Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

DV gengið í lið með ESB aðildar sinnum - hræðsluáróður korteri fyrir kosningar

Nú er DV farið á flug eins og fuglinn Íkarus. Nú láta Evrópusambandsinnar sig dreyma um að Norðmenn séu á leiðinni í ESB með breyttri alþjóðlegri stöðu og tekur DV undir þetta. Forsendurnar eru langsóttar.

Ímyndað er að Bandaríkjamenn yfirgefi einu bandamenn sína í heiminum, Evrópuþjóðirnar, sem hafa alltaf staðið með Bandaríkjunum og yfirgefi NATÓ einhliða.

Trump getur ekki yfirgefið NATÓ, því að Evrópa er fyrsta vörn Bandaríkjanna gegn árásum úr austri og suðaustri. Frá Rússland og alla leið niður í rauða hálfmánann.  Án Evrópu væru Bandaríkjamenn í vondum málum. Austurströndin berskjölduð og það væri enginn Noregur til að loka fyrir kafbátaferðir Rússa fyrir Kólanskagann, (og ekkert Ísland né GIUK hliðið) væri austurströndin galopin. Helstu birgðastöðvar Bandaríkjanna fyrir næsta stríð eru einmitt í Noregi. Keflavíkurflugvöllurinn er framlínu herstöð sem brjálæði væri að yfirgefa að fullu eða herstöðvarnar í Noregi eða Bretlandi. 

Annað mál er með vesturströnd Bandaríkjanna, þar er hið gríðarlega stóra haf, Kyrrahafið, nokkuð góð vörn. Þannig að reyna að tengja NATÓ - aðild Evrópuþjóða við EES- saminginn eða inngöngu í ESB er fjarstæðukennt.

Noregur er í sömu stöðu og Sviss, forríkt land, fjallaland með góðar varnir og eru bæði ríkin í góðri stöðu gagnvart Evrópusambandinu.

Í grein DV segir að Norðmenn telji sig þurfa að sækja um inngöngu í ESB ef Ísland færi í ESB. Þarna er blaðamaðurinn að hlusta á norska ESB-aðildarsinna, ekki raunverulegan vilja almennings. Ef eitthvað er, þá eru Íslendingar og Norðmenn í verri stöðu ef Trump ætlar sér að fara í tollastríð við ESB. Hann er búinn að hóta því að leggja 10% tolla á sambandið sem hann gerir örugglega. Þessi tollar munu ekki falla á Ísland eða Noreg eða aðrar EFTA þjóðir, því við erum ekki í sambandinu. Noregur og Ísland eru of mikilvæg lönd fyrir varnir austurstrandar BNA að þeir geri eitthvað svo heimskulegt.

ESB hefur 5% af mannkyninu innanborðs og það kemur ekki í stað ótal fríverslunarsamninga sem Ísland/EFTA hafa gert. Íslendingar hafa gert fríverslunarsamninga við ótal ríki, sjá fyrri grein mína.

ESB, EES og fríverslunarsamningar

Og staða Íslands gagnvart efnahagsveldið Bandaríkin er nokkuð góð. Ísland hefur sérstaka stöðu samkvæmt svokölluðum Normal Trade Relations (NTR) tollakjörum (áður nefnt Most Favoured Nation, MFN). Þessi staða tryggir Íslandi betri viðskiptakjör en mörgum öðrum ríkjum utan WTO eða ríkjum sem ekki njóta NTR-tollkjara. En hvað þýðir þetta fyrir Ísland? Engir tollar eru á mörgum vörum. Bandaríkin leggja almennt enga tolla á margar íslenskar útflutningsvörur, sérstaklega iðnaðarvörur og sjávarafurðir, vegna NTR-tollkjara. Þetta gerir íslenskum fyrirtækjum kleift að flytja vörur til Bandaríkjanna á hagkvæmari hátt en mörg önnur lönd.

NTR-staðan er byggð á reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), þar sem Ísland og Bandaríkin eru bæði aðilar. Þetta þýðir að Ísland nýtur sama tollakosts og önnur ríki sem hafa NTR-stöðu, nema sérstaklega samið hafi verið um annað.

Engin undanþága frá sérsköttum. Þó að tollar séu ekki lagðir á margar íslenskar vörur, þarf Ísland að greiða innlenda skatta (að sjálfsögðu!), líkt og bandarískir framleiðendur. Þetta eru gjöld sem Bandaríkin leggja almennt á allar vörur, hvort sem þær eru innfluttar eða framleiddar innanlands. Til dæmis fellur excise tax (sérskattur) undir þetta, sem allir framleiðendur og innflytjendur þurfa að greiða.

Ísland nýtur þess að vera í hópi ríkja sem fá bestu kjörin í tollum, njóta því ákveðin samkeppnisforskot gagnvart mörgum öðrum þjóðum, nema þau ríki sem hafa undirritað tvíhliða fríverslunarsamninga við Bandaríkin.

Er ekki kominn tími á að Evrópusinnar hætti að beygja sannleikann í áróðri sínum? Það er mjög erfitt fyrir venjulegan borgara að átta sig hver fullur sannleikur er, oft er otað að honum hluta af heildarmyndinni, en kostir og ókostir aldrei bornir saman.

Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun


Drullupolla pólitík á lokametrunum - Hver er raunveruleg stefna flokkana?

Á loka sprettinum, er byrjað í örvæntingu að sletta drullu á andstæðinginn. Það sem gerðist fyrir langa löngu er rifjað upp. Þetta er áberandi varðandi Miðflokkinn sem fær á sig mestu sletturnar en aðrir líka.  Nú er Klaustursmálið rifjað upp og meintur yfirgangur formanns flokksins í Verkmenntaskóla Akureyrar velt upp eins og BBQ á kjöt.

Gott og vel, þetta er hluti af pólitíkinni og hefur alltaf verið. En kjósendur verða að hafa auga á boltanum, ekki manninum. 

Hvað eru flokkarnir virkilega að bjóða þeim upp á varðandi landsmálin? Sandkassaleikur stjórnmálamanna rétt fyrir kosningar skiptir okkur litlu máli. Við viljum fá ábyrga landsstjórn og mannsæmandi líf.  Kannski er ekki vitlaust að kíkja á stefnuskrá flokkanna og sjá hvað þeir boða? Kíkjum á grunnstefnu þeirra.

Stefna - Miðflokkurinn

Grunnstefna Viðreisnar 

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins

Forgangsmál - Flokkur fólksins

Stefnur - Píratar

Grundvallarstefnumál - Framsókn

Stefna - Vinstri grænir

Stefna - Lýðræðisflokkurinn

Stefnulýsing - Samfylkingin

Svo mega kjósendur ekki gleyma að það getur verið langt bil á milli raunveruleika og orða á pappír.  Þá verða þeir að hafa í huga, hvað hafa stjórnmálaflokkarnir efnt? Kjósendur eru ekki svo vitlausir að þeir hafi gleymt hvað stjórnarflokkarnir hafa gert og ekki gert á kjörtímabilinu. Samanlagt samkvæmt síðustu könnun fá þeir 19% fylgi!!!  Það er þá kannski einhver von að kjósendur láti stjórnmálamennina sæta ábyrgð. Vonandi eru þeir ekki að fara úr öskunni í eldinn...það stefnir í ESB ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkinguna og einhverju varahjóli.


ESB, EES og fríverslunarsamningar

Kjósendur eru alveg andvaralausir gagnvart úlfum í sauðargærum. Það eru tveir slíkir á ferðinni sem hafa á stefnuskrá sinni að færa Ísland undir erlend yfirráð, hið yfirþjóðlega vald í Brussel.  Það eru Viðreisn og Samfylkingin.  Útópían hjá þessum flokkum er að ganga í Evrópusambandið og það eitt sér á að leysa allan vanda Íslands. Inngangan í ESB er á stefnuskrá flokkanna en er ekki yfirlýst stefna fyrir komandi kosningar.

En hvað gera þessir tveir flokkar ef þeir lenda saman í ríkisstjórn? Með kannski 40-45% fylgi? Þurfa ekki annað en hjálpardekk eins og Sósíalistaflokk Íslands eða Pírata til að hrynda stefnumál sín fram? Auðvitað verður þessu stefnumáli hrynt fram eins og þegar Jóhanna Sigurðardóttir hratt af stað aðildar umsóknarferli árið 2010. Þá myndaði Samfylkingin ríkisstjórn með VG sem þóttust ekki vilja í sambandið.

Það er ekki nóg að við séum múlbundin eins og asnar við ESB í gegnum EES, heldur vilja flokkarnir að við föllum undir klafa sambandsins að fullu.  Nú þegar erum við undir oki þess í gegnum reglugerðar flóðið sem Alþingi stimplar á hverju þingi. Og bókun 35 vofir yfir eins og svipa yfir EES þrælum.

En heimurinn er stærri en Evrópa. Meira segja ESB er ekki öll Evrópa. Stór hluti Austur-Evrópu er ekki í ESB, t.d. Hvíta-Rússland og Rússland eða Úkraína.

EFTA-ríkin sem eru ekki í ESB, eru Lictenstein, Sviss, Noregur og Ísland. Og Sviss er það skynsamt að vera ekki í EES.

EFTA er eins og ESB var í upphafi, fríverslunarsamband. Sem slíkt, hefur EFTA gert marga fríverslunarsamninga sem Ísland nýtur góðs af, sem það gerði ekki ef það væri í ESB. 

Íslendingar gera sig ekki almennt hversu umfangsmikið þetta fríverslunarkerfi er.  Lítum á ríki sem eru með fríverslunarsamninga við EFTA og byrjum á Afríku: Egyptaland; Flóasamstarfsráð (Gulf cooperation Councel); Ísrael, Jórdanía, Líbanon; Marokkó; Palestínu yfirvöld (e. Palestinian Autority); Tollabandalag Suður-Afríku ríkja (SACU); Túnis.

Í Ameríku er það Kanada; Kólumbía; Ekvador; Mexíkó og Perú. Mið-Ameríkuríki (Kosta Ríka, Gvatemala, Hondúras og Panama)

Í Asíu er það Hong Kong/Kína; Indónesía; Filipseyjar; Suður-Kórea; Singapor og Indland.

Í Evrópu er það Albanía; Bosnía og Hersegóvía; Georgía, Svartfjallaland; Norður-Makadónía; Serbía; Tyrkland; Úkraína og Moldóvía.

Eru Íslendingar ekki betur settir utan ESB með alla þessa fríverslunarsamninga sem við hefðu ekki getað gert ef við værum í ESB?  Kíkið bara á risamarkaðanna sem eru Íslendingum opnir. Indland og Kína.

Það er Noregur sem bindur okkur við ESB með EES samningnum.  Vonandi gefast þeir upp á honum og þá er honum sjálfskrafa hætt.  Forsendur Norðmanna eru aðrar en Íslendinga og núverandi forsendur ólíkar þeim er við gengumst undir þegar við gengumst undir skuldbindingar EES samningsins.


Sósíalistaflokkur Íslands - tilraun númer tvö!

Það gera fáir sér grein fyrir í dag, þeir sem eru ekki vel að sér í Íslands sögunni, að núverandi Sósíalistaflokkur Íslands á sér forvera. Kíkjum á þá sögu áður en við lítum á núverandi flokk. Helsta heimild er Wikipedia.

Sósíalistaflokkur Íslands , sem stofnaður var árið 1938, var í grundvallaratriðum marxískur-flokkur og átti rætur í kommúnisma. Einar Olgeirsson var forvígismaður flokksins. Flokkurinn varð til með samruna Kommúnistaflokks Íslands og vinstri arms Alþýðuflokksins, sem voru ósáttir við stefnu Alþýðuflokksins gagnvart Sovétríkjunum og alþjóðlegum sósíalisma.

Flokkurinn var því nær kommúnisma en jafnaðarstefnu (sósíaldemókratíu). Hann fylgdi stefnu sem studdi verkalýðsbaráttu, alþjóðlegan sósíalisma og var andsnúin bandarískum og vestrænum áhrifum, sérstaklega á tímum kalda stríðsins.

Sósíalistaflokkurinn átti náin tengsl við Alþjóðasamband kommúnista (Komintern) og Sovétríkin. Flokkurinn studdi til dæmis náið stefnu Sovétríkjanna í alþjóðamálum, þ.m.t. í deilum um lýðveldisstofnun Íslands árið 1944 og hernaðarbandalög eins og NATO, sem flokkurinn var alfarið mótfallinn.

Flokkurinn hætti starfsemi sinni sem sjálfstæður flokkur árið 1968 þegar hann sameinaðist Alþýðubandalaginu, sem varð breiðara vinstribandalag, þótt sumir eldri flokksmenn héldu í fastheldna kommúníska hugmyndafræði. Segja má að hann hafi lifað óbeint í gegnum Alþýðubandalagið sáluga. En svo var komið að tilraun númer tvö.  Forsprakkinn er uppgjafar kapitalisti (var hluti af auðvaldinu eins og hann myndi lýsa því) og fyrrum blaðamaður, Gunnar Smári Egilsson. Hann stofnaði flokkinn árið 2017.

Flokkurinn með róttæka sósíalíska stefnu sem leggur áherslu á stéttabaráttu og endurreisn verkalýðshreyfingarinnar. Flokkurinn beitir sér fyrir, að eigin sögn, að færa völd frá auðstéttinni til almennings með áherslu á jafnrétti, félagslega réttlæti og mannsæmandi kjör. Hann hafnar málamiðlunum við auðvaldið og segist vinna að því að efla almenning í stjórnmálum, bæði í gegnum hefðbundnar kosningar og mótmælaaðgerðir. Hvað þetta auðvald er, það er ráðgáta. Er átt við atvinnulífið sem skapar skatta og störf fyrir almenning? 

Áherslur flokksins felast meðal annars í að tryggja gjaldfrjálst heilbrigðis- og velferðarkerfi og er þá væntanlega á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu, aðgengi að öruggu húsnæði og styttingu vinnuvikunnar. Flokkurinn hefur einnig tekið virkan þátt í félagslegum og pólitískum mótmælum, svo sem gegn kvótakerfinu og einkavæðingu Íslandsbanka.

Sósíalistaflokkurinn má teljast nær kommúnistískum rætum en jafnaðarmannaflokkum þar sem hann einblínir á kerfisbreytingar í þágu almennings fremur en á málamiðlanir innan kapítalísks þjóðskipulags. Flokkurinn hefur vaxið í vinsældum og fékk 4,1% atkvæða í alþingiskosningunum 2021, þó hann hafi ekki komist á þing vegna kosningalaga vegna reglunnar um 5% fylgi til að komast inn á þing.

Það er eiginlega óskiljanlegt að menn séu enn að burðast með svona stefnu sem hefur margoft beðið skipbrot. Kommúnismi, sósíalismi (eiginlega sama súpa) og sósíaldemókratismi eru stefnur sem allar eiga rætur að rekja til auðnuleysingjans Karl Marx.  Alls konar útgáfur hafa orðið til, trotskyismi, marxismi, maóismi, stalínismi, jafnvel nasismi (National Socialist German Workers' Party); eru allt misheppnaðar stefnur sem tíminn hefur sannað að hefur bara leitt af sér volæði, örbirgð, kúgun og dráp einstaklinga, hópa og þjóða.

P.S. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Maskínu, mælist Miðflokk­ur­inn með 12,6% fylgi og Flokk­ur fólks­ins með 8,8% fylgi. Fram­sókn er í fall­bar­áttu en hann mæl­ist með 5,9% fylgi. 

Sósí­al­ist­ar rétt mæl­ast inn á þing með 5% fylgi og mega því ekki við því að fara neðar. Pírat­ar mæl­ast út af þingi með aðeins 4,3% fylgi og þá eru Vinstri græn að mæl­ast með 3,1% fylgi.    Sósíalistar, Píratar og VG eru allir vinstri flokkar og eru að sækja á sömu mið. Það væri frábært að Píratar myndu detta af þingi sem og VG.  Báðir flokkarnir hafa ekki gert neitt þurfaverk í sinni tilveru.

 

 

 

 


ESB flokkar hársbreidd frá því að ná meirihluta á Alþingi

Hér er um að ræða Viðreisn og Samfylkinguna.  Báðir flokkar hafa á stefnuskrá sinni að koma Ísland inn í ESB. Báðir flokkar eru ekki að ota þessari stefnu að kjósendum en munu þeir "lauma" aðildar umsókn inn ef báðir flokkar fara í ríkisstjórn saman? Samanlagt eru þeir með rúmlega 40% fylgi og þurfa ekki annað en varaskeifu, til að komast yfir 50%, svo sem Sósíalistaflokkinn ef hann kemst inn eða Pírata.

Wikipedia segir þetta: "Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands afhenti Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, umsóknina með formlegum hætti þann 23. júlí 2009. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, hafði þó afhent umsóknina í Stokkhólmi 17. júlí."

Ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu miklu fylgi í kosningunum 2013 og stjórnarandstöðuflokkarnir Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tóku við stjórnartaumunum. Báðir flokkarnir höfðu ályktað um það í aðdraganda kosninga að stöðva aðildarviðræður. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir:

Gæsalappir

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 

Síðan hefur málið eiginlega legið í salti. Mun Samfylking læðast afan að þjóðinni eins og Össur gerði á sínum tíma og taka upp þráðinn? Kjósendur þessara flokka, sem vilja kannski ekki endilega aðild að ESB, fá þá kannski köttinn í sekkinn. En þeir fá alveg örugglega skattahækkanir í jólagjöf nú eftir kosningarar.


Sparnaðar- og hagræðingarráðuneyti og ríkisendurskoðun

Það er þannig að þegar stjórnkerfi eru orðin gömul og þroskuð, þá vilja hlutir verða rútínukenndir og staðnaðir. Stjórnsýslan er orðin þannig í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum.

En svo urðu kosningar í Bandaríkjunum. Viðskiptajöfur, afar óvenjulegur í háttum og framkomu, er að verða næsti forseti Bandaríkjanna og í annað sinn.  Þegar Trump tók við völdum 2017 mætti hann mikilli mótspyrnu frá nánast öllum, frá samherjum í Repúblikanaflokknum, Demókrataflokknum, stjórnkerfinu og svo kallaða djúpríki.  

Trump hefur ákveðið að læra af reynslunni og sjá má það af skipan nýrrar ríkisstjórnar sem nú er í mótun. Skipan ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn hefur komið miklu umróti innan Wasington DC.

Menn hafa misst andlitið vegna sumra skipananna. T.d. skipan Matt Gaetz í stöðu dómsmálaráðherra. Mjög óvenjulegt val og samkvæmt kokkabókunum er hann alshendis óhæfur.  En það er hann ekki samkvæmt mati Trumps, því að hann á fyrst og fremst að láta hausa fjúkja.  Eins og dómsmálaráðuneytið er í dag, ríkir þar algjör spilling, pólitískar ofsóknir er á hendur pólitískra andstæðinga (ekki bara Trump, heldur einnig stuðningsmanna hans) og núverandi dómsmálaráðherra framfylgir ekki lögum, t.d. er varða landamæri ríkisins.

Óvenjulegasta aðgerð Trumps er myndun nýs ráðuneytis, sem mætti kalla á íslensku sparnaðar- og hagræðingarráðuneyti. Til starfa er valdir tveir róttækir einstaklingar, Vivek Ramaswamy og Elon Musk.  Báðir eru milljónamæringar og þrautreyndir í fyrirtækjarekstri. Fræg var þegar Musk keypti Twitter og rak 80% af starfsfólkinu. Það hafði engin áhrif á reksturinn, ef eitthvað er, hlaust af mikill sparnaður. Nú á að skera niður við trog alla óþarfi eyðslu ríkisins og á sama tíma sem skattalækkanir eiga að eiga sér stað. Skattalækkanir geta ekki átt sér stað nema ríkisútgjöld verði skorin niður.

Árið 2024 námu heildarútgjöld ríkisins 6.75 trilljónir dala og heildartekjur 4.92 trilljónir dala, sem leiddi til halla upp á 1.83 trilljónir dala, sem er aukning um 138 milljarða frá fyrra fjárhagsári. Musk sagðist geta skorið niður ríkisútgjöld um 2 trilljarða dollara. Það væri ótrúlegt og um leið frábært ef það er raunverulega hægt.

En hvað með Ísland?  Hvað er ríkisendurskoðun að gera? Jú, hún kemur með athugasemdir við hallarekstur stofnana og ráðuneyta.  En hún hefur ekki það hlutverk að hagræða og skera niður útgjöld.

Það væri ekki svo vitlaust að Íslendingar komi sér upp ráðuneyti eða stofnun sem einbeitir sér bara að því að halda ríkisútgjöld innan fjárlaga. T.d. mætti setja í lög að Alþingi megi ekki skila inn hallafjárlögum. Þess má geta ríkissjóður Íslands var hallalaus og skilaði afgangi á tímabilinu 1874-1904. Á þessu tímabili var íslenska fjármálakerfið einfalt og útgjöld ríkisins lág, að mestu leyti bundin við rekstur embætta og grunnþjónustu. Tekjur ríkissjóðs komu aðallega frá tollum, sköttum og öðrum álögum. Annað var að ræða á tímabilinu 1904-1918. Á einstaka árum, sérstaklega í kringum heimsstyrjöldina, var halli á fjárlögum vegna aukinna kostnaðar við að tryggja innflutning og stuðla að verðstöðugleika innanlands. Hins vegar reyndi stjórnvöld að halda hallanum í lágmarki. Á lýðveldistímabilinu frá 1944 til 2019 tókst stjórnvöldum stundum að halda ríkissjóði réttum megin við strikið.

Íslendingar virðast ekki kunna að spara. Aldrei má skera niður óþarfa útgjöld eða leggja niður óþarfi ríkisapparat eins og RÚV sem kosta skattgreiðendur um 10 milljarða á ári. En svo er skorið niður þar sem síst skyldi. Skera á niður fjárlög til nýja Landsspítalans um 2,5 milljarða króna en á sama tíma að senda 1,5 milljarða í tapað stríð í Úkraínu. Eru stjórnmálamenn galnir? Hvaða hagsmuni eru þeir að gæta? Ekki Íslendinga í þessu tilfelli. Stundum heldur maður að Íslendingar séu upp til hópa heims...eins og forstjóri Íslensku erfðagreiningarinnar sagði eitt sinn.


Spursmál og Kristrún...og meiri skattar!

Össur Skarphéðinsson sagði að Kristrún hafi tekið þáttastjórnanda í nefið.  Hann er að misskilja hlutverk þáttastjórnanda og spurningin er ekki hvort hún vinni spurningakeppni, heldur hvort hún svari skilmerkilega spurningum sem lagðar eru fyrir hana.

Fyrst var spurt um innri mál flokksins og þá einstaklinga sem eru að valda flokknum erfiðleika. Gott og vel, engin landsmálapólitík þar. En svo var farið í orkumál. Kristrún var spurð út í orkumál.  Flokkurinn segist vilja virkja fyrir 5 terravatt stundir en þegar hún var spurð út í framkvæmd, var fátt um svör. Hvammsvirkjun sagði hún en þá bent Stefán á að það væri dropi í hafi.

Flokkar og forystumenn slengja einhverja fullyrðu fram sem kosningaloforð en geta ekki bakkað hana með raunverulega áætlun um framkvæmd. Kristrún gat ekki svarað þessu almennilega.

Kristrún vill hækka veiðigjöld um helming á útgerðina. Sem sagt, auknir skattar á útgerðina. Hvað þýðir það í raun? Fjárfestinga möguleikar atvinnugreinarinnar minnkar þar með.

Kristrún vill skattleggja ferðaþjónustuna meira. Gjaldtaka á ferðmenn og ferðamannastaði.

Hækka tekjuskattinn. Kristrún neitar því en fékk þá að sjá myndband af sjálfri sér tala um hún útilokar ekki hærri tekjuskatt. En í viðtalinu neitaði hún því alveg. Segir að álögur á almenning séu nógu háar.

ehf gatið....hækkun fjármagnstekju skattsins. Hún vill meina að þetta lendi á þau 10% þjóðarinnar sem er mestu tekjurnar.

En Kristrún kom eftir sem áður með góða punkta um ýmsa hluti, t.d. ekki að hækka virðisauka skatt á ferðþjónustuna.

Spursmál: Kristrún svarar fyrir áform um skattahækkanir


Lagaprófessorinn og bókun 35

Stjórnmálamenn sem tala gegn bókun 35 virðast sumir ekki hafa áttað sig á að grunneðli EES-samningsins er að hann veitir einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri aðild að sameiginlegum markaði ESB og þar með fyrst og fremst réttindi á þessum kjölfestumarkaði Íslendinga þar sem búa um 450 milljónir manna.“ Þetta sagði lagaprófessor í viðtali við DV, sjá slóð:

Þeir sem tala gegn bókun 35 skilja ekki EES og tala gegn réttindum og hagsmunum Íslendinga

Þetta er athyglisverð athugasemd prófessorsins. Samkvæmt hans mati er Evrópa og Evrópu markaðurinn nafli heimsins. En hann minnist ekki á fórnarkostnaðinn af aðildinni að EES.  Hér  erum við að tala um sjálfstæði Íslands, hvorki meira eða minna. Bókun 35 þýðir skert sjálfræði íslensku þjóðarinnar á eigin löggjöf. Að útlendar reglugerðir ráði íslenska löggjöf er fáranlegt og víst er að Jón Sigurðsson myndi velta sig við á núverandi stað ef hann gæti.  Hann hvikaði aldrei, aldrei nokkurn tímann, frá stefnunni um fullt frelsi frá eldri stjórn.

Hér kemur auðljóst svar við fullyrðingu lagaprófessorsins: Ef erlendur viðskiptasamningur vinnur í raun gegn íslenskum hagsmunum, sjálfstæði Íslands, eigum við hið snarasta að segja okkur úr þessu samstarfi. Heimurinn inniheldur 8 milljarða manna og Evrópa hefur aðeins 500 milljónir innan ESB.  Betra væri að vera séðari og hreinlega að ganga úr ESS, vera áfram í EFTA og gera tvíhliða fríverslunarsamninga eins og við erum að gera í dag. Við getum gert tvíhliða samning við ESB, eins og Kanada gerði og fengið betri samninga fyrir fiskafurðir, rétt eins og Kanadamenn fengu, en við ekki sem EES þjóð.

Staðan eins og hún er í dag er þessi. Við höfum bestu kjarasamninga við Bandaríkin. Við höfum gert fríverslunar samning við Kína og erum að ljúka fríverslunarsamning við Indland. Tvo stærstu og öflugustu markaði í heimi og þeir fjölmennustu. Förum í gegnum fríverslunarsamninganna:

EFTA (Evrópska fríverslunarsamtökin) er í raun samningur við Noreg, Sviss og Liechtenstein, sem einnig var grunnur að EES-samningnum.

Svo voru gerðir samningar við Kanada, Mexíkó og Kólumbíu – Í gegnum EFTA hefur Ísland gert fríverslunarsamninga við þessi lönd.

Fríverslunarsamningar EFTA við lönd í Asíu – Þar á meðal Kína (2014), Suður-Kóreu, Singapúr, og fleiri Asíulönd í gegnum sameiginlegar EFTA-viðræður.

Samningur við Bretland – Eftir Brexit samdi Ísland og EFTA löndin við Bretland um fríverslunarsamning, sem tók gildi árið 2021.

Þessir samningar hafa opnað íslenskum fyrirtækjum aðgang að mörgum mörkuðum og auðveldað viðskipti með vörur og þjónustu.

Að lokum. Mikilvægasti samningur Íslands er við EFTA ríkin. Í gegnum þetta samstarf hafa fjölmargir fríverslunarsamningar opnast og fleiri munu fylgja í kjölfarið.  Svo getum við gert fríverslunarsamninga sjálfir. Við viljum viðskipti en ekki erlend yfirráð.

Þótt viðkomandi hafi náð þeim árangir að verða prófessor, er hann ekkert authoritet á framtíð Íslands né er víst að hann hafi rétt fyrir sér.


Viðreisn og Samfylkingin í stríði við einkabílinn

Það er sífellt betur að koma í ljós hversu mikill forsjár flokkur Viðreisn er og í raun að flokkurinn er vinstri flokkur. Líkt og aðrir vinstri flokkar er dagskipunin bönn og skattar. Það þarf að hafa vitið fyrir okkur skattgreiðendur og borgara. Nú í nafni loftslagsvá sem eru umdeild vísindi.

Við Íslendingar eigum að vera svo smart og flott og á undan öllum hinum að banna eldsneytisknúna bifreið. 

"Viðreisn vill að Ísland verði kol­efn­is­hlut­laust og laust við jarðefna­eldsneyti fyr­ir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefna­eldsneyt­is í ís­lenskri lög­sögu. Ný­skrán­ingu á bens­ín- og dísel­bíl­um verði hætt árið 2025, nema með sér­stakri und­anþágu til árs­ins 2030,“ seg­ir í mál­efna­skrá flokks­ins sem samþykkt var á lansdþingi í fe­brú­ar 2023."

Ætla Íslendingar virkilega að samþykkja svona valdboð og nauðung? Og ætla kjósendur virkilega að kjósa svona boð og bönn flokk sem er í dulargervi miðju borgaraflokks? Þegar litið er á stefnuskrá Viðreisnar má sjá að þarna eru á ferðinni hægri kratar og báðir flokkar vilja bensín bílinn burt. Stefnuskráin gæti hafa verið snýtt úr nös Samfylkingar. Sbr. Inngöngu í ESB.

Kíkjum á dæmi sem sannar þetta:

  • Full aðild að Evrópusambandinu stuðlar að aukinni hagsæld á Íslandi.
  • Samvinna þjóða tryggir og ver mannréttindi, stuðlar að friði, er nauðsynleg til að taka á umhverfismálum, bætir vernd neytenda og tryggir betur réttindi launafólks.
  • Mikilvægt er að Ísland taki loftslagsmál föstum tökum og sé virkt í alþjóðlegu samstarfi um lausnir á þeim vanda.
  • Ísland á að sýna metnað í alþjóðlegu hjálparstarfi, þróunarhjálp og móttöku flóttamanna.

Grunnstefna Viðreisnar

Það er skelfilegt til þess að hugsa að Viðreisn og Samfylkingin mælast með mesta fylgi í skoðanakönnunum.  Annar hvor eða báðir munu sitja í næstu ríkisstjórn. Það "fyndna" er að Samfylkingin er til hægri við Viðreisn ef miðað er við núverandi stefnuskrá flokkanna. Viðreisn er sannkallaður úlfur í sauðagæru!

Viðreisn vill hætta nýskráningu bensín- og dísilbíla á næsta ári

 


Víðir afhjúpar Samfylkinguna sem skattaflokk

Hinn rökksami þáttastjórnandi Spursmála, Stefán Einars, afhjúpaði Víðir og flokk hans sem skattaflokk. Ætlunin er að leggja skatta á tekjur yfir 1,3 milljónir króna (sem telst í dag ekki vera ofurlaun).

Víðir féll í gildru Stefáns Einars í Spursmálum – Svarar nú áróðrinum fullum hálsi

Víðir segist hafa lent í gildru, en sú gildra var reyndar hans eigin orð. Sama hvernig hann snýr sér út úr þessu, vill hann hærri skatta.

Um hvað snýst málið? DV segir frá: "Meðal stefnumála Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar er að loka svokölluðu ehf-gati. Þar með sé betur hægt að tryggja að launatekjur séu skattlagðar með sambærilegum hætti hvort sem þær eru teknar út sem arður eða laun."

Víðir reynir að útskýra mál á þennan veg: "„Ástæðan er sú að af launum umfram 1,3 milljónir á mánuði þarf að greiða tekjuskatt í efsta þrepi og auðvitað tryggingagjald, sem er samanlagt yfir 52%. Skattur á arð er hins vegar 37,6% þegar búið er að taka tillit til tekjuskatts fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts. Þar munar nokkuð miklu."

Ergo sum: Víðir vill hækka skatta!  Honum finnst 37,6% ekki nógu háir skattar! Hann lætur sig dreyma um 52% sem sé "sanngjarnt". Báðir skattaliðir eru of háir, í raun ofurskattar. Sanngjarnir skattar ættu aldrei að vera meira en 20%, á einstaklinga eða fyrirtæki.  Virðisaukinn ætti líka að vera í þessu þrepi.

Af hverju að miða við 1,3 milljónir, sem í verðbólgubálinu verða að litlu sem engu innan fárra missera, er óskiljanlegt. Leyfið fólkinu og fyrirtækinunum að að skapa sér arð sem verður svo að sköttum. Ríkið hagar sér oft á tíðum eins og handrukkari, "hvað get ég kreist mikið út þessum lögaðila án þess að blóðmjólka hann" er viðhorfið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband