Falsfréttir (e. fake news) og falssaga (e. fake history)

Allir vita hvað falsfréttir eru, enda dagleg umræða í þjóðmálaumræðunni. Færri vita hvað falssaga er en hafa samt verið borið á borð fyrir.  Hugtökin falsfréttir og falssaga lýsa bæði röskun á sannleikanum, en þau eru ólík að umfangi, áhrifum og tímaramma.

Byrjum að reyna að skilja hvað falsfréttir eru.  Þær eru uppspuni eða vísvitandi villandi upplýsingar sem kynntar eru sem rauntímafréttir. Tilgangurinn er oftast til að ná pólitiskum áhrif og eru venjulega skammtímaáhrif - til að hafa áhrif á skoðanir, kosningar eða félagslega hegðun.  Til þess eru fjölmiðlar og samfélagsmiðlar notaðir.

Árið 2016 dreifðust falskar sögur á netinu um að Frans páfi studdi Donald Trump sem var auðvitað rangt. Á tímum COVID-19 dreifðust uppspuni fullyrðingar um kraftaverkalækningar eða samsæriskenningar víða.

Eins og áður sagði eru áhrif skammvinn, hættuleg á því augnabliki, geta villt kjósendur sýn, kynt undir óeirðum eða valdið heilsufarsáhættu. En það leiðréttist oft með tímanum þegar nákvæmari fréttaflutningur kemur fram.

Falssaga er lægvísari og getur breytt þjóðfélögum til langframa. Það má skilgreininga hana sem röskun, afneitun eða uppspuni á sögulegum atburðum, oft kynnt í hugmyndafræðilegum, pólitískum eða menningarlegum tilgangi. Tilgangurinn er ætlaður að hafa langtímaáhrif – mótun sameiginlegs minnis, þjóðarvitundar eða pólitísks lögmætis.  Þessi aðferð var mikið notuð þegar stórríki Evrópu sameinuðust, svo sem Ítalía, Þýskaland, Frakkland og áður Bretland. 

En það er ekki nóg að breyta sögunni, það þarf að þjálfa kynslóðir upp í lýginni. Það er gert með menntun barna (það er gert í grunnskólum landsins í dag með innrætinu ný-marxískrar hugmynda, með útrýmingu kristni fræði o.s.frv.), áróðri, bókmenntum, minnismerkjum eða jafnvel þöggun/eyðingu. Sjá má gott dæmi um þetta með niðurrif styttu af Friðriki Friðrikssyni prests og stofanda KFUM hér um árið og engin sönnunargögn um að maðurinn hafi verið barnaníðingur.

En förum í sjálfa söguna eins og hún var kennd lengi vel. Rómantísk þjóðernishyggja á 19. og 20. öld lýsti stundum þjóðveldisöldinni sem "gullöld frelsis" en gerði lítið úr ofbeldi Sturlungaöldarinnar.  Hér er auðvitað verið að vísa í Íslandssögu bók Jónasar frá Hriflu sem kennd var í grunnskólum landsins um áratugi.  

Björn Jón kemur inn á þetta í pistli sínum á Eyjunni: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu .

Látum Björn Jón hafa orðið: "Þegar ég lærði sagnfræði við Háskóla Íslands á sínum tíma var mjög í tísku að úthúða Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu og sjálfsagt er það þannig enn. Einn prófessoranna sagði hana til þess fallna að "ala fólk upp í íslenskri þjóðerniskennd" og þar væru nánast eingöngu sagðar sögur "af glæsilegum köppum og viljasterkum konum af fornu". Þetta var sagt sögu Jónasar til háðungar en nú er ég orðinn þeirrar skoðunar að Íslandssaga sú sem sögð er börnum eigi einmitt ala á heilbrigðri þjóðerniskennd og vekja aðdáun á fornhetjum.

Íslandssaga Jónasar var fyrst gefin út 1915–1916 og kennd í barnskólum næstu sjötíu árin. Ástæða þess að hún entist svo lengi var hversu vel hún hentaði til barnakennslu, málfarið fagurt og efnið vel fram sett."

Gott og vel, Björn Jón lítur á sögukennslu sem ákveðið verkfæri til að móta þjóð. En það var ástæða fyrir því sagan var skrifuð frá rómantísku sjónarhorni á 19. og fram á 20. öld, jú, hún var nauðsynleg í sjálfstæðisbaráttunni. Ef nútíma saga hefði verið kennd þá, væri staðan kannski önnur í dag. Okkur væri kennt að Íslendingar hefðu verið óhæfir til að stjórna sjálfum sér og því leitað á náðir Noregskonungs (sömu rök og ESB sinnar beita í dag, við kunnum ekki að stjórna efnahag Íslands, Brussel gerir það betur). Íslendingurinn hafi verið lúsugur, búið í torfkofa, heimskur og óveraldarvanur. Þarna er farið í gagnstæða átt, einmitt til að ná fram ákveðna sögu túlkun.  Sannleikurinn fellur þarna einhvers staðar milli stafs og hurðar.

Þegar ritari var í námi, var búið að rífa söguna niður í öreindir, einsagan var komin fram. Nú átti að túlka söguna út frá sjónarhorni kotkarla í afskiptum eyðidal sem álpuðust til að skrifa dagbækur.

Og pólitískur umsnúningur var svo mikill, að kvennasagan skipti meiri máli en þjóðarsagan. Skrifaðir hafa verið lærðar ritgerðir (og skrifuð bók um hana?) um Ingibjörgu Einarsdóttur, um ágæti þessarar konu sem örlögin háttuðu svo til að hún giftist frelsishetju Íslendinga, Jóni Sigurðssyni. Aumingja kona gerði ekkert annað en að hella upp á kaffi fyrir gesti Jóns og bjóða fram bakkelsi. Þessari hliðarsögu, aukasögu, þurfa skólakrakkar að læra í dag! Og það í sífellt styttri sögukennslu í bæði grunnskólum og framhaldsskólum. Sögukennsla er komin niður í skötulíki og því skiptir máli hvað er borið fram.

Verra er kennslan í Háskóla Íslands og sagnfræðiskorið (nenni ekki að kalla deildina sagnfræðideild) og vinstri slagsíðan þar. Þegar sagnfræðin var að mótast á sjöunda og áttunda áratugnum, komu sagnfræðikennarnir úr vinstri ranni stjórnmálanna, hippakynslóðin. Annað er að sagnfræðin var frá upphafi kennd innan heimspekideildar sem hluti af svonefndum "almennum fræðum" eða "heimspekilegum fræðum". Fyrstu árin var sagnfræði ekki sjálfstætt nám, heldur tengd klassískum fræðum (latínu, grísku) og heimspeki. Hugtakið "sagnfræði" (sem vísindagrein) festist ekki fyrr en á 3.–4. áratugnum, þegar fleiri fræðimenn komu inn í deildina og sagnfræðin fór að aðgreinast sem sjálfstæð fræðigrein innan heimspekideildar. Á fyrstu áratugunum var sagnfræðin mest kennd sem "saga", og þeir sem luku prófi voru skráðir með "sögu" sem aðalgrein.

Um 1970 er formlega talað um "Sagnfræðiskor" innan heimspekideildar, með eigin starfsfólk, nemendafélag og skipulag. Hún hafði þá þróast úr því að vera bara ein kennslugrein yfir í að vera sjálfstæð fræðigrein innan háskólans. 

En eigin velgengni fylgir ábyrgð. Bakgrunnur frumkvöðlanna í sagnfræðikennslu skiptir máli og hann reyndist einhliða (líkt og í flestum vestrænum háskólum). Þeirra áhrifa gætir enn í dag. 

Ritari varð vitni að því að akademískt frelsi var ekki að fullu virt innan skorsins. Kennarar rifust fyrir opnum tjöldum fyrir framan nemendur! Sem er kannski bara ágætt en vei þeim sem koma með aðra sýn á Íslandssöguna eins og ritari þessa pistils kom með en hentaði ekki hugmyndafræði sósíalískra kennara skorsins. Flestir þeirra viðurkenndu stjórnmálaskoðanir sínar og er það vel að svo sé uppi á borðinu.En nemandi verður að passa sig á hvað hann skrifar. Örlög hans er í höndum kennarans.

Seinasta sem ritari heyrði af sagnfræðikennslu innan H.Í., er að enn er verið að höggva í sama knéra, kvennasaga og ný-marxísk hugmyndafræði í bakgrunninum. Þetta er helsta ástæðan fyrir að ritari hefur ekkert tengst og fylgst með umræðum sagnfræðinga síðan hann lauk námi. Jú, ritari þekkir aðferða- og hugmyndafræðina á bakvið vinnubrögð þeirra (margra - ekki má alhæfa).

Ef sagnfræðinemendur eru ekki frjálsari en þetta, hvað þá um almenna nemendur grunn- og framhaldsskóla og svo almenning? Hvað er verið að segja þeim? Sannleikann eða lýgi? Sagan er nefnilega samtíma pólitík og því oft falssaga og er langt í frá að vera vísindagrein. Sannleikurinn er þar með alltaf á reiki og bara verkfæri í höndum slóttugra aðila. Sagnfræðin er þar með fræðigrein sem þreifar á grugguðum botni sannleikans.

Lokaorð um falsfréttir og falssögu 

Falssagan er skeinuhættari til lengri tíma litið – þegar falskar útgáfur af sögunni eru festar í menntun, minnismerkjum og menningu móta þær sjálfsmynd og pólitískar ákvarðanir kynslóð eftir kynslóð. Að leiðrétta þær er afar erfitt.

Hvor er hættulegri? Falsfréttir eru eins og neisti – truflandi í augnablikinu. Falssaga er eins og hægfara eitur – hún síast inn í sameiginlegt minni, réttlætir valdakerfi og getur kynt undir stríð eða kúgun. Til dæmis: Falsfréttir geta haft áhrif á eina kosningu. Falssaga getur haft áhrif á heilar þjóðir í aldir.

Í stuttu máli: Falsfréttir stýra nútíðinni, falssagan stýrir bæði fortíð, nútíð og framtíð.


Bloggfærslur 2. október 2025

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Okt. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband