Búríkratía í örríkinu Ísland og þekkingaleysi þingmanna

Byrjum á skrifræðinu. Litlir kóngar og drottningar sem stjórna stofnunum hafa gríðarleg völd. Þeir taka þröngar ákvarðanir út frá hagsmunum stofnana sinna og reglugerðum þeirra. Ákvarðanir þeirra eru kannski réttar en í samhengi máls kolrangar. Tökum nýlegt dæmi. Trjáfelling í Öskjuhlíð.  Há tré ógnuðu aðflugsleið á eina flugbrautina. Bannað var því að nota þá braut og engin undantekning, jafnvel ekki fyrir sjúkraflug. Bannið átti sem sagt að bjarga mögulega mannslífum en ógnaði í raun bráðveiku fólk sem þurfti nauðlega komast undir læknishendur á stundinni. Ekki var kvikað frá "réttu" ákvörðunni.

Annað dæmi er Teigsskógur en ein stofnun, Skipulagsstofnun, kom í veg fyrir að vegur var lagður í gegnum hríslur og runna um árabil. Málið var í "ferli" kerfisins í tvo áratugi! Sjá slóð: 22 og 27/2020 Teigsskógur  Málið leystist á endanum og vegur lagður í gegnum hríslur og runna sem rifist var svo lengi um! Lengi má telja upp hversu möppudýrin, afsakið, skriffinnarnir eru að þvælast fyrir og tefja mál. Er ekki að segja að stofnanir taki ekki á málum, heldur vinnubrögðum þeirra.

Æðstu embættismenn ríkisins, eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar - Alþingismenn, erum margir hverjir óhæfir til starfa. Það er kannski ekki sanngjarnt að kenna kjósendum um mannavalið á Alþingi, því að það eru stjórnmálaflokkarnir sem raða á lista sína. Oftast eru það þeir sem eru þaulsetnastir á fundum og samkundum flokkanna, þeir sem eru í flokksstarfinu daginn út og inn, koma sér í mjúkinn hjá flokksforustunni og uppskera í laun sæti á þingi. Þarna situr þetta fólk og gerir lítið. Það tekur þátt í atkvæðagreiðslum með skýrum skilaboðum frá formanninum hvernig eiga að kjósa.

Nútíma þjóðfélag er flókið, angar þess eru fleiri en fólk almennt grunar. Atvinnulífið er t.d. með ótrúlega flott frumkvöðlastarf sem fáir vita af. En kerfið eða bálknið er stórt og flókið. Það tekur góðan tíma og þekkingu að kunna inn á það.  Margir þingmenn hafa enga þekkingu á stóru málunum og ætla sér ekki að þekkja þau. Þeir kvarta yfir að fá ekki að vaða inn á skítugum skóm á Alþingi, svona til að segja eitthvað!

Svo verður þingmaðurinn að kunna staðsetja sig í tíma og rúmi. Hvað er átt við með því? Jú, það væri til dæmis gott að kunna eitthvað í sögu og félagsfræði. Það er hvernig þetta þjóðfélag sem þeir eru að stjórna virkar og hvernig það hefur orðið svona. Ákvarðanir sem eru teknar í dag, eiga að taka mið af sögunni/reynslunni og varða leiðina inn í nána framtíð. Er nokkurn tímann teknar ákvarðanir og settar í lög, sem varða framtíðina? Þ.e.a.s. ekki bara út frá hvernig tiltekið mál er í dag, heldur hvernig það verður eftir nokkra áratugi?

Tökum dæmi. Kjaramál. Það væri til dæmis frábært fyrir ráðherrann eða þingmanninn að þekkja sögu verkalýðsbaráttunnar, til að skilja kröfur stéttafélaga í dag. Af hverju að krefjast 40 klst stundna vinnuviku? Og af hverju nú 36 klst vinnuviku? Getur verið að þjóðfélagið sé að fara í gegnum fjórðu "iðnbyltinguna" með tilkomu gervigreindarinnar og flest öll störf sem nú eru unnin, hverfa? Hvað á þá að gera?

Með öðrum orðum, Íslendingar þurfa á að halda að inn á Alþingi veljist fólk með mikla menntun (a.m.k. þekkingu) en ekki fólk sem er gott í að sleikja upp forystumenn flokkanna og er gott í bakherbergja makki. Er nokkur furða að þjóðfélaginu er illa stjórnað, ríkissjóður rekinn með halla í góðæri og illæri, innviðir handónýtir og ákvaðanir teknar út frá hagsmunum örminnihlutum og um leið troðið á réttum meirihlutans. Eiginleikar þeirra sem komast á þing, eru nefnilega ekki þeir persónuleika einkenni sem þjóðfélagið þarf á að halda! Heldur þvert á móti og á hinn veginn. Hér er verið að tala um dyggðir og gildi borgarans sem þingmenn eiga að enduspegla. Kem inn á það í næstu grein.


Bloggfærslur 23. mars 2025

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Mars 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband