Færsluflokkur: Bloggar

Asninn og tígrisdýrið...og Vinstri grænir

Dæmisaga: EKKI ÞRÆTA VIÐ "ASNA"

Asninn sagði við tígrisdýrið:

- "Grasið er blátt".

Tígrisdýrið svaraði:

- "Nei, grasið er grænt."

Umræðan hitnaði og þeir ákváðu að leggja málið fyrir gerðardóm og fóru fyrir ljóninu, konungi frumskógarins.

Þegar komið var að skógarrjóðrinu, þar sem ljónið sat í hásæti sínu, byrjaði asninn að hrópa:

- "Hátign, er það satt að grasið sé blátt?"

Ljónið svaraði:

- "Satt, grasið er blátt."

Asninn flýtti sér og hélt áfram:

- "Tígrisdýrið er mér ósammála og stangast á og ónáðar mig, vinsamlegast refsið honum."

Konungur sagði þá:

- "Tígrisdýrinu verður refsað með 5 ára þögn."

Asninn hoppaði glaðlega og hélt leiðar sinnar, sáttur og endurtók:

- "Grasið er blátt"...

Tígrisdýrið sætti sig við refsingu sína, en síðan spurði hann ljónið:

- "Yðar hátign, hvers vegna hefur þú refsað mér?, enda veist þú sjálfur að grasið er grænt."

Ljónið svaraði:

- "Raunar er grasið grænt."

Tígrisdýrið spurði:


- "Svo hvers vegna ertu að refsa mér?".

Ljónið svaraði:

- „Það hefur ekkert með spurninguna að gera hvort grasið sé blátt eða grænt.

Refsingin er vegna þess að það er ekki mögulegt fyrir hugrakka og gáfulega veru eins og þig að eyða tíma í að rífast við asna og koma þar ofan á og trufla mig með þessari spurningu."

Versta tímasóunin er að rífast við heimskingjann og ofstækismanninn sem er sama um sannleikann eða raunveruleikann, heldur aðeins sigur trúar hans og sjónhverfinga. Aldrei eyða tíma í rök sem eru ekki skynsamleg...

Það er til fólk sem, sama hversu mikið af sönnunargögnum og sönnunargögnum við leggjum fyrir það, hefur ekki getu til að skilja.


Þegar fáfræðin öskrar þegir greindin. Kyrrð þín og ró er meira virði."

Glórulausir vinstri menn, vilja tug milljarða flugvöll ofan í mitt eldgosasvæði í Hvassahrauni; þeir vilja strætóbrú yfir Fossvoginn fyrir strætisvagn sem gengur á 15 mínútna fresti fyrir 8 milljarða; þeir vildu og fengu bragga sem kostar innan við 10 milljónir fyrir hálfan milljarð; þeir vilja borgarlínu sem kostar 140 milljarða (eða miklu meira) og þeir vilja skrautbrú yfir Ölfusá sem á að kosta 14 milljarða. Ekki hægt að spara og fara ódýrari leið?

Er hægt að rökræða við asna? Skynsamt og greint fólk verður bara að kjósa kjánana í burtu. Það er eina leiðin.


Lélegasti utanríkisráðherra í sögu íslenska lýðveldisins

Það er ekki hægt annað en að taka undir orð Frosta Sigurjónsonar um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem virðist vera að búa til einka utanríkisstefnu, þvert í hefðir og venjur sem hafa myndast í íslenskri utanríkisstefnu síðan utanríkisþjónustan var formlega stofnuð 1940.

Rauði þráðurinn síðan þá, hefur verið að skipta okkur ekki með beinum hætti af valdabrölti stórveldana og allra síst ef þau fara í stríð.  Við höfum skipað okkur í raðir vestrænna ríkja og sótt herskjól til þeirra en þagað eða miðlað ef vopnin eru dregin fram.

Það er eins og utanríkisráðherra geti ekki sagt nei, eða beðið um undanþágur varðandi álögur á eldsneyti flugvéla sem hér lenda, né sagt nei við flutningagjalda (mengunarskatta) sem lagt er á innflutning vara með skipum. Hún þorir ekki að segja nei við bókun 35, þótt hún beinlínis fari í bága við stjórnarskránna. Og hún eltir galna Biden stjórnina í stríðsbrölti hennar sem nær ekki nokkri átt. Engum dettur í hug að nota diplómatanna, hvorki Bandaríkjamenn né Íslendingar eða aðrir vestrænir leiðtogar.

Syndalistinn er langur en kannski er mesta afhroðið bein þátttaka í Úkraínu stríðinu með vopnasendingum og slit stjórnmálasambands við Rússland.  Nokkuð sem engum utanríkisráðherra datt í hug á dögum kalda stríðsins sem á köflum var ansi heitt. Engin sjálfstæð utanríkisstefna er í gangi, það er íslensk utanríkisstefna. Hópurinn er bara eltur.

James Bond Sjálfstæðisflokksins með svísu hópinn í kringum sig er að draga aldargamlan hægri flokk niður í svaðið, hægt og rólega. Skyldi flokkurinn ná að verða hundrað ára 2029? Eða skellir formaðurinn í lás í Valhöll eftir næstu kosningar? Geri ráð fyrir að hann láti sig hverfa áður en að skuldadögum kemur....

Fer hörðum orðum um Þórdísi – „Einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft“


Vinstri grænir áfram um að setja flugvöll í Hvassahrauni

Sumir eru svo fastir í hugmyndafræði og eigin ákvörðunartöku að það er alveg sama hveru margar staðreyndir eru kynntar fyrir þeim, þá ætla viðkomandi ekki að taka "sönsum" og vera raunsærir.

Svo á við um hugmyndafræði sósíalista, sem marg búið er að sanna er ranghugmyndafræði.  Ekki sniðugt að hafa öll eggin í sömu öskjunni

Hver sem ber ábyrgð á smíði nýrrar Ölfusárbrú er greinilega líka út á túni en Jón Gunnarsson Alþingismaður hefur bent á að með því að skipta brúarhafinu í tvennt og byggja veg á milli á eyjunni í miðri á, væri hægt að byggja brú sem kostar kannski á milli 2-3 milljarða í stað 10-15 milljarða skrautbrú sem er hengibrú.  Nóta bene, hún skagar svo hátt að hún er beinlínis lýti á flatt landslag þarna undir Ingólfsfjalli.

Er hægt að kjósa svona fólk til valda? Og bera ábyrgð á öllu þjóðfélaginu? Myndum við velja slíkt fólk í stjórnunarstörf hjá fyrirtækjum?


Vín innflutningur Norðmanna, Englendinga og Hansakaupmanna til Íslands

Hansakaupmenn fluttu ýmsar vörur til Íslands á 15. öld, en vín virðist hafa verið tiltölulega sjaldgæf vara í viðskiptum þeirra við Íslendinga. Hansakaupmenn, sem voru hluti af áhrifamiklu viðskiptabandalagi þýskra borga við Norðursjó og Eystrasalt, stunduðu mikið viðskipti með fisk, einkum harðfisk, ull, skinn og önnur hráefni. Hins vegar voru lúxusvörur eins og vín sjaldgæfari í þessum viðskiptum.

Þó að vín hafi verið vinsæl vara á meginlandi Evrópu, þá var Ísland fátækara og einangraðra en önnur lönd, með takmarkaða kaupmennsku fyrir lúxusvörur. Vín hefur hugsanlega verið flutt til landsins í litlum mæli, kannski fyrir kirkjuna eða fyrir yfirstéttina. Flutningur hansakaupmanna til Íslands var aðallega tengdur sjávarafurðum, en það er mögulegt að lítilsháttar magn af víni hafi fylgt með í verslunum, þó að það hafi ekki verið algengt.

Ein óbein sönnun fyrir vín innflutning er að fundist hefur gler vínglass, ægifagur sem er greinilega undir vín, hjá Snorra Sturluson. Hvort það hafi komið óbeint frá Björgvin og í gegnum viðskiptanet Hansakaupmanna er annað mál að sanna. En Norðmenn fluttu inn vín til Íslands.

Norðmenn fluttu vín til Íslands á tímabilinu 1262 til 1500, þó að magn þess hafi líklega verið lítið og takmarkað. Vín var fyrst og fremst lúxusvara og því að mestu flutt inn fyrir sérstaka hópa, þar á meðal kirkjuna. Eins og annars staðar í Evrópu var vín nauðsynlegt fyrir trúarathafnir, sérstaklega altarissakramentið. Kirkjan á Íslandi hafði því þörf fyrir innflutning á víni til að halda uppi kristnum siðum og messum. Kirkjunnar menn voru því helstu neytendur víns á þessum tíma.

Íslenskir höfðingjar og yfirstéttin höfðu einnig aðgang að víni, en það var sjaldgæf vara og oft notuð við sérstök tækifæri, veislur og hátíðarhöld. Vín var tákn um vald og auð og var því neytt í minni mæli af valdastéttinni.

Þó að Norðmenn hafi flutt inn vínið, var eftirspurnin á Íslandi takmörkuð af jarðfræðilegum og efnahagslegum skilyrðum. Ísland var að mestu einangrað og fátækt samfélag, þannig að mikil eftirspurn eftir lúxusvörum eins og víni var takmörkuð við litla hópa.

Englendingar hafa líka flutt inn vín er þeir hófu siglingar til Íslands 1412. En hvað var flutt inn, og hverjir fengu vín?

Enskir kaupmenn fluttu meðal annars vín til Íslands, líkt og Norðmenn og Hansakaupmenn. Vín var áfram sjaldgæf og dýr vara, fyrst og fremst ætluð yfirstéttinni og kirkjunni, líkt og áður. Enskir kaupmenn þjónuðu þannig þörfum valdastéttarinnar, sem taldi kirkjunnar menn og höfðingja, sem enn voru aðal notendur vínsins.

Aðalatriðið í viðskiptum Englendinga við Ísland var þó ekki vín heldur fiskur, einkum harðfiskur (stockfish). Englendingar höfðu mikinn áhuga á íslenskum fiskafurðum sem voru mikilvæg hrávara í evrópskum viðskiptum á þessum tíma.

Heimildir: Helstu heimildir fyrir vínsögu á þessum tíma koma frá rannsóknum á verslunarsögu Norðurlanda og kirkju Íslands á miðöldum. Til dæmis hefur sagnfræðingurinn Guðmundur J. Guðmundsson fjallað um viðskipti kirkjunnar á þessum tíma. Enn einnig aðrir íslenskir sagnfræðingar sem hafa fjallað um íslenska miðaldasögu.


Kosninga baráttan er hafin

Sjá má hjá öllum flokkum að allir eru að undirbúa sig undir kosningar. Ekki síst má sjá þetta hjá stjórnarflokkunum. Sigurður Ingi er t.d. byrjaður að tala um gamalt mál, hvalveiðibann málið og segir að hann hafi alla tíð verið á móti ákvörðun Svandísar. Hann er kominn í kosningagír.

"Ekki er hægt að takast á við viðfangsefni sem blasa við í íslensku samfélagi innan núverandi ríkisstjórnar, segir Halla Gunnarsdóttir félagi í VG. Augljóst sé að ríkisstjórnarsamstarfið sé búið og nú þurfi að grípa til aðgerða," segir í frétt RÚV.

Það er því mjög líklegt að það verði VG sem sprengi upp ríkisstjórnarsamstarfið, og það fyrr en seinna. Þeir telja sig hafa allt að tapa, sem er rétt, en  mikið að vinna, sem er rangt.  Flokkurinn er rúin trausti og fylgið er farið yfir til Samfylkingarinnar. 3,5% fylgi í kosningum er rausnarleg niðurstaða og þótt VG sprengi upp stjórnina, fer flokkurinn á ruslahauga stjórnmálanna.

Sjálfstæðisflokkurinn siglir andvaralaus áfram með handónýtan skipstjóra og engir stýrismanna líklegir til að auka fylgið. Áttleysan er algjör og í stað þess að stefna til hægri (sem engir trúir að þeir fylgi þeirri stefnu að loknum kosningum) er bara siglt stefnulaust.

Nýr flokkur er í fæðingu og spurning hvort að hægri fylgið aukis eða það dreifist. 

 

 

 


Hver er ósvífinn? Stjórnmálamaðurinn eða spyrillinn?

Erlendis eru til þættir þar sem mál eru kryfin og viðmælendur látnir svara hreinskilningslega hvað þeir eru að gera. Má þar nefna "Hard talk" hjá BBC o.s.frv. Yfirleitt eru þetta stjórnmálamenn en í þessum þáttum eru þeir látnir svara án útúrsnúninga um álitamál. 

Við Íslendingar erum komnir með slíkan þátt, sem heitir Spursmál, og er frábær þáttur.  Spursmál er hárbeittur umræðuþáttur í stjórn Stefáns Einars Stefánssonar. Þar er rætt við stjórnmálamenn og fólk í íslensku atvinnulífi.

Fólk kýs stjórnmálamenn til ábyrgðastarfa og eiga þeir að heita fulltrúar fólksins og þar með að standa fyrir máli sínu. En nú bregðst svo við að Sig­urður Ingi var ekki fylli­lega sátt­ur við það hvernig þátt­ar­stjórn­andi stillti mál­um upp í tengsl­um við for­gangs­röðun rík­is­fjár­mála. Hann sakar þáttastjórnanda um ósvífni. Spurningin var þessi:

"Talandi um rík­is­fjár­mál­in og kostnaðinn og aðhaldið. Þið hafið verið í rík­is­stjórn­inni, sér­stak­lega á vorþing­inu allskyns verk­efni sem þið hafið viljað keyra í gegn sem eru kostnaðar­auki fyr­ir ríkið. Mér hef­ur orðið tíðrætt um tvö­föld­un lista­manna­launa, þið viljið keyra í gegn þjóðaróperu sem á að kosta hundruð millj­óna, þið ætlið að fara í þjóðar­höll og allskyns verk­efni af þessu tagi. Á sama tíma horf­um við upp á það að lög­regl­an get­ur ekki varið fyr­ir­tæk­in í land­inu fyr­ir inn­brot­um, menn hafa enga stjórn á þess­um glæpa­hóp­um sem eru hér í land­inu. Hvers kon­ar for­gangs­röðun er þetta hjá stjórn­völd­um, er ykk­ur til dæm­is sama um þessa fyr­ir­tækja­eig­end­ur, versl­un­ar­eig­end­ur, í Síðumúla og Ármúla sem standa ráðþrota og lög­regl­an mæt­ir ekki einu sinni á staðinn þó að brot­ist sé inn og verðmæt­um stolið fyr­ir millj­ón­ir á millj­ón­ir ofan."

Þetta algjörlega eðlileg spurning og sem ráðherra ber honum að upplýsa almenning um hvert peningar þeirra, skattfé, fer í. Svarið er hrokafullt og neikvætt af hálfu ráðherra sem móðgast. Og spurning er algjörlega réttmæt, af hverju í ósköpunum er skattfé okkar að fara í alls kyns gæluverkefni þegar frumskyldu verkefni ríkisins eru ekki sinnt? Það er nefnilega þannig í lífinu að allir, hvort sem það eru fyrirtæki, heimili, sveitarfélög eða ríkið, þurfa að forgangsraða verkefni sín. Held að formaður Framsóknar þurfi að fá sér nýtt starf og flokkurinn kærkomið frí frá stjórnarstörfum, ef það er svona erfitt að svara einföldum spurningum.

Spursmál


Guðbrandsbiblían er mikil verðmæti

Gutenberg Biblían

Fyrsta prentaða Biblían í Evrópu, og raunar heiminum, var Gutenberg Biblían, einnig þekkt sem 42 lína Biblían. Hún var prentuð af Johannes Gutenberg í Mainz, Þýskalandi, um 1454-1455. Þetta var fyrsta stóra bókin sem prentuð var með hreyfanlegri leturtækni, sem Gutenberg hafði þróað, gjörbylti framleiðsluferli bóka og markaði upphaf Gutenberg-byltingarinnar og tímabil prentuðu bókarinnar í Evrópu. Upphafið að nýrri upplýsingaöld rétt eins og tölvan er upphafið að nýrri upplýsingaöld.

Gutenberg-biblían er gerð eftir latneskri Vulgata þýðing, eftir texta heilags Híerónýmus, og var prentuð í tveimur bindum. Aðeins um 180 eintök voru framleidd í upphafi, en um 49 heil eða næstum fullbúin eintök voru eftir í dag, sem gerir hana að einni sjaldgæfustu og verðmætustu bók í heimi.

Nýsköpun Gutenbergs lækkaði verulega kostnað við að framleiða bækur og gerði ritað efni aðgengilegra, þó að snemma prentuð verk eins og Gutenberg Biblían hafi enn verið dýr miðað við nútíma mælikvarða.

Hið afskekkta Ísland, aftur á í öllu tilliti, var þó ekki eftirbáti á sviði menningar eða útbreiðslu hiðs ritaða orðs. Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Hólum, er talinn vera forvígismaður prentlistar á Íslandi. Hann flutti fyrstu prentsmiðjuna til landsins um 1530. Þetta var mikilvægur áfangi í sögu Íslands, þar sem prentlistin átti eftir að hafa djúp áhrif á íslenskt samfélag, trúarlíf og menningu.

Jón keypti prentsmiðju á ferðalögum sínum í Danmörku eða Þýskalandi og kom henni fyrir á Hólum í Hjaltadal, sem var menntamiðstöð Norðurlands á þeim tíma. Hann átti sér þann draum að útbreiða kaþólskan kristindóm á Íslandi og efla stöðu kirkjunnar með prentuðum ritum.

Og hvað var fyrst prentað og er talið fyrsta prentaða ritið? Jú það er Brevarium Holense (Hólabók) er talið vera fyrsta prentaða ritið á Íslandi. Það var prentað árið 1534 í prentsmiðju Jóns Arasonar. Bókin var latnesk messubók, notuð við kaþólska helgisiði. Hún var einkum ætluð til nota í kaþólskum kirkjum á Íslandi.

Jón Arason varð þó fyrir barðinu á siðaskiptum á Íslandi, þegar lútherska trúin tók við af kaþólsku. Eftir að Jón og synir hans voru teknir af lífi árið 1550 í Skálholti, kom prentsmiðjan undir stjórn lútherskra kirkjunnar manna. Þrátt fyrir að prentunin hafi byrjað á Íslandi undir kaþólskri stjórn, var það með komu lúthersku kirkjunnar sem prentlistin tók að blómstra með útgáfu trúarlegra rita og síðar annarra verka.

Áhrif Jóns Arasonar gættu lengi og gera í raun enn

Þó að Jón Arason hafi verið kaþólskur biskup sem barðist gegn siðaskiptunum, lagði hann grunninn að prentlist á Íslandi, sem síðar stuðlaði að varðveislu íslenskrar tungu og bókmennta í gegnum aldirnar. Meðal merkustu verka íslenskrar prentsögu eru Guðbrandsbiblía og sálmabækur, sem komu á 16. öld.

Guðbrandur Þorláksson biskup og prentsmiðjan á Hólum í Hjaltadal

Guðbrandsbiblían, sem kom út árið 1584, var prentuð í prentsmiðjunni á Hólum í Hjaltadal. Guðbrandur Þorláksson, sem var biskup á Hólum frá 1571 til 1627, hafði yfirumsjón með prentuninni og var helsti forvígismaður þessarar miklu útgáfu. Guðbrandur styrkti og þróaði prentsmiðjuna á Hólum eftir að hún hafði verið stofnuð af Jóni Arasyni nokkrum áratugum áður.

Guðbrandur gerði ýmsar breytingar á prentsmiðjunni og bjó hana betur undir útgáfu stórra verka, svo sem Biblíunnar, sem var fyrsta heildarútgáfan á íslensku. Þessi prentsmiðja á Hólum var mikilvæg menningarmiðstöð á Íslandi og gegndi stóru hlutverki í útgáfu margra trúarlegra og bókmenntalegra verka á Íslandi á 16. og 17. öld.

Guðbrands Biblían

Guðbrandsbiblía, fyrsta heildarþýðing Biblíunnar á íslensku, gefin út árið 1584 af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi eins og áður sagði, var merkt menningar- og trúarverk. Þegar hún kom út var hún afar dýr vegna stærðar sinnar, prentunarferlis og fágætis prentaðs efnis á Íslandi.

Talið er að verðið á Guðbrandsbiblíu hafi verið um 2-3 kýr, sem var óvenju hátt verð fyrir flesta á Íslandi á þeim tíma. Til að setja þetta í samhengi hefði hinn almenni Íslendingur, sérstaklega bændur, átt erfitt með að hafa efni á slíkri bók, þar sem kýr voru mikils virði í landbúnaðarsamfélaginu. Þetta þýðir að aðeins kirkjur, klaustur og auðugir einstaklingar hefðu yfirleitt efni á eintaki af Biblíunni. Samkvæmt blaðagrein sem bloggritari finnur ekki ekki aftur, fór eitt eintak af henni á kr. 2,2 milljónir fyrir mörgum árum. Hvað ætli hún kosti í dag?

Guðbrandsbiblía frá 1584


Móðuharðindin og stofnun íslensks hers í miðjum harðindum

Hugmyndin um að stofna íslenskan her á tímum Móðuharðindanna er tengd dönskum ráðamönnum, en einnig nokkrum íslenskum embættismönnum. Áætlanirnar áttu sér stað undir lok 18. aldar þegar Danir voru að styrkja stjórn sína á Íslandi. Þó að þetta væri áætlun frá dönskum stjórnvöldum, voru einnig íslenskir embættismenn sem tóku þátt í umræðunni. Enginn her varð þó til í raun og veru vegna erfiðleikanna sem fylgdu hamförunum og vekur athygli vegna veruleikafirringar sem þessi hugmynd er í miðjum náttúruhamförum. En kannski voru menn að hugsa fram í tímann?

Helstu aðilar tengdir herstofnunaráformum

Ove Høegh-Guldberg (1731–1808). Guldberg var áhrifamikill danskur embættismaður sem hafði umsjón með utanríkis- og nýlendustjórn Dana á þessum tíma. Hann var forsprakki fyrir þeirri hugmynd að her væri nauðsynlegur til að halda uppi stjórn Dana yfir Íslandi og vernda danska hagsmuni á svæðinu.

Jón Eiríksson (1728–1787). Jón Eiríksson var íslenskur embættismaður og þjóðfræðingur sem starfaði í Kaupmannahöfn og hafði mikil áhrif á íslensk málefni innan danska stjórnkerfisins. Hann var mikilvægur tengiliður Dana við Ísland á þessum tíma og var einn af þeim sem ræddu um herstofnunina, þó að hann hafi líklega haft efasemdir um hagkvæmni slíkrar stofnunar í miðju hörmungunum.

Magnús Stephensen (1762–1833). Magnús Stephensen, sem síðar varð dómari og landfógeti, var líka þátttakandi í stjórnmálaumræðum Íslands og Dana á þessum tíma. Þó hann væri yngri á þessum tíma, varð hann áberandi í íslenskum stjórnmálum og hefði eflaust tekið þátt í framkvæmdum ef herstofnun hefði átt sér stað.

Hannibal Knudsen (1752–1795). Hannibal var danskur embættismaður sem hafði verið sendur til Íslands til að rannsaka ástandið á árunum eftir Móðuharðindin. Hann skrifaði skýrslu þar sem hann benti á mikilvægi þess að styrkja stjórn Dana yfir Íslandi, þar á meðal með herstyrk.

Georg Christian Oeder (1728–1791). Oeder var danskur náttúrufræðingur og embættismaður sem hafði áhuga á nýlendum og landsstjórnun. Hann var einnig talsmaður þess að halda Ísland í föstum skorðum með skipulagðri stjórn, og hugmyndin um her gæti hafa komið upp í slíkum umræðum.

Stefán Þórarinsson (1734–1798) var íslenskur amtmaður og embættismaður sem gegndi lykilhlutverki í stjórnsýslu Íslands undir dönskum yfirvöldum. Hann var amtmaður í Suður- og Vesturamtinu, og tók virkan þátt í stjórnmálaumræðu á tímum Móðuharðindanna. Stefán var einnig hvatamaður hugmynda um stofnun íslensks landhers á Alþingi 1785. Hann, ásamt öðrum íslenskum og dönskum embættismönnum eins og Hans von Levetzow stiftamtmanni, tók þátt í umræðum um hvernig her gæti styrkt stjórn Dana og tryggt öryggi á landinu eftir hörmungarnar.

Stefán var þátttakandi í því að skipuleggja ráðstefnuna sem var haldin í tengslum við Alþingi þetta ár, þar sem íhugað var hvort herstofnun væri æskileg eða raunhæf lausn á vandamálum Íslands. Hugmyndin var að stofna herstyrk sem gæti haft eftirlit með löndum landsins og tryggt að uppreisnir eða óánægja yrðu ekki vandamál. Þrátt fyrir að umræður hafi átt sér stað, varð ekkert úr þeim áætlunum, meðal annars vegna alvarlegs ástands samfélagsins eftir náttúruhamfarirnar.

Stefán Þórarinsson lék því mikilvægt hlutverk í þessum ráðagerðum en af hverju þær urðu aldrei að veruleika má rekja til þess að Ísland var illa undirbúið efnahagslega og félagslega til að stofna her.

Og svo er það aðalmaðurinn Hans von Levetzow (1739–1806) sem komið verður hér inn á hér að neðan.

Af hverju herstofnun?

Ástæðurnar fyrir áformum um íslenskan her voru tengdar stjórnmála- og stjórnunarlegum áhyggjum Dana:

  • Möguleg uppreisn: Íslenskir embættismenn óttuðust ólgu meðal almennings vegna hungursneyðar og misskiptingar.
  • Trygging á stjórn Dana: Með stofnun hers hefðu Danir tryggt stjórn sína yfir Íslandi og hindrað að erlendar þjóðir reyndu að ná yfirráðum.

Látið til skara skríða 1785

Á Alþingi sumarið 1785 var staðan eftir Móðuharðindin mikið rædd. Alþingismenn fjölluðu um þær hörmungar sem gengið höfðu yfir landið, sérstaklega Skaftárelda og afleiðingar þeirra. Rætt var um hvernig Danir gætu aðstoðað, meðal annars með efnahagsaðgerðum og aðgerðum til að endurreisa landið. Umræðan um stofnun íslensks landhers kom einnig fram, þar sem helstu ráðamenn, þar á meðal Hans von Levetzow og Stefán Þórarinsson, lögðu fram tillögur um slíkt, þó að hugmyndin hafi ekki náð fram að ganga.

Alvarlegar hugmyndir um stofnun íslensks landhers voru settar fram eins og áður sagði, að frumkvæði danskra stjórnvalda. Hans von Levetzow stiftamtmaður, Stefán amtmaður Þórarinsson og Björn Markússon lögmaður voru hvatamenn þessara áforma. Lagt var til að stofna 300 manna her, launaður með hærri sköttum. Þrátt fyrir könnun árið 1788 þar sem 600 manns gáfu sig fram, voru þessar áætlanir óframkvæmanlegar vegna ástandsins eftir Móðuharðindin. Hugmyndin varð aldrei að veruleika.

Hans von Levetzow (1739–1806) var þýskur ættaður danskur embættismaður sem gegndi lykilhlutverki í stjórn Dana á Íslandi. Hann var stiftamtmaður Íslands frá 1770 til 1793, á þeim tíma sem landið gekk í gegnum miklar hörmungar, þar á meðal Móðuharðindin (1783–1785). Levetzow beitti sér fyrir breytingum í stjórnsýslu og stjórnaði meðal annars ráðstefnu árið 1785 þar sem hugmyndir um stofnun íslensks landhers voru ræddar. Hann gegndi einnig ýmsum embættum innan danska ríkisins og hafði mikil áhrif á stjórnarskipan Íslands á þessum tíma.

Af hverju varð ekkert úr áformunum?

Áformin voru í raun mjög óraunhæf, þar sem ástandið á Íslandi var hræðilegt vegna Móðuharðindanna. Hungursneyðin hafði dregið stóran hluta þjóðarinnar til dauða, og efnahagslífið var í rúst. Þó að hugmyndin hafi verið rædd í Kaupmannahöfn, var hún aldrei framkvæmd vegna þess að stjórnvöld sáu að það var óframkvæmanlegt að stofna her í miðri neyð.

Herstofnunin er því dæmi um hugmynd sem varð aldrei að veruleika, en hún sýnir samt þann óróleika sem ríkti bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn á þessum tíma.

 


Harðindatímabilið 1752-1759

Flestir Íslendingar þekkja til tímabilsins 1783-1785 er móðuharðindin gengu yfir. Það þarf ekki að fara í þá sögu hér en færri vita að á  tímabilinu 1752-1759, sem einkenndist af hallæri, hungri og harðindum á Íslandi, létust umtalsverður hluti þjóðarinnar. Talið er að á milli 5-10% þjóðarinnar hafi látið lífið vegna hungursneyðar, sjúkdóma og áfalla tengdum erfiðleikunum. Þetta var afleiðing af samspili lélegrar heyöflunar, slæms veðurs, matarskorts og veikinda, ásamt áhrifum af náttúruhamförum eins og eldgosinu í Kötlu árið 1755.

Þó nákvæmar tölur séu erfitt að staðfesta fyrir þetta tímabil eru talið að þúsundir hafi látist. Aðstæður voru sérlega erfiðar fyrir þá sem höfðu ekki nægilega matvæli eða aðgang að mat, sérstaklega þar sem íslensk efnahagslíf var þá að stórum hluta háð heyskap og fiskveiðum, sem bæði brugðust á þessum árum.

Náttúran lagðist á sveif með allt annað. Náttúruhamfarir voru miklar. Þar ber helst að nefna eldgos í Kötlu.  Árið 1755 gaus Katla, sem olli miklum skaða, sérstaklega í suðurhluta landsins. Gosið olli jökulhlaupum sem eyðilögðu stór svæði af ræktarlandi, sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir búskap og matvælaframleiðslu.

Hörð veðurskilyrði fylgdu eldgosinu. Óvenjulega harðir vetrar og léleg sumar gerðu það að verkum að heyskapur brast og fiskveiðar voru lélegar, sem jók enn á hungur og fátækt.

Manngert hallæri í formi ófrjálsrar verslunar birtist í einokunarverslun Dana. Ísland var undir danskri stjórn eins og allir vita og verslun var stjórnað með einokunarverslun frá 1602 til 1787. Á þessum tíma höfðu íslenskir bændur og sjómenn takmarkaða möguleika til að versla við aðra en danska kaupmenn, sem takmarkaði aðgang að nauðsynjavörum. Danskir kaupmenn stjórnuðu framboði á nauðsynjavörum eins og korni, sem var oft ekki nægjanlegt til að mæta þörfum landsmanna á tímum hallæris.


Nútíminn um konur sem víkingar eða stríðsmenn

Á Netflix er verið að sýna þáttaröð sem á að kallast saga víkinga - The Vikings. Þar er goðsemdarkennda persóna Ragnar loðbrók höfð sem aðalpersóna.  Þetta er ágæt skemmtiefni en er langt frá raunveruleikanum.

Þar er t.d. haldið fram að konur hafi verið víkingar, þ.e.a.s verið stríðskappar. Þetta er eins fjarri veruleikanum og hægt er að hugsa sér. Jú, konur fóru með körlum í víking, enda oft ætlunin að setjast að í herteknu landi, en þær börðust ekki við hlið karlanna. Hlutverkaskipan á þessum tíma var fastmótuð og allir höfðu sitt hlutverk. Menn voru fastir í sinni samfélagsstöðu. Það þarf ekki annað að en að lyfta sverði, taka upp skjöld og fara í hringabrynju til að finna hversu erfitt var að berjast á þessum tíma. Í raun aðeins á færi stælta karlmanna á bestum aldri.

Það eru engar traustar skriflegar vísbendingar úr samtímanum – hvorki úr Íslendingasögum, sögulegum frásögnum eða samtímasögum, svo sem konunga sögum eða Sturlungu – um að konur hafi tekið þátt í bardaga eða herjað á svipaðan hátt og karlar.

Minnst hefur verið á stríðskonur í goðsögum. Textar eins og Saga Völsunga og Gesta Danorum eru dýrmætir til að skilja menningu og goðafræði víkingatímans, en þeir eru ekki fyllilega áreiðanlegir sem söguleg sönnunargögn. Þessar heimildir gefa innsýn í hugsjónir og skoðanir víkinga um hlutverk kynjanna og stríðsrekstur en ætti að túlka þær með varúð og jafna þær á við áþreifanlegri heimildir eins og fornleifafræði og samtímasögur.

Goðafræði skjaldmeyja og goðsagnakenndra kvenkyns stríðsmanna endurspeglar ekki endilega sögulegan veruleika heldur hugmyndir eða óvenjulegar persónur. Í augnablikinu er hugmyndin um víkingakonur sem stríðsmenn að mestu leyti vangaveltur, á rætur í goðafræði og einstökum fornleifamálum (einu umdeildu fornleifa máli) sem veita ekki óyggjandi sönnun um kvenkyns stríðsmenn í víkingasamfélaginu. Hvað er þetta umdeilda fornleifa mál eða réttara sagt gröf sem á að sýna kvennkyns víking?

Birka gröfin Bj 581 á að heita undantekningartilvik og getur ekki sett reglu eða verið óyggjandi sönnun þess að konur börðust reglulega sem stríðsmenn í víkingasamfélagi. Reyndar bendir eitt dæmi ekki til þess að kvenkyns stríðsmenn hafi verið útbreidd eða viðurkennd norm á víkingaöld og er verið að tala um gröf BJ 581.

Þessi gröf er eitt af tveimur fornleifafræðilegum dæmum (mjög umdeilt) þar sem kona hefur verið grafin með fullt sett af vopnum, venjulega tengt stríðsmönnum. Þessi gröf sker sig einmitt úr vegna þess að hún er einstök í samanburði við langflestar grafir á víkingaöld, sem benda ekki til þess að konur hafi verið útbúnar eða grafnar eins og stríðsmenn. Vopnin hafa t.d. sett í gröfina sem heiðurs staða.

Þessi sérkenni gerir það að verkum að erfitt er að alhæfa um víkingakonur sem hermannastétt. Meirihluti kvenkyns grafa frá víkingaöld inniheldur heimilismuni, skartgripi eða verkfæri sem tengjast heimilislífi frekar en vopn.

Menningarviðmið víkingatímans segja mikla sögu líka. Þó að konur í víkingasamfélagi hefðu umtalsverð félagsleg, efnahagsleg og lagaleg réttindi samanborið við konur í öðrum samtímamenningum, tóku þær yfirleitt ekki þátt í hernaði. Höfðu völd innanstokks en karlarnir riðu á þing og réðu. Flestar sögulegar heimildir og greftrunargögn leggja áherslu á hlutverk kvenna á heimilinu, stjórnun bús og stundum mikilvægar félagslegar stöður, en ekki sem bardagamenn.

Goðsögulegar persónur Valkyrja og skjaldmeyja tákna líklega hugsjóna eða goðsagnakenndar hlutverk frekar en sögulegan veruleika.

Rökræður í kringum Bj 581. Sumir fræðimenn halda því fram að vopnin í Bj 581 gefi ekki endilega til kynna að konan sem þar var grafin hafi verið stríðsmaður sjálf. Hlutirnir gætu hafa haft táknrænan eða trúarlegan tilgang, táknað vald, stöðu eða fjölskyldutengsl frekar en persónulega notkun í bardaga.

Skortur á bardagaáverkum á beinagrindinni vekur spurningar um hvort þessi einstaklingur hafi tekið virkan þátt í bardaga.

Víðtækara fornleifafræðilegt samhengi:

Flestar grafir frá víkingaöld endurspegla skýra skiptingu í hlutverkum og stöðu karla og kvenna, sérstaklega hvað varðar vopn. Karlagrafir innihalda oft vopn, á meðan kvennagrafir eru venjulega búnar hlutum sem tengjast heimilislífi, svo sem lyklum (tákn um heimilisvald) eða textílverkfæri.

Ein einangruð gröf eins og Bj 581, án víðtækari sönnunargagna frá öðrum kvenkyns stríðsgröfum samtímans, er ekki nóg til að gefa til kynna að víkingakonur hafi reglulega tekið að sér bardagahlutverk.

Lítum á þetta út frá sögulegt og bókmenntalegt samhengi. Það er ekki minnst á konur sem stríðmenn í samtímaheimildum eins og Sturlungasögu og aðrar Íslendingasögur. Þess í stað leggja þær áherslu á félagsleg, pólitísk og heimilisleg hlutverk sem konur gegndu, sem voru öflug en ólík hernaði.

Sögulegir textar utan víkingasamfélagsins, eins og frá arabískum og engilsaxneskum áhorfendum, skjalfesta heldur ekki konur sem bardagamenn, sem styrkir þá hugmynd að kvenkyns stríðsmenn hafi verið sjaldgæfir, ef þeir væru til.

Niðurstaðan er einföld

Þó að Bj 581 gröfin sé heillandi og mikilvægur uppgötvun, þá staðfestir hún ekki að kvenkyns stríðsmenn hafi verið regla í víkingasamfélagi. Það er enn undantekningartilvik og víkingasamfélag fylgdi almennt patriarkískum viðmiðum þar sem karlar voru aðal bardagamenn og hlutverk kvenna var að miða við heimilishald og heimilisvald.

Konur voru í nokkrum undantekningum í leiðtoga- eða trúarhlutverkum.

Goðafræði skjaldmeyja og rómantískar hugmyndir um stríðskonur endurspegla líklega hugsjónir víkinga, frásagnir og undantekningartilvik, frekar en sögulegan veruleika. Án frekari sannana styður tilvist eins dæmis eins og Bj 581 ekki þá hugmynd að víkingakonur hafi reglulega tekið þátt í hernaði eða að þær hafi gegnt aðalhlutverki í hernaðaraðgerðum víkinga.

Í blálokin. Það er bara þannig að nútímamenn, á öllum tímum, vilja yfirfæra sinn veruleika yfir á aðra tíma. Í raun getum við aldrei farið fyllilega í spor annarra, hvað þá á öðru tímabili. Kvennfrelsið er tiltölulega ný komið sem og frelsi fyrir alla karlmenn. Stéttskipting hefur verið ráðandi þáttur í samfélögum fortíðarinnar, allt frá því að siðmenning hófst fyrir ca. tíu þúsund árum. Menn hafa því kúgað konur og aðra menn allan þennan tíma. Svona er bara lífið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband