Borgarlínan er óraunhæf

Það er verið að selja okkur nýju fötin keisarans! Þegar vefsetrið um borgarlínuna er skoðað, er frekar lítið um upplýsingar. Dregnar eru upp grófar línur. Sagt er að nýja leiðarkerfið sé í vinnslu! Samt er kominn reikningur fyrir þessu ævintýri, sem hljóðar líklega upp á 250 - 300 milljarða króna.

Af hverju borgarlínu? Af því að íbúum mun fjölga töluverð næstu áratugi er sagt á vefsetri Borgarlínunnar. Er það víst? Borgir ekki aðeins stækka, þeim hnignar og sumar hverfa.  Sjá má þetta í Bandaríkjunum, til dæmis Detroit og fleiri borgum. Íslendingar eru hættir að eignast börn og ef fjölgun verður, þá er það vegna óhefts innflutnings útlendinga.

Sum sé, bjóða á upp á fjölbreyttari valkosti. En er þetta fjölbreyttara?  Á vefsetrinu segir: "Borgarlínan er hágæða almenningssamgangnakerfi (e. Bus Rapid Transit) sem mun aka að mestu í sérrými og hafa forgang á gatnamótum. Þannig styttist ferðatími og tíðni ferða eykst..." Borgarlínan 

Er þetta ekki grín? Bus Rapid Transit er bara strætisvagnaflutningar í beinni þýðingu.  Áfram á að nota strætisvagna, bæði fyrir svo nefndar stofnleiðir (Borgarlínan) og almennar leiðir. Þetta lítur rosalega flott út á korti, líkt og maður sér þegar maður notar lestir eða neðanjarðarlestir. Sjá: Leiðarkerfi en þetta eru bara strætisvagnaleiðir sem flestar eru þegar fyrir hendi!

Allt í lagi, það er ekki slæmt að strætó komist leiðar sinnar í þungri umferð (sem núverandi vinstri borgarstjórn hefur skapað með aðgerðarleysi í byggingu mislægra gatnamóta) en mér skilst á sumum stöðum á almenn umferð annarra ökutækja að víkja og fækka eigi akreinum sem fara þá undir strætóleiðinir (svo nefnda Borgarlínu)! Þetta er alveg galið og aðeins í brengluðu samfélagi eins og Íslandi, sem ég er farinn að trúa að við búum í, eru umbætur látnar vera á kostnað þess sem fyrir er og nothæft.

Eina vitræna í Borgarlínunni sem ég sé, er tilkoma Fossvogsbrúar. Frábært að byggja þessa brú, löngu kominn tími á en Adam er ekki lengi í paradís.  Brúin á aðeins að vera fyrir strætisvagna, gangandi vegfarendur og reiðhjól. Ekki fyrir almenna bílaumferð en nú þegar hefur verið svo mikil uppbygging íbúahverfa á Kársnesi, að umferðin þaðan stíflar umferðina sem fer yfir brúnna í Hamraborg á háanna tíma. Og ekki er hugsað um almenna bílaumferð. Við vitum að bílahatrið hjá vinstri mönnum í Reykjavík er mikið, en í forheimsku sinni athuga þessir vitringar ekki að önnur umferð, t.d. leigubíla og vöruflutningabifreiða tefst líka. Vöruflutningar eru miklir með trukkum og sendibílum (sem enginn minnist á) á vegum höfuðborgarsvæðisins. Tafir í umferð, kosta því fyrirtæki stórfé árlega. Ég hef ekki séð einn einasta stjórnmálamann minnast á þennan falda kostnað.

Kenna ætti borgarstjórnar meirihlutanum í Reykjavík kortalestur. Kíkja má t.d. á Google kort yfirlitsmynd af höfuðborgarsvæðinu. Þar má sjá að umferðin frá Hafnarfirði (og Suðurnesjum) fer nú í gegnum Garðabæ og svo gegnum Kópavog. Í Garðabæ hafa orðið miklar lagfæringar á stofnbrautinni í gegnum bæinn sem hafa leyst mesta umferðavandann (enda hægri menn við stjórnvölinn í bænum sem hugsa í lausnum). 

Þeir sem búa í Hafnarfirði þekkja Engidal sem er umferðagatnamót í dalkvos. Þaðan liggur vegur til Álftaness í gegnum Gálgahraun. Þar er hraun sem búið er að "eyðileggja" hvort sem er og er autt og hægt er að nýta og þaðan er stutt á Bessastaðanes. Í Gálgahraun er nes eða tangi sem má nota sem brúarstæði yfir í Bessastaðanes og þaðan má leggja brú til svæðisins þar sem Sky lagoon er staðsett á annesi Kársness og áfram með nýjan veg til nýju Fossvogsbrúna. Þá erum við komin með hringbraut, fram hjá öll annesin (Garðabær og Kópavogur eru annes) og yfir í vesturbæ Reykjavíkur, til Suðurgötu sem nú þegar er stofnbraut.

Þetta myndi breyta öllu fyrir umferðaflæðið frá öllum nágrannasveitafélögum Reykjavíkur í suðri til miðborgar Reykjavíkur, háskólasvæðisins, Landsspítalans sem og Umferðamiðstöðina í vatnsmýrinni. Ferðatíminn styttist.

Samhliða þessu má byggja upp mislæg gatnamót á stofnbrautum, öllum til hags og hafa Miklubraut algjörlega umferðaljósa lausa. Svo vitlausir eru þeir í meirihluta Reykjavíkurborgar, að þegar Miklabraut sem liggur við Klamratún var endurgerð, voru umferðaljós fyrir gangandi umferð látin standa. Þannig á álagstímum, þegar einn einstaklingur ætlar yfir, stöðvar hann för hundruð manna sem þurfa að bíða í bílum sínum eftir að þessi einstaklingur fari yfir götuna. Af hverju ekki undirgöng? Og veggurinn sem settur var þarna upp er tifandi tímasprengja (grjótsprengja) ef bílar lenda utanvegar á grjótvegginn.

Svo er það Sundabrautin, sem vinstri stjórnin í Reykjavík, með Dag B.E. í fararbroddi, hefur lagt stein í götu, sem löngu er tímabært að smíða og myndi leysa umferðavandann til Grafarvogs og Mosfellsbæjar. 

Þetta er allt hægt að gera á yfirborðinu, án þess að skerða umferð annarra en hálftóma strætisvagna. Svo er það spennandi kostur að leggja neðanjarðarlestakerfi undir höfuðborgarsvæði og til Keflavíkur. Nóg er "plássið" neðanjarðar. Þetta er dýrt en varanleg lausn og dugar í aldir. Samanber elstu göngin í London, Thames göngin, sem gerð voru við frumstæðar aðstæður 1825 og eru enn til.


Ad hominem - Aðeins meira um gagnrýna hugsun og skólastarf

Ég hef bent á nauðsyn gagnrýnnar hugsunar og munurinn sem er á slíkri hugsun og skoðun.  Allir hafa skoðun eins og glögglega má sjá af harðri umræðu sem er í gangi í dag. Á markaðstorgi hugmynda verður að leyfa öllum hugmyndum/skoðunum að koma fram, annað hvort til að taka undir eða kveða niður með andsvari. Þetta gerði Sókrates eins og frægt er.

"Heim­spek­ing­ur­inn Sókra­tes hafði meiri áhrif á gang sög­unn­ar með hugs­un sinni en flest­ir aðrir menn. Hug­mynd­ir hans eiga enn brýnt er­indi við sam­tím­ann ef marka má nýja breska rann­sókn, sem bend­ir til þess að með því að kenna 10-12 ára börn­um „að hugsa eins og Sókra­tes“ með sókra­tísku aðferðinni í rök­ræðum, sé stuðlað að viðvar­andi fram­förum í and­legu at­gervi, sem nem­ur sjö punkt­um á greind­ar­vísi­töluskal­an­um.

Þykir þetta sýna að þjálfa megi upp gáf­ur, að sögn breska blaðsins The Daily Tel­egraph" en þetta er tekið upp úr Morgunblaðsgrein.

Sókrates hollur

Reyndar hefur Menntamálaráðuneytið aðeins staðið sig í stykkinu og gefið út heimspekiefni, en málið er bara að það er valfrjálst að stunda heimspeki í grunnskóla.  Benda má til dæmis á 68 æfingar í heimspeki sem Jóhann Björnsson tók saman.

A. Heimspekileikir (heimspekilegar upphitunaræfingar).

B. Skerpt á skynfærunum – Að taka eftir því sem birtist.

C. Að spyrja – Heimspekilegar spurningar.

D. Fullyrðingar.

E. Hugtakagreining.

F. Skapandi hugsun og ímyndunarafl.

G. Hvað skiptir máli? – Um mikilvægi.

H. Siðfræði, siðferðileg álitamál og heimspekilegar hversdagsklípur.

I. Gagnrýnin hugsun og efahyggja.

J. Hugsað heimspekilega um tungumálið, skólann, tóbak, áfengi og önnur vímuefni.

Eru þetta ekki frábærar æfingar fyrir barnið til að verða gildur borgari í framtíðinni? Eitt er öruggt, barnið verður betri námsmaður og persóna.

Í flóði upplýsinga nútímans, rangfærslna, óreiðu og gervigreindar, er ekki full nauðsyn að einstaklingurinn geti vinsað úr og greint það sem virkilega skiptir máli?

Rökbrot, felur í sér að draga athygli að persónu andstæðings í rökræðum í stað þess að hala sig við málefni og rök (versta sem maður gerir í rökræðum). Er þetta ekki einkenni nútíma umræðu í dag? Væri samfélagsumræðan ekki aðeins gáfulegri ef flestir hefðu tileinkað sér lágmarksþekkingu í heimspeki?

 


Bloggfærslur 16. september 2023

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Sept. 2025

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband