Fjölmiðlar hingað til sofandi en vaknaðir af værum blundi er varðar varnarmál

Það er skiljanlegt að íslenskir fjölmiðlar fjalli líðið um varnarmál dags daglega.  Stríð í Evrópu telst vera fjarlægt vandamál sem kemur Íslendingum lítið við.

Friður og hugarró Íslendingsins er þó við og við raskaður, með fréttum af varnarumsvifum á varnarsvæði NATÓ á Keflavíkurflugvelli og Helguvík. Ha, eru útlendingarnir að sinna vörnum Íslands? Nú, sei sei.

En svo verður veruleikinn raunveruleiki fyrir hann. Fréttir berast af að það er verið að skera á sæstrengi í Eystrasalti, í túngarði Norðurlandanna og allt í einu vaknar Íslendingurinn og segir: "Hvað með sæstrengina til Íslands"? Þarf ekki að gæta öryggi þeirra? Og netöryggi? Og flugöryggi? Og fjölþátta ógnanir?Þetta er orðið óþægilega nálægt Íslandi.

Mestu óvinir öryggis Íslands, VG og Píratar eru farnir af Alþingi Íslendinga. Þar með óheilbrigð andstaða við að landið sé varið. Það á eftir að koma í ljós hvernig varnarmálastefna nýju ríkisstjórnarinnar verður, en það veit á gott að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar tók við utanríkisráðuneytinu. Ef einhver ráðherra hefur vit á varnarmálum, þá er það hún og hún hefur áhuga. 

Búast má við að umsvif NATÓ stöðvarinnar á Miðnesheiði aukist jafnt og þétt og hafa þau aukist leynt og ljóst síðastliðinn áratug. Það eru ekki smáræðis peningar sem settir eru í að efla aðstöðuna. Árið 2019 voru t.a.m. settir 14 milljarðar í framkvæmdir við varnarmannvirkin. Annars vegar var uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins. 

Nýjasta nýtt eru fréttir af "flugvelli í boxi". Í frétt RÚV segir að "þrettán þúnd fermetra lager í sjö skemmum mun rísa á Miðneskheiði á næstum vikum. Þar verða geymd tæki og tól til að byggja nýjan flugvöll, reynist þörf á. Kostnaðurinn nemur um 13,5 milljörðum króna og er alfarið greiddur af bandaríska hernum."

Þar hafa þegar verið reist ný fjölbýlishús fyrir hermenn, en um 300 til 400 hermenn dvelja nú innan varnarsvæðisins á hverjum tíma. Flughlöð hafa verið stækkuð umtalsvert og 390 metra langur viðlegukantur í Helguvík er í bígerð, svo að stærstu herskip NATÓ geti lagt þar að. Þá verða eldsneytistankar stækkaðir og birgðageymslur fyrir flugvallarbúnað og stjórnstöðvar fyrir kafbátaeftirlit byggðar. Framkvæmdirnar eru fjölmargar og hlaupa á tugum milljarða króna. NATÓ borgar brúsann að mestu, en íslenska ríkið tekur þátt að hluta til segir í fréttinni "Ólíklegt að bandaríski herinn sé kominn til að vera" hjá RÚV og er haft eftir prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hvaðan hann hefur þá vitneskju væri fróðlegt að vita. Kannski að hann hafi símanúmer Pentagons í hraðvali.

Það er athyglisvert að umsvifin á Keflavíkurflugvelli hafa haldist í hendur við umsvif stríðsins í Úkraínu. Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins segir umsvifin á Keflavíkurflugvelli hafi byrjað 2014, eftir innrás Rússa á Krímskaga. Haft er eftir honum að hátt í 100 Íslendingar starfi við varnarmál dags daglega. Landhelgisgæslan er með varnarmálin á sinni könnu en samkvæmt upplýsingum frá henni starfa um 200 manns hjá stofnuninni. Þar af eru rúmlega 50 starfsmenn staðsettir á Keflavíkurflugvelli. 

Stjórnsýslulega er Íslendingar ágætlega virkir í vörnum Íslands en það vantar eftir sem áður Varnarmálaráðuneyti eða Varnarmálastofnun til að halda utan um alla anga varnarmála. Eins og staðan er í dag, er þetta ófaglega gert að dreifa ábyrgð og framkvæmd á þrjá aðila.  Varnarmál eiga eftir að vera í sviðsljósinu á árinu 2025 á Íslandi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.


Bloggfærslur 27. desember 2024

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband