Færsluflokkur: Bloggar

Hægri eða vinstri bylgja í Evrópu?

Það virðist hvorki vera hægri eða vinstri bylgja í gangi. Menn á vinstri væng stjórnmálanna hafa farið á taugum og haldið því fram að hægri flokkar, sérstaklega þeir sem kallaðir eru öfgaflokkar, séu í mikilli sókn. 

Íslenska hugtakið öfga hægri hefur verið notað um enska hugtakið "far right". En er það rétt þýðing? "Extreme" er enska þýðingin fyrir öfga en þessir flokkar eru oftast kallaðir far right í erlendum fjölmiðlum, ekki extreme right. Google Translate kemur með þýðinguna "lengst til hægri". "Far left" ætti þar með að vera öfga vinstri eða yrst til vinstri.

Jú, þessir flokkar hafa bætt við sig fylgi en ekki er hægt að segja það valdi því að umskipti verða í Evrópu. Sjá má þetta í Frakklandi og Bretlandi, stærstu ríkjum Vestur-Evrópu, að vinstri menn báru sigur úr býtum.  Það verða ansi litlar breytingar í Evrópu á næstunni og ESB verður samt við sig, þótt hægri flokkarnir (lengst til hægri) hafa bætt stöðu sína umtalsvert á Evrópuþingi.

En það er hins vegar rétt að hinu hefðbundnu hægri flokkar, borgaraflokkarnir, rótgrótnir flokkar, hafa brugðist hægri kjósendum og tekið upp stefnu vinstri flokka og kjósendur hægri flokkar leita því yrst til hægri til að finna málsvara. Sjá má þetta hér á Íslandi með stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins og Íhaldsflokksins breska.   Í Frakklandi urðu lokaúrslit þingkosninganna að Vinstribandalagið hefur tekið flest sæti á þingi. Miðjumenn Emmanuel Macron urðu í öðru sæti og öfgahægri flokkur Marine Le Pen í þriðja sæti.

En hvað er það að vera "öfga hægri" (e. far right)? Þegar litið er á þessa flokka, flokks Marine Le Pen eða AFD í Þýskalandi, þá virðast þeir vera hefðbundnir hægri flokkar að öllu leyti nema í innflytjendamálum. Þar marka þeir sína sérstöðu.

Stefnuskrá Þjóðfylkingarinnar frönsku árið 2017 endurnýjar skuldbindingu sína til að draga verulega úr innkomu löglegra innflytjenda. Le Pen heldur því fram að franskur ríkisborgararéttur ætti að vera "annaðhvort erfður eða verðugur". Hvað ólöglega innflytjendur varðar þá "hafa þeir enga ástæðu til að vera áfram í Frakklandi, þetta fólk braut lög um leið og það steig fæti á franska grund".

En ef það er öfgahægri afstaða, þá er hún ekki mjög frábrugðin frambjóðanda miðju-hægrimanna, Francois Fillon - sem þegar hann var fyrst kjörinn sem frambjóðandi repúblikana naut hann lítillar forskots á Le Pen í könnunum en hefur síðan orðið fyrir skaða af fullyrðingum. um óviðeigandi notkun á fjármunum ríkisins.

And-íslamski flokkur Geert Wilders í Hollandi, hægriöfgaflokkur fyrir frelsi (PVV) kom sem aðalflokkurinn með 37 sæti, næstur á eftir kom GroenLinks-PvdA með 25 sæti, bandalag undir forystu Frans Timmermans, fyrrverandi framkvæmdastjóra Evrópusambandsins.

Fráfarandi forsætisráðherra, Mark Rutte, Þjóðarflokkur fyrir frelsi og lýðræði (VDD) tapaði umtalsverðu með 24 þingsæti. Tveir aðrir flokkar, NSC og D66, fengu 20 og 9 sæti, í sömu röð. Yfir 10,4 milljónir kjósenda greiddu atkvæði til að kjósa 150 sæta þingmenn.

Hins vegar í Austur-Evrópu eru hinu hefðbundnu hægri flokkar samir við sig, hafa haldið í stefnuskrár sínar og því er erfitt að kalla einhverja flokka þar "far right", þótt stjórnarflokkurinn Fidesz í Ungverjalandi kann að teljast vera öfga hægri í augum vestrænna fjölmiðla.

Niðurstaðan er því að eðlilegar sveiflur eru í gangi í stjórnmálum Evrópu. Bara eins og það á að vera. Kjósendur hafna hægri eða vinstri flokkum eftir vonbrigði stjórnartímabils þessara flokkar og velja annað.

Svo er annað mál hvaða vegferð Evrópa og vestræn menning er á. Sumir kalla ástandið í dag hnignun vestrænnar menningar en aðrir eru áhyggjuminni. En Evrópumenn ættu að hafa í huga að sólskinsdagar fortíðarinnar gætu endað og allt farið á annan enda. Það er jú stríð í gangi í Evrópu sem gæti leitt til þriðju heimsstyrjaldar ef menn eru ekki varkárir.


Brennsluofn ríkisbálknsins

Nýjasta brennsluefni stjórnmálamanna í brennslu almanna fés er stofnun Mannréttindastofnun Íslands.  Íris Erlingsdóttir skrifar frábæra grein á Útvarpi sögu um þessa nýju ríkishítar stofnun sem nú er komið á fót, á okkar kostnað!:

"Erfitt er að meta hvort er meira hneyksli – að Alþingi Íslendinga hefur, án nokkurrar þjóðfélagsumræðu, stofnað nýtt, óþarfa ríkisbákn, Mannréttindastofnun Íslands (MRSÍ), “með víðtækar heimildir” sem mun árlega kosta skattgreiðendur á þriðja hundrað milljónir króna, eða að ríkisbáknið, sem hefur með höndum það hlutverk að annast umrædda þjóðfélagsumræðu og er þjóðinni álíka gagnlegt og gatasigti er drukknandi manni í ólgusjó, gerði aðeins tvær fréttir um þessa fyrirhuguðu stofnun." 

Hún segir jafnframt:

"Í landinu starfa nú þegar a.m.k. þrjár mannréttindastofnanir. Auk Mannréttindastofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands er  Mannréttinda- og lýðræðisstofa Reykjavíkurborgar, sem hefur með höndum m.a. fötlun, "fjölmenningu og inngildingu" og kynjaréttindi. "Hinsegin" málefnaflokkur sér um að veita fyrirtækjum og stofnunum “regnbogavottun” og tilheyrandi einhyrningaprump."

Bloggritari skrifaði svipaða grein og Íris.  Sjá slóð: Ný mannréttindastofnun fyrir mannréttinda ríkið Ísland nauðsynleg?

Í greininni benti bloggritari á Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem valkost. Óþarfi að hafa tvær stofnanir. Er á því að þetta er peningaaustur, höfum verið í S.þ. síðan stríðslok seinni heimsstyrjaldar án þess að vera með svona stofnun.

Sjálfstæðisflokkurinn reynir að bendla Miðflokkinn við samþykkt stofnunar Mannréttindastofnunar Íslands. Sigmundur Davíð greip til andsvars í fjölmiðlum og sagði þetta:

Vissulega hafi Miðflokkurinn árið 2019 samþykkt að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En það þýði ekki að af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að stofna "enn eina mannréttindastofnunina".

Sjálfstæðisflokki hafi verið bent á að það væri ekki nauðsynlegt að stofna stofnun til að "stjórna hugarfari og tjáningu landsmanna", til að uppfylla skuldbindingar gagnvar fötluðu fólki. Ísland sé þegar með nóg af mannréttindastofnunum, svo sem Mannréttindaskrifstofu Íslands, mannréttindastofnanir sveitarfélaga og mannréttindastofnun Háskóla Íslands."

Á sama tíma er ríkið rekið með viðvarandi halla á ríkisfjárlögum, bálknið stækkar og stækkar; vegir landsins grotna og eru ekki lagfærðir; heilbrigðiskerfið skorið við nögl og fjársvelt (læknaskortur í landinu); velferðakerfið í heild stendur höllum fæti; lögreglan undirmönnuð og fjársvelt; Landhelgisgæslan fjársvelt; velferðatúrismi handa hælisleitendur í hæðstum hæðum; fatlaðir og öryrkjar vanræktir (nær að láta þessa peninga beint til þeirra í stað ríkisstofnunar með blýant nagandi starfsfólk að gera ekki neitt allan daginn) o.s.frv.

Sumir halda að skynsemin haldist í hendur við meirihluta, að flestir séu skynsamir og sýni ráðdeild í efnahagsmálum og öðrum hagnýtum málum. En svo er ekki alltaf, sjá má þetta þegar meirihluti Alþingi samþykktir alls kyns bábiljur. Bloggritari myndi bara hrista höfuðið og halda áfram með sitt líf, ef vitleysan hefði ekki bein áhrif á hann. Það er ekki hægt að hunsa ruglið sem hefur hefur áhrif á allt og alla í kringum hann.

Ad imperium hoc dico: me solum et vitam meam desere. 


Jack Ma um ríkisdæmi

Einn ríkasti maðurinn í Kína (Jack Ma) sagði eitt sinn: "Ef þú setur bananana og peningana fyrir framan apana, munu aparnir velja banana vegna þess að aparnir vita ekki að peningar geta keypt marga banana.

Reyndar, ef þú býður fólki VINNU eða VIÐSKIPTI, þá mun það velja að VINNA vegna þess að flestir vita ekki að FYRIRTÆKI getur þénað meira en laun.

Ein af ástæðunum fyrir því að fátækir eru fátækir er sú að þeir fátæku eru ekki þjálfaðir til að viðurkenna frumkvöðlatækifærin.

Þeir eyða miklum tíma í skóla og það sem þeir læra í skólanum er að vinna fyrir launum í stað þess að vinna fyrir sjálfum sér.

Hagnaður er betri en laun vegna þess að laun geta staðið undir þér, en hagnaður getur gert þér auðæfi.

Þetta er almenn skynsemi sem hann boðar hér en kannski ekki háspeki, enda kaupsýslumaður en ekki heimspekingur.

Þetta ættu skattaglaðir stjórnmálamenn að hafa í huga er þeir líta á fé fyrirtækja sem eigið fé sem þeir geta ráðstafað að vild. Ekki drepa gull gæsina. 

---

Jack Ma er meðstofnandi tæknisamsteypunnar Alibaba Group og er alþjóðlegur sendiherra kínverskra viðskipta. Eftir að hafa byggt upp fyrirtæki sitt frá grunni fjárfesti hann í fjölda tækni- og rafrænna viðskiptafyrirtækja, er með hlut í Lazada, YCloset, Tokopedia, Shiji, Intime Retail Group og Ordre.


Úrslit bresku þingkosinganna endurspeglar lýðræðishalla Bretlands

Þvílík niðurstaða í bresku þingkosningunum og ólýðræðisleg. Kosningakerfi Breta er meingallað en bloggritari fer í það hér neðar í pistlinum.

Verkamannaflokkurinn fær 9,6 milljónir atkvæða en 412 sæti, Íhaldsflokkurinn fær 6,8 milljónir atkvæða en 121 sæti og UK Reform í Bretlandi fær 4 milljónir atkvæða en aðeins 4 sæti og Frjálslyndi demókrata flokkurinn fær 3,6 milljónir atkvæða og 71 sæti. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn fær 5 sæti með aðeins 172 þúsund atkvæði. Er eitthvað að þessari mynd?

Atkvæðin endurspegla ekki fjölda þingsæta. Sigurvegarinn tekur allt. Í raunverulegu lýðræði ættu öll atkvæði að telja og endurspegla fjölda þingsæta. Minnihlutinn hefur því enga rödd og kjörseðlum þeirra sem kusu stjórnmálaflokka minnihluta flokka er þar með hent í ruslið.

Er eðlilegt að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn fái 5 sæti en UK Reform í Bretlandi fái aðeins 4 sæti en með 4 milljónir kjósenda á bak við sig? Minnihluti ætti alltaf að hafa rödd í húsi fólksins - breska þingisins, þar sem hvorki meirihluti eða minnihluti (bandalag lítilla flokka) ætti að stjórna einir. Á Íslandi miðum við mörkin við 5%, ef flokkurinn fær atkvæði yfir þeim mörkum fær hann þingsæti, venjulega 3 sæti af 63 þingsætum.

Ókosturinn við íslenska kosningakerfið er hins vegar sá að vægi atkvæða á landsbyggðinni er meira en á höfuðborgarsvæðinu. Veit ekki hvað það er í dag, en hlutfallið er kannski fimm á móti einum. Þ.e.a.s. atkvæði greitt á Akureyri hefur fimm sinnum meira vægi en atkvæði greitt í Reykjavík. Eins og ég segi þá veit ég ekki alveg hlutfallið í dag miðað við íbúaþróun landsins. Þeir hafa reynt að laga það með svokölluðum jöfnunarsætum, það ætti að jafna þetta út. Skipting jöfn þingsæta fer bæði eftir niðurstöðum flokkanna á landsvísu og eins í einstökum kjördæmum.

Tengill á niðurstöðu kosningakosninga í Bretlandi 2024: UK General election 2024 Results

Tengill á niðurstöðu kosninga kosninga 2021: Úrslit Alþingiskosninga í september 2021

Westminister-kerfið útskýrt (heimild: íslenska wikipedia)

"Westminster-kerfið þróaðist á breska þinginu á löngum tíma og byggir það að miklu leyti á óskráðum stjórnskipunarvenjum og hefðum. Utan Bretlands er kerfið helst notað í löndum sem áður voru hluti af breska heimsveldinu. T.d. í Kanada þar sem það hefur verið við lýði síðan 1848 og á Indlandi sem er fjölmennasta lýðræðisríki heims.

Munurinn á Westminster-þingræði og þingræði í öðrum löndum, t.d. á meginlandi Evrópu liggur helst í því að þingstörf í Bretlandi og öðrum löndum sem nota Westminster-kerfið eru átakakenndari en t.d. í Þýskalandi þar sem meiri áhersla er á samráð. Það kann að helgast af því að kosningakerfið sem notað er á Bretlandi leiðir til þess að oftast fær sá flokkur sem sigrar kosningar hreinan meirihluta á þingi á meðan það er venjan á meginlandi Evrópu að tveir eða fleiri flokkar þurfa að mynda samsteypustjórn.

Þessi menningarmunur endurspeglast í því hvernig salarkynni þjóðþinga eru innréttuð. Í breska þinginu er bekkjaröðum stillt upp á móti hvorum öðrum þannig að stjórnarliðar sitja öðrum meginn í salnum en stjórnarandstæðingar hinu megin. Í þingræðislöndum sem ekki nota Westminster-kerfið er hins vegar algengast að raða sætum í hálfhring."

En þessi útskýring Wikipedíu er ekki nóg. FPTP (First past the post heitir þetta kerfi) og er "sundrandi" atkvæðakerfi og hefur sætt gagnrýni fyrir að vera ekki raunverulega fulltrúi skoðana kjósenda, þó það hafi aðra kosti, þar á meðal að þingmenn viðhalda sterkum kjördæmatengslum.

Í Bretlandi eru 650 kjördæmi sem skila sér í sama fjölda þingsæta. Til að verða þingmaður þarf frambjóðandi meirihluta atkvæða umfram aðra frambjóðendur í sínu kjördæmi og veitir þeim þannig eitt af þessum sætum. Sá sem fær flest atkvæði í kjördæmi er sigurvegara þess svæðis. Þetta kallast einmenningskjördæmi en það er kjördæmi í þingkosningum þar sem aðeins einn frambjóðandi nær kjöri. Mismunandi reglur geta gilt um það hvernig sigurvegarinn er ákvarðaður, algengt er að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði nái kjöri þó að viðkomandi fái ekki meirihluta atkvæða.

Helsta gagnrýni á FPTP er að það hvetur til taktískrar atkvæðagreiðslu meðal kjósenda. Niel Farage sagði að helmingur atkvæða greidd Verkamannaflokknum hafi verið óánægju atkvæði, greidd gegn Íhaldinu en kannski ekki endilega með sósíalískum Verkamannaflokknum. 

Hægt er að sjá sömu þróun á Íslandi, íslenska íhaldið mun bíða afhroð í næstu Alþingiskosningum á meðan Samfylkingin sem segist vera systurflokkur Verkamannaflokksins mun vinna stór sigur. Báðir flokkar hafa fært sig til hægri til að ganga í augum kjósenda en báðir flokkarnir eru skattaflokkar, afskiptaflokkar og ríkisvaldsflokkar. Kjósendur munu fljótt gefast upp á þeim báðum. En hið góða við íslenska kosningakerfi er að smáflokkarnir hafa áhrif og fá sæti á Alþingi. Samfylkingin mun því fá harða stjórnarandstöðu og aðhald, ólíkt Verkamannaflokknum.


Bjálkinn í augum varðhunds Nýhaldsins - Guðfaðir útlendingalaganna er sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn!

„Ekki benda á mig“,
segir varðstjórinn,
þetta kvöld var ég að æfa lögreglukórinn.
Spyrjið þá sem voru á vakt,
ég ábyrgist þeir munu segja satt.

[m.a. á plötunni Bubbi Morthens – Fingraför]

Þennan snilldartexta má yfirfæra á stjórnmálaflokka sem nú sverja af sér arfa slök útlendingalög frá 1. janúar 2017 (Lög um útlendinga: 2016 nr. 80 16. júní). Jú, jú, ég var þarna starfandi en það voru aðrir á vaktinni sem ollu skaðanum.

En Björn Bjarnason segir sjálfur í grein sinni Guðfaðir útlendingalaganna þetta: "Í fréttum frá þessum tíma er sagt frá því að þingmennirnir Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, hafi farið til Tyrklands til að kynna sér aðstæður flóttafólks. Höfðu lýsingar þeirra mikil áhrif á aðra þingmenn. Óttarr var formaður í nefnd allra flokka til að semja ný útlendingalög."

Var það ekki á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem grunnurinn var lagður að og raungerðist svo í lagabálknum frá 1. janúar?  Fyrrum samherji (að ég held) Björns bónda, Jón Magnússon, hefur aðra sögu að segja. Kíkjum á hans útgáfu:

"Á Landsfundi 2015 lagði ég ásamt nokkrum öðrum fram tillögu um málefni hælisleitenda, þar sem vikið var að því að fámenn þjóð yrði að gæta vandlega hagsmuna sinna og setja mjög ákveðnar reglur um heimildir hælisleitenda til að koma til landsins.

Forusta Sjálfstæðisflokksins var tillögunni mjög andsnúinn og braut allar grunnreglur fundarskapa til að koma í veg fyrir að hún fengist tekin á dagskrá fyrr en liðið var að lokum Landsfundar að kvöldi síðasta þingdags og meiri hluti Landsfundarfulltrúa farinn heim til sín. Einnig var komið í veg fyrir eðlilegar lýðræðislegar umræður um tillöguna. Hún var felld eftir algjört ofbeldi af hálfu forustu og fundarstjóra auk nokkurra óvita með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í broddi fylkingar þá nýkjörna sem ritara Flokksins. 

Ömurleikasaga Sjálfstæðisflokksins í málefnum hælisleitenda fór síðan í nýjar hæðir í meðförum þáverandi varaformanns flokksins Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem dómsmálaráðherra, sem skipaði þverpólitíska nefnd til að unga út vitlausustu löggjöf um málefni útlendinga sem þekkist í Evrópu."

Hefur Jón Magnússon ekki rétt fyrir sér, að hér sé verið að hengja bakarann fyrir smiðinn? 

Björn endar pistil sinn svona: "Þótt Sigmundur Davíð hafi hrökklast úr embætti forsætisráðherra áður en útlendingalögin voru samþykkt má með réttu kalla hann guðföður þeirra. Fortíðinni verður ekki breytt."  Hér er í raun spurt hver sé sekastur í þingheiminum.  Ef það á að taka einhvern út fyrir sviga, má benda á tvo sökudólga. Óttarr Proppé í Bjartri framtíð og Unnur Brá Konráðsdóttir í Sjálfstæðisflokknum,  sem má segja að séu guðfeður útlendingalaganna. 

Máltækið "konur eru konur verstar" eða "konur eru þjóðinni verstar" á hér við en framganga Sjálfstæðiskvenna einmitt í þessu máli á landsfundinum réði mestu um hvernig útlendingastefna Sjálfstæðisflokksins mótaðist næsta árin. Kvennahópurinn í kringum Bjarna Benediktsson (ekki allar), hirðin, hefur reynst afar frjálslyndur hópur, svo woke sinnaður, að þær hljóta hafa ruglast á flokkum er þær sóttu um inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn. Þær ætluðu í raun að ganga í Samfylkinguna en tækifærin voru kannski betri í Sjálfstæðisflokknum?

Ef litið er á hverjir eru skrifaðir "ábyrgðarmenn" fyrir útlendingalögunum frá 2016, þá er það Ólöf Nordal innanríkisráðherra úr Sjálfstæðisflokknum að ráði allsherjar- og menntamálanefndar en framsögumaður nefndarinnar var engin önnur en Unnur Brá Konráðsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum.

Þeir seku eru þeir sem voru viðstaddir og á vakt er útlendingalögin voru samþykkt og greiddu með lögunum. Og það var meirihluti þingheims Alþingis á þessum tíma. Já greiddu 46 þingmenn með lögunum, 0 greiddi nei, 2 greiddu ekki atkvæði (Ásmundur Friðriksson og Brynjar Níelsson) og fjarverandi voru 14 þingmenn, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þannig að ekki er hægt að bendla hann við samþykkt laganna! Sjá slóð: Atkvæðagreiðsla

Og nú hafa ný útlendingalög verið samin og samþykkt í sumar. Og þau reynast gölluð strax frá upphafi!  Flokkur fólksins kom með breytingartillögu um að hægt sé að vísa útlendum glæpamönnum úr landi en það var fellt á Alþingi. Dómsmálaráðherrann Guðrún Hafsteinsdóttir, Sjálfstæðisflokknum, sagðist ætla að taka málið upp í haust. "Það stendur ekki til að gera breytingar á útlendingalögum umfram þessar á þessu þingi. ... Ég er með áform um að leggja fram breytingar við útlendingalögin næsta haust."

Sjá má strax afleiðingarnar, hér gengur um útlendingur með hótanir við alla sem koma nálægt honum en ekki er hægt að vísa honum úr landi vegna þess að ríkisstjórnarflokknarnir þola ekki að stjórnarandstaðan komi með vitrænar breytingar á nýju lögunum.

Er Alþingi viðbjargandi? Enginn greiddi atkvæði gegn lögunum sem tíminn hefur sannað að reynst hafa verið arfa vitlaus. Og enn er haldið áfram á sömu braut...það þarf að staga í sokkinn strax í haust.

Helsta heimild: Útlendingar (heildarlög) 728. mál, lagafrumvarp Lög nr. 80/2016. 145. löggjafarþing 2015–2016.


Byssur verða til - saga skotvopna

Þegar ég hóf að stúdera hernaðarsögu, þá var mér í upphafi ráðgáta hvers vegna Evrópubúar hófu notkun handbyssna í stað langboga eða krossboga. Ástæðurnar voru nokkrar.

Í lagi voru byssur eða handbyssur, dætur fallbyssna sem voru notaðar gegn köstulum í umsátrum. Eðlilegt að menn tæku þessu vopn í hendur sínar. Fyrstu byssurnar hétu hakbyssur enda einkenni þær hak (gikkur) sem stóð neðan úr byssunni. Ekkert skeft eða lítið var á þessum byssum. Þessi vopn voru notuð jöfnum höndum með öðrum vopnum, eins og spjóti, bryntröllsins, armbyrstisins og bogans. Var því enn eitt vopnið í vopnasafninu.

Í öðru lagi var það skotkrafturinn (margar samstilltar byssur) og eyðileggingarmáttur (fór í gegnum allar verjur, nú á dögum líka í gegnum skothelt vesti). En svo var einnig háttað með krossboga. Bæði vopnin, krossbogar og byssur voru notuð gegn riddaraliði og það var í upphafi meginástæða þess að þessi vopn komu í stað til dæmis (lang- eða kross-)boga. En hvers vegna byssur í stað krossboga? Jú, þóttt það tæki lengri tíma að hlaða byssu en krossboga var það var skotkrafturinn og langdrægnin sem gerði útslagið. Krossboginn dró 100 metra lengra en boginn en hann var þungur, um 7 - 9 kg og dýr. Langan tíma tók að vinda upp strenginn og þurfti mikið afl til. Ekkert slíkt var fyrir að fara með byssur.

Í upphafi voru byssurnar "handfallbyssur" með stand og var tvíarma til að halda þungri byssu uppi og þvílíkt vopn var þetta gegn þungvopnuðu riddaraliði. Á 15. öld urðu herklæði riddara stöðugt þyngri og óhagkvæmari vegna árangurslausrar leitar að vörn gegn ógnun skotvopnanna. Þau voru orðin úrelt þegar um aldarmótin 1500. Stórskotalið Frakka sýndi það um 1494 á Ítalíu, að nýir tímar væru framundan. Sama var uppi á teningnum fyrir kastalanna, fallbyssurnar rufu þunna en háa múr þeirra auðveldlega. Moldarvirki eða skansar komu í staðinn.

Í þriðja lagi, í samanburði við krossboga, þurfti litla þekkingu eða færni til að skjóta úr slíkum byssum enda voru þær notaðar af fótgönguliði ásamt píkum (langspjótum, allt að 5 metra löngum eða lengri) gegn riddaraliði. Handvopn eða rifflar var notað af samstilltum hópi manna og því skipti nákvæmnin litlu máli og var það svo fram á 19. öld. Þess vegna börðust menn (að mér fannst þá) heimskulega með því að standa í röð(um) og skjóta á andstæða fylkingu hermanna. Nákvæmin var lítil eftir 75 -100 metra og því skipti litlu máli þættir eins og: nálægð, sem og uppröðun hermanna í beinar línur og það að vera berskjaldaður. Púðurreykurinn var hvort sem fljótur að hylja viðkomandi.

Hver byssuskytta gat skotið allt að þremur skotum á mínútu með kvartslásbyssu. Sameiginlegur skotmáttur (fjöldi byssna) alls herliðsins var það sem gerði útslagið og eyðileggingarmáttur byssukúlunar sem fór í gegnum allar verjur eða brynjur eins og áður sagði. Byssur þróuðust hægt. Helsta breytingin var hvernig skotinu (kúlunni sem var úr málmi, oft blýi eða steini) var skotið úr hlaupi byssunnar.

Í fyrstu var það mjög einfalt. Kveikiþráður (matchlock) eða "kveikilás" með gló var borið að gati á hlaupi sem á móti kveikti í púðri en það þeytir kúlunni úr hlaupinu. Helsti gallinn var að halda glóinn lifandi í rigningu og það að hún sást vel í myrkri.

Næsta í þróunni var það wheellock eða hjóllás sem gerði riddurum kleift að nota skammbyssur, þ.e.a.s. aðra hendina til að kveikja í púðurpönnunni í stað þess að nota tvær hendur, Fótgönguliðinn þurfti að nota aðra hendina til að halda á byssunni en hina til að bera kveikiþráðinn að pönnunni. Eina sem nú þurfti að gera að, var að taka í hamarinn, taka í gikkinn og hjólið sá um að bera kveikinn að pönnunni þegar skjóta þurfti.

Að lokum kom fram svokallaður flintlock eða kvartslás. Kvartið (steintegund sem auðvelt er að láta neista) er fest á byssuhamarinn og það er slegið niður á pönnuna og kveikir þar með í forpúðrinu sem á móti kveikir í púðurhleðslunni í hlaupinu. Kveikiþráðurinn var þar með orðinn úreltur.

Byssustingurinn kom svo til sögunnar á síðari hluta 17. aldar og þá mátti nota byssuna eftir skot, sem n.k. spjót. Spjót varð þar með úrelt. Svona voru byssur allt fram á 19. öld, frekar frumstæð vopn en þá komu fram rifflar hjá veiðimönnum Bandaríkjanna (hlaupin urðu riffluð og það jók nákvæmi skots og skotlengdar) og var upphaflega einkennisvopn veiðimannsins sem þurfti á nákvæmu vopni að halda, en ekki hversu hratt væri hlaðið. Eins með haglabyssuna, hún kom fram hjá, ef ég man rétt, hjá breskum presti sem notaði hana til fuglaveiða en aðrir segja að bandarískir landgönguliðar um borð bandarískra herskipa hafi notað haglabyssur fyrst vegna þess hversu erfitt er að skjóta frá skipi á veltingi.

Í öðru lagi varð skothylkið - patrónan og kúlan var nú orðið að einu stykki.

Þriðja afrekið var að nú voru hlaupin fleiri og með fleiri skot (sexhleypan þar frægust og vélbyssan Maxim). Sérstök skothylki komu fram fyrir riffla og skothríðin varð þar með meiri.

Byssur voru almennt einsskota fram á 19. öld og framhlaðningar. Einsskota handbyssur voru aðallega til á tímum kvartslásabyssna og musket vopna þar sem skammbyssa var hlaðinn með blý kúlum og hleypt af með kvartkveikju, og seinna með slagverkshettu. Skammbyssur voru lengi vel kallaðar pístólur (pistol á ensku) og revolver á 19. öld. Revolver var skammbyssa með fimm til sex hólfa sílender (hringlaga hólkur) og snýst með uppspenningi hamars.

Ætla ekki að rekja sögu skotvopna á síðari hluta 19. aldar til dagsins í dag, flest allir þekkja þá sögu en fáir um upprunan.

 

Hér er eitt ágætt myndband:

 


Sjálfstæðisflokkurinn í sjálfsheldu?

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að snúa til baka með fyrra fylgi og hann hafði áður en Bjarni Benediktsson tók við flokknum. Í raun hefur flokkurinn verið að missa fylgi hægt og rólega síðan hann tók við.

Það að hann hafi farið í sögulegt lágmark eða 15% í síðustu skoðunarkönnun segir alla söguna, þótt það hoppaði upp í 18% skömmu síðar.  Fylgi flokksins hefur ekki mælst jafn lítið og síðan í efnahagshruninu, eða í nóvember 2008. Mældist flokkurinn þá með 20,6 prósent.

Með flokksformann, sem er enginn leiðtogi, bara formaður, og hirðin í kringum hann sem hann hefur valið sér við hlið dansar eftir duttlungum hans, er borin von að Sjálfstæðisflokkurinn verði hægri flokkur.  Sjá má þetta hjá breska Íhaldsflokknum sem hefur líka svikið sínar hugsjónir en búist er við að hans bíði afhroð í júlí kosningunum næstkomandi. Báðir flokkar reyna að klóra í bakkann, t.d. með harðari innflytjenda stefnu en það er of seint í rass gripið. Það eru hin hægri málin, vanræktun hefðbundina gilda og frelsi þjóðar, einstaklingsins og markaðshagkerfisins sem hefur valdið vonbrigðum hægri kjósenda. Til hvers að kjósa þessa flokka ef þeir eru eins og vinstri flokkar í framgöngu? 

UK Reform flokkur Nigels Farage minnir svolítið á Miðflokkinn og stefnumál hans, samanber varsla hefðbundina gilda og harða innflytjenda stefnu. Báðum flokkum er spáð góðu gengi í næstu kosningum.  

Fólk er orðið þreytt á alþjóðahyggjunni og það að heimamenn eru látnir sitja á hakanum. Ólöglegir innflytjendur sem sumir segjast vera hælisleitendur, eru birtingamynd alþjóðahyggjunnar. Þröngvað upp á fólk án þess að það sé spurt hvort það vilji borga tug milljarða reikninginn sem af stjórnleysinu hlýst.

Fólk vill að heilbrigðisþjónustan virki, menntakerfið og velferðarkerfið en einnig að  húsnæðismarkaðurinn annist eftirspurn og öll þessi kerfi séu ekki á yfirsnúningi vegna opina landamæra.

Mjólkurkúin Ísland,  þótt hún sé gjöful í dag, mjólkar bara ákveðið magn. Jafnvel í dag getur hún ekki framfleyta öllum. Aldraðir og öryrkjar, kallað ómagar og ölmusafólk í gamla samfélaginu, eru látnir sitja út í horni líkt og hornkerlingin forðum.

Hin nýja Mannréttindastofnun Íslands (peningahít) mætti byrja á þessum hópi í starfi sínu en eflaust fer hún strax í woke verkefni og sinna öðrum en Íslendingum, sbr. hælisleitendum og mannréttindum erlendis. Utangarðmenn verða áfram utangarðs.

En góða fólkið er enn fjölmennur hópur, aumingja gott við fólk af öðrum bæjum en sínum eiginn. Það vill að fólk af öðrum bæjum borgi rausnarskapinn af allri góðmennsku sinni og heldur að það drjúpi smjör af hverju strái hjá öllum. Þetta fólk kýs flest allt til vinstri í stjórnmálum og styður stjórnmálaflokka sem lofa gulli  og grænum skógi í trjálausu landi.

Því má búast við að vinstri flokkar ríði feitum hesti frá næstu kosningum sem verða líklega á haustdögum.

Raunsæis fólkið, sem borgar daglega sína reikninga og ofurskatta, borgararnir - millistéttin, mun kjósa áfram borgaraflokkanna. Því miður nær þessi hópur sjaldan 50% fylgi og Ísland verður áfram hálf sósíalskt ríki. Er nokkur furða að ríkið hefur verðið rekið með halla frá lýðveldisstofnun?  

----

P.S. Björn Bjarnason nýtir í Sigmund Davíð í nýlegri grein og sakar hann um tvöfeldni og hafa skipt oftar en einu sinni um skoðun. Hann er greinilega orðinn örvæntingafullur vegna slæms gengi eigin flokks. Þá er um að gera að níða skóinn af andstæðingnum. Hann tiltekur fimm dæmi.

Til dæmis í hælisleitandamálum og útlendingalögunum frá 2017. Þá varð Sigmundur hreinlega undir í þessu máli en Sjálfstæðisflokkurinn var jafnsekur öllum þing heiminum sem gerði mikil mistök með að innleiða frjálslyndustu innflytjenda löggjöf í Evrópu og opna þannig flóðgáttir ólöglegra innflytjenda.

Svo má minna Björn bónda á að Miðflokkurinn var stofnaður 2017, eftir að mistökin í löggjöf um útlendinga voru gerð (tóku gildi 1. janúar 2017). Þannig að hann getur ekki sakað Miðflokkinn um stefnuleysi í hælisleitenda málum, þegar flokkurinn var ekki einu sinni til þá! Sigmundur Davíð stofnaði Miðflokkinn en hann er ekki Miðflokkurinn.  Flokkurinn er fjöldahreyfing borgarasinnaða Íslendinga. Flokkurinn sem slíkur, hvort sem hann er tveggja manna eða níu manna, hefur verið rökfastur og stefnufastur í sínum málum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar verið ístöðulaus um áratuga skeið.  Ekki flokksmenn, heldur flokksforustan.

Nenni ekki að svara hinum fjórum atriðum sem Björn tiltók enda greinilega skrifað til að kasta rýrð á formanninn. Og það má skipta um skoðun, sérstaklega ef menn komast að því að þeir hafi rangt fyrir sér og leiðrétti mistökin. Verri eru þeir sem gera mistök, vita af því en gera ekkert í málinu!


Milton Friedman um velferðakerfið

Skilgreining: Velferðarríki er ríki sem hefur skuldbundið sig til að veita þegnum sínum grundvallar efnahagslegt öryggi með því að vernda þá fyrir markaðsáhættu sem tengist elli, atvinnuleysi, slysum og veikindum.

Lítum á túlkun Friedman: Velferðarríkið er tilraun til að "gera eitthvað gott" með peninga einhvers annars. Markmiðið getur verið verðugt en aðferðirnar eru gallaðar.

Vandamálið er að þú eyðir ekki peningum einhvers annars eins vandlega og þinn eigin.

Meira að segja, það er ómögulegt að "gera gott" með peninga einhvers annars án þess að taka þá fyrst frá einhverjum öðrum. Það felur í sér þvingun — notkun slæmra aðferða til að spilla góðu markmiðum velferðarkerfisins.

Velferðaráætlanir hvetja óbeint til samkeppni um ríkisfé og skapa óheppilega sundrungu og andstæður í samfélagi okkar sem rýra einstaklingsfrelsi. Við verðum að finna aðrar leiðir - til dæmis frjálsa samvinnu og einkaframlag - til að ná markmiði okkar.

Velferðakerfið tekur hvatann af fólki til að bjarga sér. Það festist í kerfinu áratugum saman, ef enginn rammi eða takmörk eru fyrir hendi.

Sjá má þetta í ásókn hælisleitenda til velferðaríkja Evrópu. Af hverju að basla í fátækt heima fyrir ef hægt er að komast á velferðaspenann í einhverju Evrópuríki? Eins ef borgarinn hefur svo litlar tekjur, að bæturnar eru hærri, af hverju þá að vinna yfir höfuð einhverja "skíta vinnu"?

Var Friedman þar með á móti velferðakerfinu? Nei. Hann hefur talað fyrir lágmarks velferðarsamfélagi, þar sem "neikvæður tekjuskattur" yrði notaður til að sjá fyrir fólki án annarra framfærslutekna.

 

 

 


Íslenskt undirbúingsleysi vekur undrun erlendis

Björn Björnsson má eiga það að vekja athygli á andvaraleysi íslenskra stjórnvalda í varnarmálum.

Í síðustu grein sinni segir hann:"Blaðamaðurinn segir að í augum Norðmanns sé ekki aðeins skrýtið að á eyju á miðju Norður-Atlantshafi geri menn sér litla grein fyrir hættunni af stigmögnun stríðs heldur einnig fyrir almennu gildi viðbúnaðar."

Það eru aðeins örfáir menn sem vekja athygli á að "keisarinn er í engum fötum". Bloggritari er á meðal þeirra, Baldur Þórhallson í skrifum sínum sem fræðimaður, sem reyndar afneitaði barninu er hann var í forseta framboði en mun væntanlega taka upp þráðinn síðar, Arnór Sigurjónsson er hann var kominn í öryggi eftirlauna með bók sinni Íslenskur her og Björn Bjarnason sem dómsmálaráðherra.

Allir hafa bent á að hér sé enginn íslenskur her en það virðist það vera algjört tabú eða klikkun að minnast á það sé ekki eðlilegt og að landið liggur berskjaldað á miðju Atlantshafi sem er alveg örugg að verður barist um vegna hernaðarlega mikilvæga staðsetningu þess.

Arnór og Björn hafa fundið aðeins til tevatnsins vegna þess en Baldur alveg sloppið sem og bloggritari (ég er of óþekktur til að það sé tekið mark á mér en samt hef ég skrifað tímamóta greinar í Morgunblaðið um varnarmál).

Það sem við eigum allir sameiginlegt er að við sjáum allir að Ísland er ekki lengur stikkfrítt í næstu stór styrjöld. Við verðum í miðjum átökunum en samt láta íslensk stjórnvöld eins og ekkert sé og fela sig á bakvið pilsfald stóru mömmu í vestrinu. En það er ekkert víst að mamma geti sinnt hirðulausa krakkanum í norðri og vill vera eins og Pétur pan, aldrei að vaxa úr grasi sem sjálfstætt ríki.

Öll Evrópa, já bókstaflega öll, er að undirbúa sig undir erfiða tíma, Kaninn er að efla herafla sinn í Evrópu en litla Ísland gerir ekkert. Jú, það eru skrifaðar skýrslur fyrir Þjóðaröryggisráð Ísland, sem er skipað að mestu fólki sem hefur enga þekkingu á málaflokknum.

Kemur þróunin í Evrópu okkur virkilega ekkert við? Er að minnsta kosti ekki lágmark að tryggja matvælaöryggi landsins? Hvetja borgaranna til að eiga matvæli til þriggja daga eins og dönsk stjórnvöld hafa hvatt til og almenningur hefur tekið alvarlega?

 


Peningar sem ekki eru til eyddir í gæluverkefni

Vegakerfi Íslands hefur batnað í gegnum tíðina en enn er langt í land með að það sé í viðunandi ástandi. Það skortir fjármagn þrátt fyrir að skattar af bílum séu háir. Svo háir eru þeir að ríkið tekur helminginn og meira til sín en látið er í vegakerfið. Bíla skattar eru mjólkurkýr ríkiskassann sem er alltaf tómur. Skattarnir fara í alls kyns gælu verkefni eins og nýja Mannréttindastofnun Íslands sem við höfum ekki efni á né ríkisóperu, svo dæmi séu tekin.

Enn er rifist um Ölfusárbrú sem á að kosta 8 milljarða en mun kosta á endum mun meira. Jón Gunnarsson benti réttilega á að hægt væri að byggja látlausa brú fyrir 3 milljarða. En er hlustað á hann?  Nú er verið að tala um jarðgöng undir Miklubraut til að létta undir umferð á höfuðborgarsvæðinu. Ekki vitlaus hugmynd ef umferð verður leyfð áfram á yfirborðinu og ekki byggð hús í staðinn. Nei, umferðin á að fara neðanjarðar til að skapa meira byggingaland og gjaldþrota borgin fær aura í tóman borgarsjóð.

Fáum við fleiri akreinar úr þessu? Nei! Í frétt RÚV segir: "Útfærslan sem EFLA mælir með eru 2,8 kílómetra löng jarðgöng, raunar tvö samsíða göng með tveimur akreinum, sitt í hvora áttina, undir Miklubraut frá Skeifunni að Snorrabraut til móts við Landspítala." Með öðrum orðum, sama umferðateppan og áður verður til staðar.

Fossvogsbrúin á að kosta 7+ milljarða og vera aðeins fyrir strætó sem gengur á 15 mínútna fresti. Einnig fyrir gangandi og hjólandi umferð. Brúin er snilldarhugmynd ef hún væri líka fyrir bílaumferð. Af hverju á hún kosta svona mikið? Einföld hönnun ekki í boði?

Eru Íslendingar bjánar í vegamálum (og fjármálum?). Þurfum við ekki að fara að ráða Færeyinga til að sjá um vegakerfi Íslands? 

 

Enn verið að semja um Ölfusárbrú


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Sept. 2025

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband