsku borgarastyrjöldinni sem hafði hafist 1989, og einnig hluti af stríðinu (í víðari skilningi) í Afganistan sem hófst 1978 með innrás Sovétríkjanna.

Ríki íslamska ríkisins í Afganistan var áfram viðurkennd ríkisstjórn Afganistans af flestum ríkjum alþjóðasamfélagsins, íslamska emíraldæmi talibana í Afganistan fékk hins vegar viðurkenningu frá Sádi-Arabíu, Pakistan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Varnarmálaráðherra íslamska ríkisins í Afganistan, Ahmad Shah Massoud, stofnaði Sameinuðu fylkinguna (Norðurbandalagið) í andstöðu við talibana. Sameinaða fylkingin eða bara Norðurbandlagið innihéldu öll afgönsk þjóðerni: Tajika, Úzbeka, Hazara, Túrkmena, suma pashtúna og aðra.

Í átökunum fengu talibanar hernaðarlegan stuðning frá Pakistan og fjárhagslegan stuðning frá Sádi-Arabíu. Pakistanar gripu hernaðarlega inn í Afganistan og sendu herdeildir og hersveitir landamærahera sinna og hersins gegn Norðurbandalaginu. Al Kaída studdi talibana með þúsundum innfluttra bardagamanna frá Pakistan, arabalöndum og Mið -Asíu.

Þetta var staðan þegar Bandaríkin og vestræn ríki gerðu innrás í Afganistan. Borgarastyrjöld í fullum gangi. 

Sagt er að Afganistan sé grafreitur stórvelda, en landið er líka grafreitur Afganista, því að þeir geta ekki sjálfir haldið landinu saman. Það á ekki að reyna að halda því saman, heldur að skipta því upp eftir þjóðerni og tungumáli (og hvernig landslagið myndar náttúruleg landamæri).

Afganistan er fjölþjóðlegt samfélag og aðallega ættkvíslasamfélag. Íbúar landsins samanstanda af fjölmörgum þjóðernishópum: Pashtúnum, Tajiksta, Hazara, Úsbekista, Aimaq, Turkmena, Balocha, Pashaia, Nuristananna, Gujjar, Arabar, Brahuiar, Qizilbashar, Pamiriar, Kirgisistanar, Sadatar og fleirum. Þessir þjóðernishópar búa flestir saman á ákveðnum landsvæðum og auðvelt að mynda landamæri eftir þjóðerni.

En helsta vandamálið er að stærsta þjóðarbrotið eru Pashtúnar sem búa í Pashtuúnistan, á svæði sem er Suður-Afganistan og Norður Pakistans. Pashtunar eru 48% af heildarmannfjölda Afganistans og samtals í heiminum um 63 milljónir. Þessi þjóð býr beggja vegna landamæra Afganistans og Pakistans en Bretar bjuggu til þessi landamæri. Pakistanar munu aldrei leyfa þeim að sameinast í eitt ríki og missa sneið af riki sínu.

Um undanhald Bandaríkjanna og bandamanna þeirra

Aðeins nokkrar setningar í viðbót um brottför, undanhald eða flótta, hvað sem menn vilja kalla þetta um brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan.

Það stefnir í sneypulegan endir á dvöl Bandaríkjahers í landinu. Bera má þetta við lok Víetnamsstríðsins en það endaði betur, þótt Bandaríkjamenn telja sig hafa tapað stríðinu. Í fyrsta lagi var samið um frið. Brotthvarf hersins úr landinu var skipulagt og í fullu samræmi við friðarsamkomulag. Í öðru lagi hélt stjórn Suður-Víetnams velli næstu tvö árin, og féll ekki fyrr en Bandaríkjamenn hættu að senda þeim vopn og fjármagn. Suður-víetnamski herinn tapaði fyrir þeim norður-víetnamaska.

Í tilfelli Afganistans eru engir samningar haldnir og talibanar nenna ekki einu sinni að bíða eftir að Bandaríkjaher fari úr landi, sem Norður-Víetnam gerði þó. Hætt er við að stjórn landsins falli mjög fljótt en þá gerist það sem ég hef verið að rekja hér að ofan, borgarastyrjöldin hefst að nýju. Talibanar eru það hataðir og menn eru minnugir miðaldarstjórn þeirra (sem meira segja þarna telst vera einstaklega harðneskjuleg).

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Birgir.

Ég þakka þér fyrir þessar skemmtilegu færslur þínar, en langar þó aðeins að leggja orð í belg.

Mér finnst örlítið skína í gegn að þú sýnir heimsvaldastefnu Bandaríkjana aðeins of mikinn skilning fyrir minn smekk, eða getur þú verið mér sammála um að Vesturlandabúar eigi að láta aðrar heimsálfur um sín mál og mistök í friði?

Hvað mig varðar, þá hef ég frá síðustu aldamótum dvalið mikið í Kína og fylgst með þróun mála hjá þeim vítt og breitt, en nú rétt síðustu árin fer það í mínar fínustu hvernig neikvæð umræða um Kína er stunduð hér á Íslandi í vaxandi mæli.

Það er auðvitað skiljanlegt að hnignandi stórveldið í vestri óttist að falla í annað sætið, en er ekki órökrétt að Íslendingar fái illt í rassinn, þó (friðsamir) Kínverjar verði öflugari?

Ég get auðvitað bætt við að skiljanlega eru margar helstu "kanamellur" þjóðarinnar (af báðum kynjum) framalega í flokki andstæðinga Kínverja og meir að segja á hinni ágætu útvarpsstöð Sögu, eru illgjarnar og iðulega upplognar sögur bornar út fullum fetum af stjórnendum stöðvarinnar. Auðvitað er mánaðarlegum stuðningi mínum við fyrirtækið þar með lokið.

Og talandi um Kínverja, þá er ég orðinn þeirrar skoðunar að mannréttindabrot og spilling séu meira vandamál hér á Íslandi en þar og bíð ég því spenntur eftir að heyra álit þitt á samanburðinum, þegar að því kemur.

B.kv.

Jónatan Karlsson, 8.8.2021 kl. 10:57

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Jónatan. Gaman að heyra þína skoðun. 

Ég er sagnfræðingur en fyrst og fremst Íslendingur.  Ég var því fegið þegar Bandaríkjaher fór af Keflavíkurflugvelli 2006 en halda þó áfram að veita okkur vernd úr fjarlægð. Helst hefði ég viljað að Íslendingar kæmu sér upp eigin her (og hagi sér eins og sjálfstæð þjóð) en það er önnur saga.

Ísland er lítið ríki og við verðum að passa okkur að eiga góð samskipti við öll stórveldi, þá á ég við Bandaríkin, Rússland og Kína sem og við gerum. En ég gagnrýni þau öll og ef ég hef gagnrýnt eitthvað stórveldi mest, þá er það Bandaríkin, sbr. greinar mínar um Víetnam o.s.frv.

Í þessari grein er ég í raun að beina spjótum mínum að stjórn Bidens og hörmulegt undanhalds Bandaríkjahers frá Afganistan undir hans forystu. Donald Trump hafði samið frið við talibani og þess vegna var ákveðið að yfirgefa landið. Ég held að talibanar myndu ekki þora að hefja stórátök eins og nú, ef hann væri við völdin. Talibanar hafa líkt og Rússar og Kínverjar séð að það er engin fyrirstaða í Joe Biden né er borin nokkur virðing fyrir honum. Ég hef aldrei séð meira en 100 manns á rallíum hans en hann á að vera vinsælasti forseti frá upphafi. Þessi óskipulagði flótti mun hafa afleiðingar fyrir afgönsku þjóðina.

Það virðist vera sem Demókratar hafi enga stjórn í eigin landi.  Í fyrra voru skilgreindar um 300 óeirðir í borgum demókrata með tilheyrandi eignarspjöll og drápum.  Í ár eru Bandaríkamenn að ná Mexíkönum í morðum en morðtíðin (og almennir glæpir) í landinu hefur náð nýjum hæðum. Svo opna þeir landamæri og segja veskú og hleypa milljónum manna inn í landið án þess að skima fyrir Covid eða athuga hvort þetta séu glæpamenn eða hryðjuverkamenn. Óðaverðbólga framundan, hækkandi skattbyrði og Bandaríkin verða aftur háð olíu erlendis frá (með tilheyrandi stríðum til að vernda þá hagsmuni), það er öll efnahagsstjórnin og stjórn yfirhöfuð.

 

Birgir Loftsson, 8.8.2021 kl. 11:39

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Hér er fréttaskýring RÚV, takið eftir þriðja talibananum sem er með andlitsgrímu, sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að þeir hika ekki við að drepa almenna borgara með köldu blóði en hafa miklar áhyggjur af eigin heilsu.

https://www.ruv.is/frett/2021/08/09/hverjir-eru-their-thessir-talibanar

Birgir Loftsson, 9.8.2021 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband