Færsluflokkur: Saga
Byrjum á hefðbundinni skoðun um hvers vegna Róm til forna iðnvæddist ekki. Forn-Róm hóf ekki iðnbylting af ýmsum samtengdum ástæðum - tæknilegum, félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum. Hið fyrsta var að orkulindir voru takmarkaðar og ekkert gufuafl til staðar. Lykillinn að iðnbyltingunni var notkun jarðefnaeldsneytis (sérstaklega kola) til að knýja gufuvélar (og er enn grunnorka nútíma iðnríkja). Róm treysti að mestu leyti á orku manna, dýra og vatns, en ekkert af þessu virkaði vel.
Enginn hvati til nýsköpunar var umfram vöðva. Með aðgang að miklum fjölda þræla var minni þrýstingur til að þróa vinnuaflssparandi vélar. Rómverjar gerðu tilraunir og komu með snilldarútfærslur á tæknilegum hlutum en það vantaði samtengingu milli hávísinda og hagnýtra vísinda. Kem inn á það síðar í pistilinum.
Önnur skýring er að vísindaleg aðferð og tæknileg beiting voru vanþróuð. Rómversk verkfræði var hagnýt, ekki fræðileg. Þeir voru framúrskarandi í að byggja vegi, vatnsveitur og byggingarlist, en þeir þróuðu ekki kerfisbundna, tilraunakennda vísindi sem gætu leitt til byltingar í orku, vélfræði eða efnafræði. Grísk náttúruheimspeki (sem hafði áhrif á rómverska hugsun) var hugleiðandi, ekki tilraunakennd (að mestu leyti).
Svo er það skortur á fjármagnssöfnun og fjármálastofnunum sem voru komnar fram á árnýöld. Bankar voru orðnir þróaðir á síðmiðöldum og þeir komu með fjármagnið sem þurfti til að knýja fram einkaframtakið til að hefja nýja iðngrein eða fyrirtæki. Þó að Róm hefði haft peningahagkerfi og einhverja bankastarfsemi, skorti það nútímaleg fjármálatæki, svo hlutafélög (sem Evrópumenn stofnuðu þegar þeir voru að leggja undir sig heiminn - hver kannast ekki við Austur Indía félagið?), kauphallir, einkaleyfi og stórfellda endurfjárfestingu fjármagns.
Auðurinn í Róm, sem nóg til var af vegna arðrán hertekina svæða, var yfirleitt notaður til landkaupa, munaðarneyslu eða stjórnmálalegs valds, ekki iðnaðarþróunar. Hagkerfi heimsveldisins var gríðarstórt en ekki fullkomlega samþætt á þann hátt að það myndi styðja miðstýrða fjöldaframleiðslu. Verslun var mikil en einbeitt var að munaðarvörum og nauðsynjavörum, ekki iðnaðarvörum eða vélrænni framleiðslu.
Svo var það viðhorfið til vinnu. Hjá rómversku yfirstéttinni var viðhorfið líkt og hjá evrópsku aðalmannastéttinni, hún leit á handavinnu og viðskipti sem lágstöðuiðnað. Gildi þeirra lágu í landeign, hernaði og stjórnarháttum, ekki nýsköpun eða framleiðslu. Hins vegar var komin fram borgarastétt í Evrópu á árnýöld sem var efnuð, menntuð og viljug til að fjárfesta.
Tæknibreytingar voru ekki endilega taldar framfarir; stöðugleiki og hefð voru oft metin meira en umbreytingar. Þó að hlutar heimsveldisins hefðu kol (t.d. Bretland), þá var ekkert efnahagslegt eða skipulagslegt kerfi til að nýta það í stórum stíl til iðnaðar. Járnframleiðsla var til staðar en var lítil og dreifð, án byltingar í málmvinnslu eins og í Englandi á 18. öld.
Fræðimaðurinn Kyle Harper kom með dýpri skýringu en hann lagði áherslu á skortinu á samleitni milli vísinda og tækni. Hvað er átt við með því?
Í Rómaveldi til forna voru vísindamenn (náttúruheimspekingar) og tæknifræðingar (handverksmenn, verkfræðingar) félagslega og vitsmunalega aðskildir. Harper sagði því að "Heimar abstraktrar fræðilegrar þekkingar og verklegrar tæknilegrar iðkunar voru áfram aðskildir." Sjá meðfylgjandi myndband.
Rómverska yfirstéttin var oft dregin að frumspeki, siðfræði eða náttúruheimspeki - ekki verklegum tilraunum enda var hún "aðalsmanna stétt" eins og sú sem var í Evrópu áður en borgarstéttin gekk í bandalag við konunginn/konungsvaldið og aflagði vald aðalsmanna og kom öllu af stað.
Verkfræðingar og handverksmenn voru hins vegar hagnýtir, oft af lágum félagslegum stöðu og skrifuðu ekki ritgerðir eða höfðu áhrif á vitsmunalíf yfirstéttarinnar og oft ekki mikið hærra skrifaðir en þrælarnir sem þeir kepptu við.
Iðnbyltingin átti sér hins vegar stað þegar vísindabyltingin átti sér stað á 17. öld og lagði abstrakt grunn (Newtons-vélfræði, varmafræði) að iðnvæddu samfélagi. Þessar abstrakt meginreglur fóðruðust síðan beint inn í tæknilegar uppfinningar (gufuvélar, málmvinnsla, efnafræði).
Harper notar hugtakið "þekkingarhindrun" til að lýsa hugmyndafræðilegri aðskilnaði í fornöld milli þess að skilja heiminn og umbreyta honum. Grísk-rómverska þekkingarlíkanið lagði oft áherslu á íhugun fremur en stjórn.
Þvert á móti leit Evrópa eftir vísindabyltinguna á þekkingu sem vald - hugmynd Bacons um að vísindi ættu að bæta mannlíf með því að ná tökum á náttúrunni. Upplýsingin var vendipunkturinn. Iðnbyltingin átti sér ekki stað á endurreisnartímanum, þrátt fyrir miklar framfarir í list og námi. Hún gerðist á upplýsinginni, þegar hugsuðir fóru að sameina skynsemi og nytsemi.
Harper bendir á að þetta var þegar náttúrulögmál fóru að upplýsa verkfræði:
Lögmál varmafræðinnar leiddu til gufuvélarinnar.
Uppgötvanir í efnafræði leiddu til nýrra iðnaðarferla.
Stærðfræði varð tungumál vélrænnar hönnunar.
Þessi samruni abstraktrar og hagnýtrar þekkingar var einfaldlega fjarverandi í Róm, jafnvel þótt þar væri mannafli, vegir og heimsveldi.
Kenning Harpers er því eftirfarandi:
Lykilmunurinn er ekki bara þrælahald, kol eða markaðir.
Það er heimspekileg og menningarleg aðskilnaður kenningar og framkvæmdar í fornöld.
Róm skapaði aldrei afturvirka lykkju milli vísinda og tækni.
Þetta gerir iðnbyltinguna ekki óumflýjanlega, heldur var afurð mjög sérstakrar vitsmunalegrar og menningarlegrar umbreytingar atriði sem Harper leggur áherslu á til að sýna fram á hversu einstök og nútímaleg sú samleitni í raun var.
Í stuttu máli heldur Harper því fram að iðnbyltingin hafi ekki eingöngu átt sér stað vegna efnahagslegra eða landfræðilegra þátta, heldur vegna einstakrar samleitni milli abstraktrar vísindalegrar þekkingar og hagnýtrar vélatækni - eitthvað sem Forn-Róm náði aldrei að höndla.
Að lokum, iðnbyltingin hefði ekki átt sér stað ef upplýsingin hefði átt sér stað. Bloggritari spurði ChatGPT út í þetta og hún segir:
Upplýsingin skapaði menntaðan verkfræðigrundvöll
Upplýsingin ýtti undir rökhyggju, vísindalega hugsun og almennari menntun.
Hún færði skynsemi og reynslu í öndvegi, og losaði hugann úr viðjum hefðar og trúar.
Menn lærðu að mæla, prófa, framkvæma tilraunir og betrumbæta hagnýtingu náttúrulögmála sem leiddi til tæknibyltinga.
Hugmyndir Newtons, Galileos og Descartes voru grunnur að þeim skilningi sem gerði vélar, orku og eðlisfræði skiljanlega.
2. Tæknin og vísindin voru afurð upplýsingarinnar
Iðnbyltingin byggðist á uppfinningum eins og gufuvélinni, spunavélum og vefnaðarvélum sem voru nátengdar nýrri vísindalegri þekkingu.
Þessi þróun gerðist ekki í tómarúmi. Hún byggði á aðgengi að bókum, ritum og skráningu afleiðing prentvélar Gutenbergs og upplýsingatímans.
3. Upplýsingin breytti samfélagsgerðinni
Hún leiddi til:
Aukin frjálslyndi
Tvískipting valds
Skilningur á eignarrétti og frjálsum markaði (t.d. hugmyndir John Locke og Adam Smith)
Þetta var pólitískt og efnahagslegt umhverfi sem studdi við nýsköpun og fyrirtæki.
Iðnbyltingin þurfti fagkerfi, réttarkerfi, eignarrétt og fjármálakerfi sem voru mótuð á grunni upplýsingarinnar.
En ChatGPT gleymir að minnast á prentbyltingu Gutenbergs (um 1450) var upphafspunkturinn sem gerði upplýsingaröldina, siðaskiptin, vísindabyltinguna og iðnbyltinguna mögulega. Hún var eins og kveikjan sem tendraði alla næstu bylgjur framfara. Þekkingin hætti að vera forréttindi fárra og upplýsingar bárust til allra.
Saga | 17.5.2025 | 10:04 (breytt 18.5.2025 kl. 12:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það tekur langan tíma að átta sig á veruleikanum sem við lifum í. Við fæðumst tabula rasa, og þurfum að byggja upp þekkingu okkar á umheiminum í raun sjálf. Flestir fá bara grunnþekkingu í sögu, bara yfirlitssögu. Fólk rétt þekkir eigin sögu (varla eigin ættarsögu) og þarf að lesa sér til ef það vill vita meira. Bloggritari er sagnfræðingur og þrátt fyrir áratuga stúdíu og lestur, eru brotin enn að raðast saman í heildarmyndina hvernig og af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru í dag.
Sjálfur fór bloggritari í gegnum langt háskólanám á yngri árum og ef hann hefði ekki verið vel lesinn áður, hefði hann látið sagnfræðikennaranna stýra sér. Þeir voru nefnilega upp til hópa marxista og sumir voru ekkert að fela það. Sögusýnin var eftir því, Nýmarxísk sýn á umheiminn. Þetta smitar svo niður skólakerfið, jú þessir sagnfræðingar sem útskrifast eru uppfullir af þessari hugmyndafræði og skrifa kennslubækur í þessum anda. Kennaraháskóli Íslands var hvað verstur í þessum efnum.
Í meðfylgjandi myndbandi er rætt um hvernig vestræn menning og saga er markviss rökkuð niður hjá virtum háskólum erlendis. Allt jákvætt sem gert hefur verið, gert lítið úr og hetjur eins og Winston Churchill eru bara rasistar.
Sagnfræðingurinn Rafe Heydel-Mankoo fer hér kerfisbundið í gegnum hvernig sagan hefur verið afbökuð. Hann segir að nýlendustefnan og kapitalisminn hafi í raun lyft mörgum ríkjum úr viðjum fátæktar. Hann tekur dæmi. Þrælahald. Þegar Evrópumenn komu að Vestur-Afríku í leit að þrælum fyrir nýja heiminn, mættur þeir fyrir margra alda gamla hefð fyrir þrælahaldi, mjög þróaðan álfumarkað. Þar voru Arabar öflugir en líka innlendir leiðtogar.
Evrópumenn fóru á markaðanna á ströndunum og keyptu á mörkuðum sem voru fyrir hendi. Svo gerðist það ótrúlega, en breska heimsveldið bannaði þrælahald og -sölu upp úr 1800 og lögðu mikið á sig að útrýma því. Þeim tókst að stöðva siglingu með þræla yfir Atlantshafið en þrælahald hélt áfram í innviðum Afríku, eða þar til Evrópumenn lögðu undir sig álfuna á seinni helmingi 19. aldar. Þeir þurftu að leggja mikið á sig til að stoppa söluna alfarið. Arabar héldu þrælasölu áfram á 20. öld og í raun er fólk enn selt í mansal í dag um allan heim.
Bresku nýlenduherrarnir voru ekki verri en það, að breska heimsveldið sleppti friðsamlega nýlendum sínum og nánast öll ríkin hafa kosið að vera hluti af breska samveldinu. Ríkin hafa haldið í margar breskar réttarhefðir og stjórnkerfisuppbyggingu. Saga þessara ríkja - margra - hefur ekki verið glæsileg síðan nýlenduherrarnir slepptu af þeim höndum. Það er ekki hægt að kenna nýlendustefnu um hvað fer úrskeiðis í dag þegar ríkið varð sjálfstætt fyrir 70 árum.
Hér á Íslandi hafa menn farið í kringum heitan graut. Kennt er hliðarsaga. Kennd er t.d. saga Ingibjargar Einarsdóttur, eiginkonu Jóns Sigurðssonar. Af hverju? Hvað gerði hún fyrir sögu Íslands annað en að skaffa kaffi og meðlæti fyrir gesti Jóns? Svona hliðarsaga er skemmtileg aflestrar fyrir sögunörda en kannski ekki fyrir almenna kennslu í grunnskólum.
Vinsæl er þáttaröð á Netflix sem kallast "Vikings". Þvílík afbökun á sögu er varla hægt að finna neinn staðar annars staðar. Konur eru sýndar sem bardagamenn og höggva mann og annan. Hafa þeir sem skrifa handritið farið í full herklæði og mundað sverð? Það þarf gríðarlega öfluga upphandleggs vöðva til að beita sverði, nokkuð sem konur hafa ekki. Konur fóru ekki í víking, því að hver átti að sjá um búið á meðan, barnaskarann og dýrin? Konur voru nánast alltaf óléttar vegna engra getnaðarvarna. Væri ólétt kona send á vígvöllinn?
Ef menn vilja í raun vita hvernig hernaður var stundaður á víkingaöld, þá ættu þeir að lesa Sturlungu sem er samtímasaga eða Sverris sögu konungs. Hernaður á 13. öld var nefnilega ekki frábrugðinn þeim sem stundaður var á víkingaöld. Hvergi er talað um að konur taki þátt í bardögum.
Að lokum. Sagan er ekki svart hvít. Menn gerðu margt rang en líka rétt fyrr á tíð samkvæmt okkar mælikvarða. En hvernig getum við dæmt annað fólk, með aðra menningu út frá nútímanum? Nútíma gildum. Erum við ekki föst í núinu og þeirri menningu sem við lifum í? Það sama gilti um fólkið á hverjum tíma.
rr
Saga | 7.4.2025 | 15:13 (breytt kl. 18:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar víkingaskip fóru að birtast meðfram ströndum Evrópu á 8. öld vöktu þau bæði undrun og ótta. Norðan menn birtust ekki bara með sverðum, heldur með vörur, tungumál, siði og allt annan lífsstíl. Samfélögin sem þeir hittu kölluðu þá ekki "víkinga" eins og við gerum í dag, heldur gáfu þeim nöfn sem endurspegla hvernig litið var á þá - sem ókunnuga, nágranna, gesti eða gesti sem maður var ekki alveg viss um hvernig ætti að meðhöndla.
Í Englandi voru þeir almennt nefndir Dane Danir hugtak sem notað er um alla þá sem koma að norðan, hvort sem þeir voru í raun danskir eða norskir að uppruna. Á Írlandi gerðu þeir greinarmun á dubgaill og finngaill - dökku og ljósu yfirliti útlendingarnir - kannski til að aðgreina þá eftir uppruna, tungumáli eða stíl, eða einfaldlega út frá því hvernig þeir birtust.
Í þýskumælandi héruðum voru þeir kallaðir askomanner - öskumenn - líklega innblásnir af skipum sínum, sem oft voru smíðuð úr öskuviði. Einföld athugun, en samt með næstum ljóðrænum hljómgrunni. Á múslima hluta Spánar var vísað til þeirra sem al-Majus, orð sem gæti þýtt allt frá heiðingjum til dularfullra utanaðkomandi aðila, sem undirstrikar hversu óþekkt bakgrunnur þeirra og trúarbrögð voru í þessum heimshluta.
Í Býsans var þeim fagnað sem málaliðum. Þar voru þeir kallaðir várangoi (Væringjar) og urðu hluti af lífverði keisarans - hinni ægilegu Varangian-vörður. Margir Skandinavar ferðuðust þangað að eigin vali í leit að auði, ævintýrum og heiður. Í Frakklandi voru þeir þekktir sem Normanni menn frá norðri nafn sem síðar átti eftir að kennast við Normandí og þeir Normannar þar sem afkomendur þessara norðlendinga myndu gegna lykilhlutverki í sögu Evrópu sem bestu riddarar Evrópu. Þeir áttu stóran þátt í töku Landssins helga og fleiri landa.
Saga | 29.3.2025 | 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er merkilegt að umdeildasti forseti Bandaríkjanna og sá versti skuli skiptast á að sitja á forsetastóli. Erfitt er að flokka menn niður og gefa þeim einkunn en ljóst er að Biden er meðal verstu forsetum Bandaríkjanna. Aðeins James Buchanan mætti flokka sem verri en vegna lélegri forystu hans, skiptist landið í tvennt 1861 og úr var borgarastyrjöld í Bandaríkjunum. Það má líkja Trump við Andrew Jackson sem var umdeildur en áhrifamikill forseti og svo var Ronald Reagan einnig þótt sagan hafi farið mildum höndum um hann.
Lítum á sögu Donalds Trumps var lengi þekktur sem auðugur viðskiptamaður og fjölmiðlapersóna, en hann hafði þó tjáð sig um stjórnmál frá 1980. Hann var skráður í bæði Demókrata- og Repúblikanaflokkinn á mismunandi tímabilum og íhugaði framboð til forseta árið 2000 fyrir Reform Party, en hætti við.
Það er því ljóst að hann er ekki harðlínu hugsjónarmaður, heldur praktískur í verkum. Hann er þó stöðugur í tali sínu um ólöglega innflytjendur og andstöðu við helstu andstæðinga Bandaríkjanna, fyrst Japan en síðan Kína.
Trump var vinsæll áður en hann bauð sig fram til forseta 2016 og fáir tóku hann alvarlega í fyrstu.
Í júní 2015 tilkynnti Trump framboð sitt fyrir forsetakosningarnar sem fulltrúi Repúblikanaflokksins. Hann lagði áherslu á slagorðið "Make America Great Again" og stefnu gegn ólöglegri innflytjendum, fríverslunarsamningum og pólitískri elítu.
Hann vann forkosningarnar Rrepúblikana 2016 með afgerandi hætti gegn helstu keppinautum sínum, m.a. Ted Cruz og Marco Rubio.
Trump vann svo forsetakosningarnar gegn Hillary Clinton 8. nóvember 2016, þrátt fyrir að tapa í þjóðaratkvæðagreiðslunni (Clinton: 48,2%, Trump: 46,1%). Hann vann samt meirihluta kjörmanna (304227).
Trump var 45. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 2017 til 20. janúar 2021 á dramatískum tímum.
Hann kom á skattalækkanir fyrir fyrirtæki og einstaklinga og niðurskurð í regluverki.
Trump fylgdi harðari stefna í innflytjendamálum en forverar hans, reyndi að reisa vegg við landamæri Mexíkó, en fékk takmarkað fjármagn til verka. Hann náði þó að reisa 450 mílur af nýjum vegg.
Eitt af mikilvægustu verkum forseta er að skipa hæstaréttardómara og hann skipaði Neil Gorsuch, Brett Kavanaugh og Amy Coney Barrett, sem færðu réttinn til hægri. Hæstaréttadómarar Repúblikana urðu þar með sex talsins og er talið að áhrif hans geta varið í áratug.
Trump dró Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu og Íran-kjarnorkusamningnum, hafnar hefðbundinni bandalagsstefnu, hittir Kim Jong-un í Norður-Kóreu fyrstur Bandaríkjaforseta. Kannski var helsta afrek hans að koma á friði milli Ísraela og sunní Araba með Abraham friðarsáttmálanum. Samkomulagið var undirritað 15. september 2020 í Hvíta húsinu og fól í sér formlega friðarsamninga milli Ísraels og nokkurra arabaríkja.
Jared Kushner (tengdason Trump og aðalráðgjafa hans) sem var lykilmaður í viðræðunum. Helstu aðilar voru Ísrael, Sameinuðu arabísku furstadæmin (SAF), Barein, Súdan og Marokkó. Ef einhver annar hefði komið á þessu samkomulagi en Trump, hefði hann fengið friðarverlaun Nóbels sem hann fékk ekki líkt og Jimmy Carter fyrir friðarstarf sitt eða Obama fyrir það eitt að vera kosinn forseti.
Alla forsetatíð sína þurfi Trump að berjast fyrir tilveru sinni og eftir að hann ákvað að bjóða sig fram aftur fyrir forsetakosningarnar 2024.
Frægast eru embættisafglapa ákærurnar á hendur hans (e.impeachment) Í desember 2019 var hann ákærður af fulltrúadeildinni fyrir misnotkun valds vegna Úkraínuhneykslisins en sýknaður af öldungadeildinni í febrúar 2020 vegna eins símtals sem reyndist vera ósköp saklaust.
COVID-19 faraldurinn (2020) var eftir vill það sem honum endanlega á hné. Trump var gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum, en stuðlaði að hraðri þróun bóluefna (Operation Warp Speed).
Trump tapaði fyrir Joe Biden en viðurkenndi ekki ósigur en kosninga fyrirkomulagið var óvenjulegt vegna faraldursins. Það má segja að hann hafi yfirgefið embættið með látum, rétt eins og hann fór í það.
Uppþót urðu 6. janúar 2021 er stuðningsmenn hans ruddust inn í þinghúsið í Washington D.C. í tilraun til að stöðva staðfestingu úrslita kosninganna. Hópur mótmælenda, að mestu stuðningsmenn Donalds Trump, fór með ólögmætum hætti inn í þinghúsið (Capitol) í Washington D.C. Markmið margra var að mótmæla staðfestingu kjörmannaatkvæða í forsetakosningunum 2020. Atvikið leiddi til óeirða, skemmda á eignum og átaka við lögreglu. Þingið var rýmt í nokkrar klukkustundir en fundur þess var haldinn áfram sama kvöld og úrslit kosninganna voru staðfest.
Ólík sjónarmið eru á málinu. Sumir líta á þetta sem óeirðir eða mótmæli sem fóru úr böndunum. Aðrir hafa kallað þetta "uppreisn" eða "valdaránstilraun" þar sem hópar innan mannfjöldans kölluðu eftir því að stöðva staðfestingu úrslita. Trump sjálfur hefur lýst því yfir að hann hafi hvatt til friðsamlegra mótmæla.
Embættis afglapa ákæra (önnur tilraun) í kjölfar óeirðanna var lögð á hendur hans. Trump var ákærður í annað sinn í janúar 2021 fyrir að hafa hvatt til uppreisnar, en sýknaður af öldungadeildinni í febrúar.
Lagaleg vandamál hafa fylgt honum eftir að hann tilkynnti framboð sitt til forseta embættis 2024 og allar ákærurnar voru á hæpnum forsendum af hendi Demókrata.
Trump tilkynnti framboð sitt til forsetakosninganna 2024 í nóvember 2022 og vann forkosningar Repúblikana með miklum yfirburðum.
Það er eiginlega tilviljun að Trump skuli enn vera á lífi. Marg sinnis var reynt að ráða hann af dögum, fleiri en þessi tvö skipti sem allir vita af. Á kosningafundi í Butler, Pennsylvaníu, var skotið á Donald Trump. Hann slapp með lítilsháttar meiðsli þegar kúla strauk eyra hans. Þrír aðrir særðust, þar af einn alvarlega. Gerandi var Thomas Matthew Crooks, 20 ára gamall maður frá Meridian, Pennsylvaníu. Hann var skotinn til bana af öryggisvörðum á vettvangi. Atvikið vakti upp spurningar um öryggisráðstafanir á kosningafundum og leiddi til endurskoðunar á verklagi.
Á kosningafundi í Miami reyndi Ryan Wesley Routh að skjóta Trump með skammbyssu. Öryggisverðir gripu inn í áður en Routh náði að skjóta, og enginn slasaðist. Tilræðismaðurinn heitir Ryan Wesley Routh, 25 ára gamall maður frá Tampa, Flórída. Hann var handtekinn á staðnum og bíður réttarhalda.Þessi atburður jók enn frekar áhyggjur af öryggi forsetaframbjóðenda og leiddi til aukinnar öryggisgæslu á viðburðum.
Þann 15. september 2024 var gerð tilraun til að ráða Donald Trump af dögum í Trump International Golf Club í West Palm Beach, Flórída. Árásarmaðurinn, Ryan Wesley Routh, faldi sig í runna nálægt golfvellinum með SKS-riffil. Hann var handtekinn af leyniþjónustunni áður en hann gat framkvæmt árásina. Enginn slasaðist í atvikinu.
Þessi atburður, ásamt fyrri tilraun til morðs í Pennsylvaníu, leiddi til þess að Donald Trump útnefndi Sean Curran, lífvörð sinn sem verndaði sinn í fyrri árásinni, sem yfirmann leyniþjónustunnar.
Að lokum. Donald Trump er einn áhrifamesti og umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Hann breytti Repúblikanaflokknum, hafði áhrif á bandarísk stjórnmál langt út fyrir forsetatíð sína en framtíð hans er enn óskrifuð er þessi grein er skrifuð en innsetningar athöfnin fer fram á morgun, 20. janúar. Jafnvel hún verður óvenjuleg, því hún fer fram innandyra vegna veðurs.
Menn þykjast vita á hverju þeir eiga von á er hann gegnir embætti. Hann verður elskaður og hataður eins og áður. En ef til vill örlítið vinsælli en áður miðað við viðbrögðin frá kosningunum 5. nóvember til dagsins í dag.
Saga | 19.1.2025 | 18:06 (breytt 20.1.2025 kl. 13:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Menn vilja alltaf gleyma því að austurströnd Grænlands hefur alltaf verið strjábýl, jafnvel ennþá daginn í dag búa fáir Grænlendingar þar. Ástæðan er einföld, miklu meiri ís er þarna og illgreiðfært þangað nema yfir Grænlandsjökul á sleðum sem danski hermenn gera enn í dag eða með þyrlum eða flugvélum.
Þegar Inúítar lögð loks undir sig Grænland allt undir lok síðmiðalda, fór fámennur hópur þeirra til Austur-Grænlands og einangruðust þar málfarslega og kynþáttalega. Svo er enn í dag.
Norrænir menn og Eiríkur rauði sérstaklega uppgötvuðu það fljótt að ekki var hægt að búa á Grænlandi nema á tveimur stöðum, Vestri byggð og Eystri byggð. Svo er enn í dag að fleir búa á tveimum litlum svæðum á vesturströnd Grænland sem er með mildara veðurfar og minni ís.
Það er því hlægilegt þegar Norðmenn ætluðu að leggja undir sig með góðu eða illu Austur-Grænland og kölluðu landið Land Eríks rauða (hann bjó aldrei á austurströndinni). Árið 1931 færðist Grænlandsmálið frekar í brennidepil umræðunnar, en í júní það ár námu fimm norskir menn landsvæði á austurströnd Grænlands í nafni Noregskonungs og nefndu það Eirik Raudes Land Land Eiríks rauða.
Nokkrum dögum síðar ákvað norska ríkisstjórnin að innlima svæðið í Noreg. Var sjóhernum enn fremur gert að verja þessa nýlendu samkvæmt fyrirskipun norska varnarmálaráðherrans, Vidkun Quisling. Svo fór að Norðmenn yfirgáfu Grænland 5. apríl 1933, en þá hafði Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmt landnám þeirra ólöglegt.
Íslendingar voru líka sumir hverjir æstir á öðrum áratug 20. aldar að eignast gömlu "nýlendu" sína með Einar Benediksson fremstan í flokki. En Íslendingar voru þá nýbúnir að fá frelsi og stjórnarráðið og Alþingi ekki öflugt. Það varð því hljótt um kröfur Íslendinga þótt einstaka mann ljáði máls á málinum.
En merkilegt er að kröfur Dana sjálfra til Austur-Grænlands eru nefnilega ekki gamlar. Fáir vita af því að það var einn Dani, Peter Freuchen, í byrjun 20. aldar sem tryggði rétt Dana (og gerði landnám Norðmanna þar með ólöglegt) til landshlutans. Ég las bók hans margsinnis, sem heitir Æskuárin mín á Grænland og er stórskemmtileg aflestrar. Þvílíkur ævintýraheimur sem hann dró mynd af og gamla inúítasamfélaginu sem þá var ósnert á austurströndinni. Kíkjum á æviágrip hans.
Freuchen fæddist í Nykøbing Falster í Danmörku (20 febrúar 1886 2. september 1957), sonur Anne Petrine Frederikke og Lorentz Benzon Freuchen, kaupsýslumanns. Freuchen var skírður í kirkjunni á staðnum. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann stundaði nám í læknisfræði um tíma.
Árið 1906 fór hann í sinn fyrsta leiðangur til Grænlands sem meðlimur Danmerkur leiðangursins svonefnda. Á árunum 1910 til 1924 fór hann í nokkra leiðangra, oft með hinum þekkta heimskautafara Knud Rasmussen. Hann vann með Rasmussen við að fara yfir Grænlandsjökulinn. Hann var í mörg ár í Thule á Grænlandi og bjó með Pólar Inúítum. Árið 1935 heimsótti Freuchen Suður-Afríku og í lok áratugarins hafði hann ferðast til Síberíu.
Árið 1910 stofnuðu Knud Rasmussen og Peter Freuchen Thule-verslunarstöðina í Cape York (Uummannaq), Grænlandi, sem verslunarstöð. Nafnið Thule var valið vegna þess að það var nyrsta verslunarstaður í heimi, bókstaflega "Ultima Thule". Thule verslunar útpósturinn eða verslunarstöðin varð heimastöð fyrir röð sjö leiðangra, þekktir sem Thule Expeditions, á milli 1912 og 1933.
Fyrsti Thule leiðangurinn (1912 fóru þeir Rasmussen, Freuchen, Inukitsork og Uvdloriark) hafði það að markmiði að prófa fullyrðingu Roberts Peary um að sund skildi Peary Land frá Grænlandi. Þeir sönnuðu að þetta var ekki raunin í 1.000 km (620 mílur) ferð yfir innlandsísinn sem varð þeim næstum að bana.
Clements Markham, forseti Royal Geographical Society, sagði ferðina "þá fínustu sem hundar hafa framkvæmt". Freuchen skrifaði persónulegar frásagnir af þessari ferð (og öðrum) í Vagrant Viking (1953) og og með Rasmussen (1958). Hann segir í Vagrant Viking að aðeins ein önnur hundasleðaferð yfir Grænland hafi nokkurn tíma tekist vel. Þegar hann festist undir snjóflóði segist hann hafa notað eigin saur til að búa til rýting sem hann losaði sig með. Meðan þeir voru í Danmörku héldu Freuchen og Rasmussen röð fyrirlestra um leiðangra sína og menningu inúíta.
Fyrsta eiginkona Freuchens, Mekupaluk, sem tók sér nafnið Navarana, fylgdi honum í nokkra leiðangra. Þegar hún lést vildi hann að hún yrði grafin í gamla kirkjugarðinum í Upernavík. Kirkjan neitaði að framkvæma greftrunina, vegna þess að Navarana var ekki skírð, svo Freuchen jarðaði hana sjálfur. Knud Rasmussen notaði síðar nafnið Navarana fyrir aðalhlutverkið í kvikmyndinni Palos Brudefærd sem var tekin upp á Austur-Grænlandi árið 1933. Freuchen gagnrýndi harðlega kristna kirkju sem sendi trúboða meðal inúíta án þess að skilja menningu þeirra og hefðir.
Þegar Freuchen sneri aftur til Danmerkur á 2. áratugnum gekk hann til liðs við jafnaðarmenn og lagði sitt af mörkum með greinum í dagblaðinu Politiken. Frá 1926 til 1932 starfaði hann sem aðalritstjóri tímarits, Ude og Hjemme, í eigu fjölskyldu seinni konu sinnar.
Enda þess grein á að benda á að Thule verslunarmiðstöðin sem Frauchen stofnaði tryggði landakröfur Dana, því þar með gátu þeir sannað búsetu á austurströndinni (skítt með innbyggjarar höfðu búið þarna í 500 ár áður).
Saga | 13.1.2025 | 19:39 (breytt kl. 21:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar menn eru að reyna að selja eigin bækur, þá er gripið til sjokkerandi fyrirsagnar til að grípa athygli væntanlegra lesenda.
Morgunblaðið segir svo frá nýkominni bók:
Mín tilfinning er sú að Íslendingar hafi bara smám saman orðið kristnir eins og aðrar þjóðir og engin athöfn farið fram, frekar en í Noregi.
Þetta segir Sigurður Sigurðarson, höfundur nýrrar bókar, Óminni tímans, sem fjallar um stórmerka atburði úr Íslandssögunni, þar á meðal meinta kristnitöku. Í bókinni eru rök leidd að því að engin kristnitaka hafi verið árið 1000. Einnig að orð Snorra goða séu skáldskapur: Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?
Er hér einhver nýlunda á ferð, ný vitneskja fyrir sagnfræðinnar? Nei hreint ekki. Það er alveg ljós að það var komist að málamiðlun milli heiðina manna og kristina því það stefndi í meiriháttar átök og skiptingu lands milli andstæða hópa. Hvenær þetta gerðist, 999 eða 1000 e.Kr. skiptir litlu máli.
Líklegt er að kristnir hafi verið fámennari enda landið heiðið en sterkir höfðingjar fóru fyrir minnilhlutanum. Það er athyglisvert að kristið fólk var meðal landnámsmanna á landnámsöld enda kom margt fólkið frá byggðum norræna manna á Bretlandseyjum. Sjá þennan árekstur á milli kristni og heiðni í Kjalnesinga sögu.
En hvers vegna dó kristnin út eftir landsnámsöld? Það er eiginlega meiri spennandi spurning. Blokkritari hefur rakið þá sögu áður er hann ritrýndi bókina "Eyjan hans Ingólfs" eftir Ásgeir Jónsson sagnfræðing og seðlabankastjóra. Sjá slóð: Eyjan hans Ingólfs og sjá einnig: Er Írafárið að byrja upp á nýtt?
Í stuttu máli má ætla að landnámið hafi átt sér stað í tveimur bylgjum. Fyrri bylgjan hafi komið að mestu frá Bretlandseyjum, þar sem norrænar byggðir stóðu höllum fæti en síðari komið frá Noregi með heiðið fólk að meginstofni og bændum.
Ástæðan fyrir að keltnesk áhrif hurfu svo svo fljótt, úr menningunni, tungu og trú, er einmitt þessi ástæða. Keltneska fólkið var frekar í lágstéttinni og líkur á að koma genunum áfram mun minni en hjá hærri settum. Þrælastofninn hafi hreinlega dáið út á fyrstu öldinni en aðrir blandast. Sjá má þetta í DNA gena mengi Íslendinga, hversu mikið það breyttist frá upphafi landnáms til 11. aldar.
En hér er ekki ætlunin að fjalla um frumkristni á Íslandi. Heldur hvernig kristnin komst varanlega á Íslandi upp úr 1000. Það er því nokkuð sennilegt að menn hafi komist að pólitísku samkomulagi um þetta leyti af mörgum ástæðum. Ein ástæðan var að kristni var komin á annars staðar á Norðurlöndum (Svíþjóð var heiðið mun lengra sem og Finnland) og því erfitt að eiga í samskiptum við Norðmenn ef menn væru heiðnir. Fyrst var reyna að leysa málið með að menn prímsignuðu, voru áfram heiðnir en gátu umgengið kristið fólk.
Í samkomulaginu var komist að málamiðlun eins og áður sagði. Heiðnir máttu blóta á laun og éta sitt hrosskjöt á meðan þeim eldist aldur. Það hefur því tekið langan tíma að koma kristni á Íslandi og margir trúboðar komu hingað, sumir alla leið frá austurvegi og boðuðu "villitrú".
Ástæðan fyrir því hversu langan tíma þetta tók er einmitt skortur á klerkastétt, tekjum og höfuðsetur kristni. Það kom með einni valdaætt.
Fyrsti biskup Íslands var Ísleifur Gissurarson, sem var vígður árið 1056 og gegndi embættinu í Skálholti. Hann hafði mikil áhrif á kirkjuskipulag landsins og var í raun fyrsti Íslendingurinn sem var vígður biskup. Hann hafði áður lært í Þýskalandi. Gissur Ísleifsson, var sonur Ísleifs Gissurarsonar og tók við embætti biskups í Skálholti eftir föður sinn árið 1082. Hann stóð fyrir því að gera Skálholt að varanlegu biskupssetri og efldi mjög kirkjustofnunina á Íslandi. Kristnhald komst því fyrst á Suðurlandi en festist ekki í sessi á Norðurlandi fyrr en eftir 1100. Jón Ögmundarson var fyrsti biskup Íslands og stóð fyrir því að Hólar í Hjaltadal voru gerð að biskupssetri árið 1106. Hann var vígður árið 1106 og gegndi starfi fram til dauðadags árið 1121. Jón lagði áherslu á kristindóminn í daglegu lífi Íslendinga og hreinsun goðatrúarinnar.
Þessir biskupar gegndu lykilhlutverki við að festa kristna trú í sessi og byggja upp kirkjustofnanir á Íslandi á 11. öld. Biskupsembættin í Skálholti og síðar Hólum urðu miðstöðvar trúarlífs og menntunar.
Það er því ekkert ólíklegt að menn hafi komist að samkomulagi á Alþingi um siðbreytingu og eiginlega bráðnauðsynlegt ef menn ætluðu halda upp eitt samfélag með lögum og geta átt í samskiptum við nágrannaþjóðir.
Fornsögurnar, Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, Kristni saga, Landnámabók, Snorra-Edda og Heimskringla og saga Ólafs Tryggvasonar greina frá þessu. Þetta voru engir vitleysingar sem skrifuðu þessar sögur, þessir sagnaritarar voru "hámenntaðir" á þessum tíma og sögðust fylgja sannleikanum þar sem honum verður best komið að. Hafa skal það sem sannara kann að reynast var sagt.
Því er sagan sennileg um að ákvörðun um kristnitöku á Alþingi árið 1000 hafi tekin undir forystu Þorgeirs Ljósvetningagoða Þorkelssonar, sem var lögsögumaður Alþingis á þeim tíma. Hvern annan ef ekki lögsögumaðurinn sjálfur?
Hann var heiðinn goði en var fenginn til að leysa úr þessum ágreiningi milli kristinna manna og heiðinna, þar sem bæði hópar höfðu hótað að hafna sameiginlegum lögum ef ekki næðist niðurstaða.
Sagan segir að Þorgeir tók sér einn dag og eina nótt til að hugleiða málið. Að morgni lagði hann fram tillögu sína, sem fól í sér að allir Íslendingar skyldu fylgja einu lögskipulagi, og það yrði kristin trú. Hins vegar leyfði hann að nokkrir heiðnir siðir héldust í fyrstu til að milda breytinguna. Til dæmis máttu menn:
- Borða hrossakjöt (sem kristni menn litu á sem heiðinn sið).
- Blóta á laun (fremja heiðnar fórnir, svo lengi sem það var ekki opinbert).
- Stunda barnaútburð (sem var bannaður samkvæmt kristnum siðum).
Þessi málamiðlun var talin nauðsynleg til að forðast átök og tryggja friðsamlega upptöku kristni í landinu. Með þessu var Ísland formlega kristið, þó að heiðnir siðir hafi haldist í nokkurn tíma á eftir eins og komið hefur verið hér inn á.
Saga | 22.12.2024 | 11:43 (breytt 23.12.2024 kl. 09:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eitt besta dæmið um ákvörðunarfælni Íslendinga er vistarbandið svonefnda. Gísli Gunnarsson prófessor í sagnfræði fjallaði um það í umdeildri sjónvarpsþáttaröð, kölluð "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" en margt þar var réttmæt gagnrýni, þótt íslenskt samfélag þar var málað mjög dökkum litum. En hvað er vistarband fyrir þá sem ekki vita?
Vistarbandið var lögbundin skylda sem kvað á um að allir landsmenn á Íslandi frá aldrinum 12 ára (síðar 16 ára) væru skyldugir til að vera í vist hjá húsbændum, ef þeir voru ekki sjálfstæðir bændur. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi var að tryggja vinnuafl á býlum og koma í veg fyrir flakk og óreiðu í samfélaginu, auk þess að tryggja að bændur gætu stutt fjölskyldur sínar. Ákvæðin um vistarband voru fyrst formfest í Jónsbók frá 1281 og síðan í öðrum lögum eins og Piningsdómi frá 1490 og lögum sem byggja á Grágás, eldri lögbók Íslendinga.
Það eru enn skiptar skoðanir meðal fræðimanna hver hugsunin var á bakvið vistarbandið. Var þetta eigingjörn hugsun stórbænda til að tryggja öruggt og ódýrt vinnuafl? Eða var þetta samtrygging, að allir eigi lögheimili, að hreppurinn komi til bjargar ef illa fer?
Í Grágás var kveðið á um að allir, nema þeir sem höfðu jarðir eða önnur verðmæti sem gætu tryggt lífsviðurværi þeirra, ættu að vera í vinnu hjá bændum. Þeir sem ekki fylgdu þessum lögum gætu átt yfir höfði sér refsingu eða fengið skipaðan húsbónda með lögum. Sjá textann úr Grágás.
Sá maður skal vera í vist hjá húsbónda, sem ekki hefur jarðnæði eða fémæti nóg til lífsviðurværis, að hann verði í sjálfs sín forræði.
Nú verðum við að muna að á Íslandi var stundaður sjálfsþurftarbúskapur og hungurvofan sveif ávallt yfir þessa frumstæða hagkerfi. Einhver samtrygging varð að vera til staðar. Tókum dæmi um hungursneyðir fram til 13. aldar áður en við lítum á samfélagslegu trygginguna gegn hungri og fátækt, hreppinn.
Ein fyrsta skráða hungursneyðin, þekkt sem Harðindin miklu og var árið 976. (var það undirrót þjóðflutnings til Grænlands?). Óvissir tímar einkenndu landið, og meðal annars er talið að veður hafi haft mikil áhrif á lífskjör og framleiðslu.
Hungursneyðin 1180-81 var skæð. Hafís og slæmt veður skapaði mikinn matarskort, og óvenju kalt ár var um veturinn. Nokkrar heimildir benda til þess að þetta hafi leitt til dauða meðal búfénaðar og stórfelldrar fátæktar í kjölfarið.
Svo voru hungursneyðir á Sturlungaöld. Á þessari öld var Ísland ekki aðeins að glíma við pólitískt óstöðugleika, heldur einnig endurtekin harðindi. Sérstaklega eru hungursneyðir skráðar á árunum 1250, 1270 og aftur á árunum 1295-1298. Á þessum árum varð mikið mannfall vegna hungurs og sjúkdóma sem breiddust út í kjölfar matarskortsins. Það er því ekki furða að Íslendingar vildu hafa einhverja trygging gegn því að svelta í hel án þess að samfélagið bregðist við.
Hreppir urðu til á Íslandi snemma á 11. öld, þegar þeir voru formlega skipulagðir sem stjórnsýslueiningar í kjölfar aukinnar byggðar og þörf fyrir skipulagt félagslegt kerfi. Eflaust var það á ábyrgð höfðingjans/goðans/landnámshöfðingjann að tryggja frið og útdeilingu gæða.
Meðal hlutverk hreppanna var að annast fátækraframfærslu, sinna samskiptum innan samfélagsins og halda uppi lögum og reglu á staðnum.
Í upphafi var hlutverk hreppanna nokkuð bundið við samfélagslegt eftirlit og fátækraframfærslu en með tíð og tíma jókst mikilvægi þeirra. Á miðöldum var hverjum hreppi skylt að tryggja fátækum lífsviðurværi með stuðningi sveitarinnar, og hreppsstjórn var ábyrga fyrir dreifingu bjargargagna og skattheimtu fyrir svæðið. Með skipulagi hreppa varð samfélagið skýrara afmarkað í smærri einingar, og það stuðlaði að meiri samheldni innan samfélaga.
Vísbending um að vistarbandið hafi alveg verið hugsað sem trygging en ekki aðgangur að ódýru vinnuafli er að í Jónsbók frá 1281 var ákvæði Grágásar á ný staðfest og útvíkkað með skýrari ákvæðum um skyldu bænda til að taka á móti vistarlausum og tryggja öllum lífsviðurværi.
En svo bregður við nýjan tón á 15. öld. Svarti dauði gekk yfir landið 1402-1404. Enginn veit hversu mikið af fólki lést í þessari farsótt en heyrst hefur talan allt að 50%, jafnvel meira. Samfélagslegar afleiðingar var stórkostlegar og mikill vinnaflsskortur varð í landinu. Þá verður vistarbandið að helsi. Kíkjum á lögin frá 15. öld um vistarbandið.
Alþingi samþykkir árið 1404 lög um vistarbandið. Jónsbók segir:
Allir þeir, sem ekki eiga jörð eða eignir til að framfæra sig sjálfir, skulu vera í vist hjá húsbónda, og sá sem er vistarlaus og flakkandi skal látinn sæta refsingu.
Nú er hótað öllu illu ef menn færu ekki í vist hjá bændum. Nú átti að tryggja vinnuafl með góðu eða illu. Ekki batnaði staðan hjá bændum er Englendingar hófu siglingar til Íslands 1412 og kepptu um vinnuaflið við íslenska höfðingja. Hinn fátæki almúgamaður gat í fyrsta sinn yfirgefið landið í leit að betra lífi ef illa var farið með hann og það gerðu margir Íslendingar eins og sjá má af búsetuskráningum þeirra í Englandi. Enn verstnaði staða stórbokka á Íslandi þegar Hansakaupmenn hófu einnig siglingar til Íslands á seinni helmingi 15. aldar. Þá varð höfðingjum nóg boðið og úr urðu umdeild lög, Piningsdómurinn.
Í Piningsdómi frá 1490 voru refsingar fyrir brot á vistarbandinu harðari. Þeir sem höfðu ekki húsbónda eða störfuðu í vist gátu átt á hættu að verða reknir úr landi eða teknir í fangelsi. Erlendum mönnum var bönnuð veturseta og stóð það ákvæði allt til loka 18. aldar. Tryggja átti lög gegn erlendri samkeppni um íslenskt vinnuafl.
Með þessu var það staðfest að vistarbandið var ekki lengur samtrygging gegn fátækt og hungur, heldur leið til að tryggja aðgang að vinnuafli. Svona var þetta næstu aldir, tvíbent sverð, til góðs eða ills fyrir almúgann. Ekki sérfyrirbrigði fyrir Ísland, danskir bændur höfðu það margir hverjir það verra.
En svo vill gleymast að að hreppurinn var ekki einn til bjargar. Kaþólska kirkjan var drjúgri í fátækra umönnun en hreppurinn. Hér er leitað í ChatGPT og spurt um muninn á fátækrahjálp hreppsins og kaþólsku kirkjunnar:
"Kaþólska kirkjan hafði almennt meiri áhrif en hrepparnir á hjálp til fátækra og aldraðra á Íslandi á miðöldum. Kirkjan var lykilstoð samfélagsins og sinnti umfangsmikilli fátækraframfærslu með rekstri klaustra, sjúkrahúsa og öðrum velferðarstofnunum. Hún átti jarðeignir, sem notaðar voru til að framleiða mat og viðhalda fjárhagslegum styrk til að sinna fátækrahjálp og velferð þjónustu.
Munurinn á hreppnum og kirkjunni í fátækrahjálp
Hreppirnir sinntu vissulega vissri fátækraframfærslu, en hlutverk þeirra var takmarkaðra og einblíndi að mestu á að tryggja stuðning innan sveitarfélagsins og sjá til þess að enginn fátækur eða vistlaus yrði fyrir utan samfélagið. Þó hrepparnir hafi haft vissar skyldur í þessum efnum, var fjármagn þeirra takmarkað í samanburði við auð kirkjunnar og hennar víðtæku velferðarstarfsemi. Kirkjan hafði einnig þekkingu og siðfræðilegan grundvöll í trúarskyldum til að veita náungakærleika og aðstoða þá sem voru sjúkir, aldraðir eða bágstaddir, með sterkum trúarlegum rökum fyrir því.
Breytingin með siðaskiptunum 1550
Þegar siðaskiptin urðu 1550 og kaþólskur siður lagðist af, urðu miklar breytingar á þessum málum. Með því að Danakonungur eignaðist kirkjujarðir og eignir klaustra og biskupsstóla misstu þær að stærstum hluta fjárhagslegan grundvöll til að halda uppi fátækra- og sjúkraþjónustu. Lífslíkur þeirra sem voru fátækir og hjálparþurfi versnuðu verulega. Þar sem lúterska kirkjan lagði mun minni áherslu á velferðarstarfsemi en sú kaþólska, var hluti af þeirri hjálp sem áður var veitt um kaþólsku kirkjuna einfaldlega tekinn af án þess að jafngild þjónusta kæmi í staðinn.
Þó hrepparnir hafi að einhverju leyti reynt að bæta upp fyrir það sem áður hafði verið á herðum kirkjunnar, höfðu þeir takmarkaða möguleika til að mæta þörfum íbúa. Smám saman var reynt að bæta fátækralöggjöf, en raunverulegar úrbætur komu ekki fyrr en langt á 18. öld með nýrri löggjöf og aðgerðum, þegar yfirvöld í Danmörku fóru að leggja meiri áherslu á fátækrahjálp og almenningsþjónustu í samfélaginu."
Þegar hreppurinn og kaþólska kirkjan lifðu hlið við hlið, var ekki slæmt að vera fátækur á Íslandi (miðað við tímabilið) og stóð þetta tímabil hátt í 500 ár. Eins og komið hefur fram hér að ofan breyttist þetta við siðaskiptin. Ímyndin um fátæka Íslendinginn, búandi í torfkofa við ömurlegar aðstæður varð þar með til og stóð þetta tímabil í rúm 200 ár.
Vistarbandið var ekki björgunarhringur, heldur hlekkur sem batt allt samfélagið niður við moldina. Á meðan önnur lönd í Evrópu fóru í gegnum hagsældartímabil á árnýöld, borgir stækkuðu og efnahagur varð fjölbreyttari, héngu menn hér við sult og volæði. Ekki var það til heilla að valdið (og skattféð)færi úr landi og til fjarlægu Kaupmannahöfn. Á meðan svo var ekkert gert á Íslandi, engir vegir eða brýr lagðar, bókstaflega ekki neitt var gert til framfara fyrir land og þjóð.
Höfðingjarnir sem fóru út og sáu alla dýrðina í Kaupmannahöfn og allar hallirnir, hlustuðu á nýjar hugmyndir, höfðu ekki rænu á að gera eitthvað í málinu. Ákvörðunarfælnin var algjör. Það þurfti ofurhuga til að breyta heilu samfélagi og eitt stykki móðuharðindi til að grafa bændasamfélagið niður í gröf og loks fara að nýta sjávarsíðuna og auðlindir hafsins Ísalandinu til heilla.
Hér er verið að tala um Skúla Magnússon landfótgeta. Saga hans sýnir að einstaklingur getur breytt heilu samfélagi og mér finnst baráttan hans ekki nógu vel sómi sýndur.
Afrek Skúla: dreif Íslendinga úr eymd og volæði upp úr 1750 yfir í trú á að Íslendingar gætu séð um sín innri mál (í fyrsta sinn síðan 1550). Hann stofnaði fyrsta íslenska stórfyrirtæki (ekki bara fyrirtæki) Íslands sem keppti við danska einokunarverslunina.
Skúli stuðlaði að því að Reykjavík varð fyrsta sjávarþorp Ísland (sveitarþorp höfðu verið til áður) og höfuðstaður Íslands. Skúli varð fyrsti Íslendingurinn til að gegna embætti landfótgeta og í öllum sínum gerðum varði hann lítilsmagnann gegn embættismönnum (félögum sínum) sem var geysilegt erfitt verk. Hann þurfti þess ekki. Það var auðveldara að gera ekki neitt eins og sumir gera og hreykja sér af. Hann var ekki haldinn ákvörðunarfælni.
Skúli fór í stríð við kerfið í raun og vann! Skúli er eitt af mikilmennum Íslands og ætti að gera bíómynd um hann...hún væri bæði spennandi og sorgleg í senn. Maðurinn var þó beyskur á margan hátt.
Vistarbandið lifði samfélagsbreytingarnar af á 18. öld og fram á þeirri 19. En brestirnir voru komnir. Með verslunarfrelsinu 1855, íslenskt löggjafarvald 1874 og framkvæmdarvald 1904, hættu Íslendingar að vera áhættufælnir og við sjáum árangurinn í dag. Velferðaríkið Ísland.
Lærdómurinn af þessu er að góð lög geta snúist í andhverfu sína og orðið að helsi. Íslendingar eiga taka það besta sem kemur erlendis frá en hafna því versta. Við eigum að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð í eigi ríki og bara bindast erlendum alþjóðsamtökum eða ríkjum lausum böndum. Valdið þarf að liggja á Íslandi og hjá fólkinu. Ekki hjá íslenskri elítu eða erlendu valdi.
Við þurfum að vita hvaðan við komum, hvar við erum og hvert við ætlum að stefna. Við þurfum að taka ákvörðun!
Saga | 25.10.2024 | 12:05 (breytt kl. 19:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afnám einokunarverslunarinnar árið 1787 og verslunarfrelsið árið 1855 eru bæði mikilvægir atburðir í íslenskri verslunarsögu, en með mismunandi áhrifum og inntaki. Einokunarverslunin var stofnuð árið 1602 af dönskum stjórnvöldum, sem veittu danska kaupmenninum einkarétt til að versla við Íslendinga. Það takmarkaði mjög efnahagsleg frelsi landsins, þar sem einungis danskir kaupmenn gátu verslað hér á föstum verðum sem stjórnvöld settu. Ástæðan fyrir tilkomu einokunarversluninnar var að útrýma Hansakaupmenn af Íslandi og útiloka launverslun Englendinga hér sem og annarra þjóða eins og t.d. Hollendinga.
En tíminn stendur ekki í stað, jafnvel kyrrstöðusamfélagið Ísland varð að játa sig sigrað fyrir náttúrunni í formi Móðuharðindanna 1783-85 og það að Merkantílismi (kaupaukistefna) var að líða undir lok. Hann var ríkjandi efnahags- og stjórnmálastefna í Evrópu frá lokum miðalda til loka 18. aldar. Kammeralismi (búaukisstefna). Þetta er stefna í efnahags- og stjórnmálum sem kom fram í Frakklandi og var telft gegn kaupauðgisstefnunni. Í þessar stefnu var lögð áhersla á frelsi atvinnulífsins og mikilvægis landbúnaðar sem undirstöðu efnahagslífsins. Þessi stefna birtist með skýrum hætti á Íslandi í formi aðgerða danskra stjórnvalda til að efla landbúnað á Íslandi, fiskveiðar og opna fyrir verslun.
Árið 1787 var formlega afnumið einkaleyfið á verslun með lagasetningu. Danskir kaupmenn fengu þá almennt leyfi til að versla frjálst, en aðeins innan Danmerkur, Noregs og hertogadæmanna Slesvík og Holstein (sem þá voru hluti af Danaveldi).
Afnám einokunarverslunarinnar árið 1787 breytti því að verslunin var ekki lengur bundin við ákveðna kaupmenn, en það var samt sem áður ekki algert verslunarfrelsi. Verslunin var enn bundin við danska ríkisborgara, og þar með takmarkaðist aðgangur Íslendinga að markaði utan danska konungsríkisins. Þetta opnaði dyrnar fyrir íslenska kaupmenn að stunda verslun. Nú leitar bloggritari á náðir ChatGPT og spyr eftir farandi spurningu, hverjir voru fyrstu íslensku kaupmennirnir eftir afnám einokunarversluninnar. Hér er svarið og er haft í smáu letri til aðgreinar frá öðrum texta:
"Fyrstu íslensku kaupmennirnir:
Skúli Magnússon (17111794) þótt hann væri ekki kaupmaður í hefðbundnum skilningi, þá var hann mikilvægur frumkvöðull og stuðningsmaður íslenskrar verslunar og iðnaðar. Sem landfógeti beitti hann sér fyrir aukinni efnahagsþróun á Íslandi, m.a. með stofnun Innréttinganna í Reykjavík, sem áttu að efla iðnað og verslun. Skúli var áhrifamikill í að undirbúa jarðveginn fyrir íslenska kaupmenn og iðnað.
Þórður Jónsson á Hofi (17491827) Þórður var talinn einn af fyrstu íslensku kaupmönnunum sem hóf eigin verslun eftir afnám einokunarverslunar. Hann starfaði sem kaupmaður á Suðurlandi, þar sem hann tók þátt í verslun með landbúnaðarafurðir og innflutning á neysluvörum.
Ólafur Jónsson á Eyrarbakka (d. 1798) Ólafur var meðal þeirra fyrstu Íslendinga sem nýttu sér nýfengið frelsi til að stunda verslun. Hann stóð fyrir verslun á Eyrarbakka, sem var ein helsta verslunarhöfnin á Suðurlandi á þessum tíma.
Bjarni Sívertsen (17631833) Bjarni, oft nefndur "Bjarni í Hafnarfirði," var einn af fyrstu íslensku kaupmönnunum sem náði verulegum árangri. Hann byrjaði sem skipstjóri og kaupmaður í Hafnarfirði og náði að efla verslun þar. Hann er talinn vera fyrsti íslenski kaupmaðurinn til að reka eigin verslun með skipaflota, þar sem hann sinnti bæði útflutningi og innflutningi, sérstaklega á fiski og neysluvörum. Bjarni var mikill frumkvöðull í sjávarútvegi og verslun og er oft nefndur sem einn af fyrstu Íslendingunum sem tóku virkan þátt í viðskiptum eftir afnám einokunarinnar.
Þessir kaupmenn voru frumkvöðlar á sínu sviði og ruddu veginn fyrir íslenskan kaupskap, sem hélt áfram að vaxa eftir því sem verslunarfrelsi varð meira áberandi, sérstaklega með verslunarfrelsinu 1855."
Þetta er athyglisvert svar og vissi bloggritari ekki af Þórð Jónssyni á Hofi eða var búinn að gleyma honum. En eftir sem áður, voru þetta allt menn sem voru kaupmenn sem ekki ráku skipaflota nema Bjarni Sívertsson. Þar með stóð hann jafnfætis dönskum kaupmönnum að geta sótt vörur og flutt án afskipta Dani. Það var ekki fyrr en Eimskip var stofnað 1914 að flutningur vara til og frá landinu var kominn í hendur Íslendinga.
Kíkjum á annan merkan áfanga í verslunarsögu Ísland er verslunarfrelsi var gefið 1855. Verslunarfrelsið sem var veitt 1855 var mun víðtækara og opnaði Ísland fyrir alþjóðlegri verslun. Þá var erlendum kaupmönnum, ekki aðeins Dönum, heimilað að versla á Íslandi. Þetta opnaði leið fyrir kaupmenn frá Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og öðrum þjóðum til að hefja viðskipti við Íslendinga.
Verslunarfrelsið leiddi til meiri samkeppni milli kaupmanna, sem gerði Íslendingum kleift að semja um betri kjör. Þetta skapaði aukin efnahagsleg tækifæri fyrir Íslendinga og stuðlaði að aukinni útflutningsverslun, sérstaklega á fiskafurðum, sem var grunnurinn að efnahagsþróuninni sem fylgdi næstu áratugi. Þetta opnaði fyrir hvalveiðar Normanna á síðari hluta 19. aldar, sauðasölu til Bretlands (og hesta) og Íslendingar sáu í fyrsta skipti peninga eða gjaldeyrir í viðskiptum. Segja má að kapitalismi hafi þar með loks hafið innreið á Íslandi.
Eitt af því sem verslunarfrelsi leiddi til en það var stofnun Gránufélagsins. Það var eitt merkasta íslenska verslunarfélagið á 19. öld og hafði mikil áhrif á þróun verslunar og atvinnulífs á Íslandi. Það var stofnað árið 1869 af Þórarni Guðmundssyni og Tryggva Gunnarssyni og var starfrækt allt til ársins 1910. Félagið var staðsett á Akureyri, þar sem það hafði sitt helsta höfuðstöð, en það starfaði einnig víða um land. Gránufélagið eignaðist sitt eigið skip árið 1870, sem bar nafnið Phoenix.
Afnám einokunarverslunarinnar var upphafið að því ferli að losa íslenskt hagkerfi úr höftum, en verslunarfrelsið 1855 opnaði fyrir efnahagslega þróun og samkeppni sem hafði meiri langtímaáhrif á þróun samfélagsins, sérstaklega í sjávarútvegi og borgarmyndun. Það er engin tilviljun að hvalveiðar Norðmanna á seinni hluta 19. aldar eru oft taldar marka upphaf að iðnrekstri á Íslandi en verslunarfrelsið leiddi óbeint til þess en sérstaklega var það sauðasalan til Bretlands mikilvæg, því bændur gátu selt afurðir sínar beint til kaupenda.
Í heildina séð var verslunarfrelsið 1855 stærra skref í átt að alþjóðlegri og sjálfbærari efnahagsþróun, en afnám einokunarverslunarinnar var forveri þess sem veitti fyrstu losun frá hinum hörðu höftum verslunareinkaleyfisins.
Saga | 19.10.2024 | 11:07 (breytt kl. 11:09) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landnámsöld stóð frá 874 - 930 eða 56 ár. Líklega stóð tímabilið í lengri tíma en hvað um það, segjum 60 ár. Þarna nam fólk land án laga og réttar. Engin sameiginleg lög né hefðir. Þessi byggð gekk nokkurn veginn upp, því að fólkið tók með sér germönsk lög og hefðir úr heimabyggðum. Íslendingasögur segja frá að menn hafi tekið sér hnefaréttinn, skorað mann á hólm eða annan um kvennfólk eða bæ. Það hefur því verið róstursamara en menn vita á þessu tímabili.
En fólkinu til lukku voru það ríkir menn, höfðingjar, sem voru í fararbroddi og skikkuðu mál og voru snemma kallaðir goðar. Svo tók við þjóðveldið og það gekk upp í u.þ.b. 300 ár án framkvæmdarvalds eða ríkisvalds. En svo fór allt í bál og brand þegar mönnum var ljóst að valddreifingin gekk ekki upp. Ísland yrði að vera miðstýrt...eða fjarstýrt. Niðurstaðan var fjarstýring fursta/konungs. Allt í lagi að hafa kóng ef hann var einhver staðar erlendis og kom aldrei til Íslands. Menn gátu ráðið sínum málum í friði.
En til langframa gengur þetta ekki upp því að samfélög Evrópu þróuðust og valdaþjöppun átti sér stað. Miðstýringin/framkvæmdarvaldið efldist. Með því allar framfarir, nema á Íslandi. Hér stóð tíminn í stað í 1000 ár. Loks náði tíminn til Íslands á 19. og 20. öld og menn vildu gera eitthvað fyrir íslenskt samfélag. Menn börðust fyrir sjálfræði og innlent framkvæmdarvald. Það hófst með heimastjórninni 1904 og ferlinum lauk með fullu sjálfstæði Íslendinga 1944.
En hvernig hafa Íslendingar farið með fjöreggið síðan þeir einir réðu yfir því? Getum við virkilega staðið ein og óstudd? Ekki alveg, því við látum erlendar yfirþjóðlegar stofnanir ráða för fyrir hönd Íslands. Síðan 1944 hefur ríkinu verið afskaplega illa stjórnað, hátt verðlag, verðbólga, hallafjárlög, sérhagsmunapot smákónga o.s.frv.
En þrátt fyrir allt, eru við hér enn, sama menning sem hefur varið í 1150 ár, en hversu lengi mun það vara? Það er undir okkur komið og næstu tvær kynslóðir. Miðað við hvernig nútíma Íslendingurinn hagar sér, þá er framtíðin ekki björt. Hann hefur misst öll tengsl við sjálfan sig, samfélag sitt og meira segja íslenska nátttúru. Hann mun glaður tala ensku í náinni framtíð eins og Skotar og Írar gera í dag. Hann verður sáttur að vera í einhvers konar ríkjasambandi, með smá sérstöðu, en ekki mikla. Eina sem hann mun eiga sameiginlegt með forfeður sínum er búseta í þessu hrjóstuga landi...annað ekki. Svo er það spurning hvort það sé ekki bara í lagi...eða ekki?
Saga | 16.10.2024 | 17:17 (breytt kl. 17:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landsyfirréttur Íslands var æðsti dómstóll sem settur var á laggirnar árið 1800 á Íslandi í kjölfar þess að Alþingi var lagt niður sem löggjafar- og dómstóll árið 1798. Hann markaði merka þróun í íslenskum lögum og rétti og varð æðsti áfrýjunardómstóll landsins. Dómstóllinn var hluti af stærri umbótum sem dansk yfirvöld höfðu frumkvæði að til að nútímavæða réttarkerfi Íslands og hafði lögsögu yfir bæði einkamálum og sakamálum.
Sögulegur bakgrunnur og stofnun
Fyrir stofnun Landsyfirréttar hafði Ísland langa hefð fyrir því að leysa ágreiningsmál fyrir milligöngu Alþingis, sem hafði löggjafar- og dómsvald. En undir lok 18. aldar reyndu danskir ​​ráðamenn að miðstýra og endurbæta íslenskar stofnanir. Árið 1798 var dómarastarf Alþingis lagt niður og í staðinn varð Landsyfirréttur til í Reykjavík árið 1800.
Í dómstólnum voru þrír dómarar, þar af einn forseti. Dómarar þessir voru skipaðir af Danakonungi og hafði rétturinn vald til að taka áfrýjun frá lægri dómstólum, svo sem sýslumönnum og héraðsdómum.
Virkni og mikilvægi
Landsyfirréttur starfaði undir danskri stjórn og sá um meðferð lögfræðimála víðsvegar um Ísland. Með því var innleitt staðlaðara réttarferli þar sem íslensk lög voru samræmd dönskum réttarvenjum samtímans.
Dómstóllinn gegndi mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi, ekki aðeins sem dómstóll heldur einnig sem miðstöð laga- og stjórnmálavalds. Margir af áhrifamestu mönnum landsins, eins og Jón Sigurðsson og aðrir talsmenn sjálfstæðismanna, komu að réttarmálum tengdum dómstólnum meðan hann starfaði.
Afnám og arfleifð
Landsyfirréttur starfaði í tæpa öld áður en nútímalegra dómskerfi tók við. Árið 1919 var settur Hæstiréttur Íslands sem tók við hlutverki æðsta dómstóls landsins.
Afnám Landsyfirréttar og stofnun Hæstirétta markaði skref í átt að auknu sjálfræði og að lokum sjálfstæði Íslands frá Danmörku árið 1944. Í dag er Landsyfirréttar minnst sem mikilvægs áfanga í þróun íslenskra laga, sem brúar miðalda Alþingi og nútíma dómskerfi.
Saga | 14.10.2024 | 10:19 (breytt kl. 10:20) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020