Samfylkingin - að kaupa köttinn í sekkinn

Þeir flokkar sem skipta um föt eftir hver nýi eigandi eða stjórnandi er, eru ekki sannfærandi.  Svo á við um Samfylkinguna.

Tökum þekkt dæmi: Samfylkingin var fylgjandi opnum landamærum, allir máttu sækja um hælisvist og voru forvígismenn Samfylkingarinnar þar fremst í flokki. Má þar nefna Helgu Völu Helgadóttur, sem rak harðan áróður fyrir þessari stefnu og gott ef hún vann ekki sem lögfræðingur fyrir hælisleitendur. Logi Einarsson var þá formaður.

En nú er kominn annar formaður, Kristrún Frostadóttir og boðar raunsæisstefnu í útlendingamálum. Útlendingastefnan á nú að vera nokkuð hörð. En er hægt að treysta því að flokkurinn fylgi formanninum eða flokkurinn standi við orð sín? Þegar menn eða flokkar eru ekki staðfastir í hugsjónum sínum og gildum, finnur fólk fljótt á sér að ekki sé hægt að treysta viðkomandi.

Annað dæmi eru skattar: Við getum treyst því að Samfylkingin elskar skatta og mun leggja meiri skatta á ef hún kemst til valda. Skattpíndir borgarar sjá þá fram á að fleiri krónur fari í götótta vasa skattayfirvalda. Þarna er Samfylkingin samkvæmd sjálfri sér.

Við getum einnig treyst því að bálknið þennst út, ríkissjóður rekinn með halla árlega og ríkisvaldið með krumlur sínar í hvers manns koppi.

Undir forystu Loga hallaðist flokkurinn til vinstri. Sú stefna naut ekki vinsælda hjá almenningi. Þá var skipt um formann og allt í einu hallast flokkurinn til hægri og nýtur vinsælda fyrir vikið. Er hægri krataflokkur. Er þar kominn upp að hlið Sjálfstæðisflokksins sem er einnig krataflokkur í núverandi mynd.

Hvort er það? Til hægri eða vinstri? Lokuð landamæri eða opin? Meiri skattar eða minni? Bálknið minnkað eða stækkað? Það þýðir ekki að vera eins og vindhaninn á Bessastaðakirkju, snúast eftir pólitískum vindi hverju sinni.

 


Bloggfærslur 22. október 2024

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband