Færsluflokkur: Bloggar
Er hér um nýlunda að ræða? Nei, LHG sinnir þessum verkefnum de facto í verktöku. Þarna eru lögin skýrari og endurspegla veruleikann eins og hann er.
§ 5. Skipulag Landhelgisgæslunnar
Landhelgisgæslan er hluti af hervörnum landsins. Á friðartímum skal Landhelgisgæslan helst sinna þeim verkefnum sem fylgja lögum þessum. Á friðartímum þarf Landhelgisgæslan einnig að þjálfa stríðsskyldu sína.
Skip Landhelgisgæslunnar skulu vera einkennismerkt samkvæmt reglum sem konungur setur.
Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er talið að sinna tilteknum landhelgisgæsluverkefnum getur konungur ákveðið að unnt sé að nýta hluta af öðrum efnis- eða mannskap heraflans í þeim tilgangi." Sjá slóð: Lov om Kystvakten (kystvaktloven)
Bloggar | 26.12.2024 | 11:41 (breytt kl. 13:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fólk virðist ekki skilja taktík Trumps, þrátt fyrir öll þessi ár sem hann hefur verið í sviðsljósinu. Hún er einföld, hann biður/heimtar meira en hann ætlar sér að fá. Hann lætur viðsemjanda sinn eða sína fá sjokk meðferð með kröfum sínum. Eins og komið hefur verið inn á hér í fyrri greinum, þá snýst Panama skurðsmálið um að reka Kínverja í burtu þaðan en Hong Kong fyrirtæki rekur tvær hafnir við skurðinn. Einnig, telja sumir, að ætlunin sé fá lægri gjöld á bandarísk skip sem fara í gegnum skurðinn og er nauðsynlegt í komandi viðskiptastríði Kína og BNA.
Snúum okkur aftur að Grænlandi. þrjár ástæður fyrir kröfur hans. Bráðnun norðurskautsins þýðir að nýjar siglingarleiðir eru að opnast til Asíu og það gæti jafnvel þýtt að hægt er að sigla þessa leið í stað Panamaskurðsins.
Önnur ástæða er sjaldgæfir málmar og efni eins og úraníum, gull o.m.fl.
Þriðja ástæðan er að fjarlægð Bandaríkjanna frá Rússlandi er hætt að skipta máli. Komnar eru fram eldflaugar sem fljúga á ótrúlegum hraða og fara ekki eftir ákveðnum brautum. Má hér nefna Kinzhal eldflaugina. Mikill hraði hennar - sem getur náð Mach 10 í stuttan tíma - og hæfni til að stjórna á flugi hjálpar henni að forðast loftvarnir. Viðbragðstími loftvarnarkerfis Bandaríkjanna minnkar því sem nemur. Það er ástæðan fyrir að Bandaríkjamenn eru í fyrsta sinn að tala um að koma sér upp Iron Dome loftvarnarkerfi eins og Ísraelar hafa.
Með því að koma sér upp loftvarnarkerfi á Grænlandi aukast líkurnar á að verjast kjarnorkuvopna árás frá Rússlandi. Bandaríkjamenn hafa síðan í seinni heimsstyrjöld haft herstöð á Grænlandi sem kallaðst Thule Air Base (flugherstöðin Thule) en bandaríski geimherinn hefur tekið stöðina yfir og kallast hún Pituffik geimstöð (e. Space Base). Hún er í dag ekki nóg fyrir varnir Bandaríkjanna.
Fáir hafa velt fyrir sér af hverju Bandaríkjamenn yfirgáfu eina mikilvægustu herstöð sína í Norður-Atlantshafi, Keflavíkur herstöðina 2006 og af hverju þeir töldu sig geta það. Ástæðan var einföld þá, Bandaríkjaher réði ekki við að vera í tveimur stríðum í einu og þeir töldu sig geta skilið hana eftir hálfvirka því að þá sáu gervihnettirnir um að vakta hafið og herþotur frá austurströnd Bandaríkjanna aðeins 2 klst að komast hingað. Það er bara ekki nóg í dag.
En ef Kaninn kaupir Grænland (sem er algjörlega út í hött að gerist), þá geta þeir raðað eldflauga palla og herstöðvar eftir austurströnd Grænlands og verið í stuttu skotfæri við Rússland. Þetta vita Rússar og eru væntnalega ekki kátir með þessi áform. Og þetta gæti verið peð í skák Trumps í friðarviðræðum um Úkraínu.
Fyrir Íslendinga væru þetta ekki góðar fréttir, því að hernaðarlegt mikilvægi Keflavíkurflugvallar minnkar sem því nemur, hún jafnvel óþörf. Bandarískir hershöfðingjar hafa bölvað yfir þessa ákvörðun Bush stjórnarinnar og viljað koma hingað í fulla viðveru allar götur síðan en það kann að vera óþarfi ef Grænland lætur Kanann fá fleiri herstöðvar. Þess vegna hefur bloggritari alltaf varað við að treysta á aðra um varnir Íslands. Við getum bókað það að ekkert Iron Dome kerfi verður sett upp á Íslandi ef þriðja heimsstyrjöldin verður, kannski THAAD loftvarnarkerfi sett upp í kringum Keflavíkurflugvöll.
En það er annar vinkill á þessu máli. Viðbrögð Dana. Danski ráðherrann Troels Lund Poulson boðar nú (í gær) mikilli innspyrningu fjármagns sem á að fara í varnir Grænlands. $1,5 milljarða eða hátt í 200 milljarða íslenskra króna. Í þessum pakka eru tvö herskip, tveir langdrægir drónar og tvö sleðahundateymi. Spánýir borgaralegir flugvellir verða framlengdir til að geta tekið á móti F-35 herþotur. Með hræðslu þvingunum hefur Trump náð sínu fram.
En karlinn vill meira. Nú eru kröfur um að aðildarríki NATÓ leggi fram 5% af vergri þjóðarframleiðslu í varnarmál! Úr 2% sem aðeins 23 af 32 aðildarríkjum hafa náð. Pólverjar eru komnir upp í 4%.
Hvar stendur Ísland í þessu öllu og prósentuhlutfall til varnamál af vergri landsframleiðslu? Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að útgjöld til varnarmála verði um 6,5 milljarðar króna. Þar sem nákvæm VLF fyrir 2024 er ekki þekkt, er hægt að áætla hlutfallið með því að miða við VLF ársins 2023.
Samkvæmt hagspá Greiningardeildar Landsbankans var VLF árið 2023 um 4.321 milljarðar króna. Ef við miðum við þessa tölu, þá eru útgjöld til varnarmála um 0,15% af VLF (6,5 milljarðar / 4.321 milljarðar * 100). Af þessum 6,5 milljarða fara 1,5 milljarðar í Úkraínustríðið! Fyrr eða síðar hlýtur Trump að rekast á Ísland á landabréfakortinu eða í skýrslum og byrja að spyrja. Skiptir Ísland máli fyrir okkur? Getum við lagt niður herstöðina í sparnaðarskyni? Geta þeir (Íslendingar) ekki borgað meira en 0,15% og lagt til mannskap til varnar? Og svo framvegis.
Brúðumeistarinn Trump togar í spottana og litlu brúðukarlarnir um allan heim dansa eftir hugdettum karlsins. Hefur nýi forseti Íslands nokkuð óskað karlinum til hamingju með sigurinn?
Bloggar | 25.12.2024 | 13:43 (breytt 27.12.2024 kl. 12:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ingólfur Jónsson frá Prestbakka (f. 1918, d. 1993) var lengi kennari við Réttarholtsskóla og kenndi hann mér kristin fræði er ég var unglingur. Hann var einn af fáum kennurum sem villingarnir báru náttúrulega virðingu fyrir og þeir verstu voru stilltir hjá karli.
Ég vissi þá ekki að hann var þá hálfgerður sérkennari sem hafði lag á seinfær börn og gat ráðið við vanstilltustu börn. En flestir þekkja hann sem laga höfund og tengja hann við jólalög.
Það þekkja allir hið sígilda jólalag "Bjart er yfir Betlehem" eftir hann og man ég er lagið var sungið í Bústaðarkirkju og hann sat mér við hlið og presturinn sagði frá því að hann væri höfundur texta. Mikið var ég hissa og ekki minnkaði virðingin. En mikið væru nútíma jól fátæklegri án laga hans en hann var gott ljóðskáld, þótt ekki væri meira sagt.
Bloggar | 25.12.2024 | 00:50 (breytt kl. 00:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna segir nauðsynlegt fyrir öryggi og frelsi í heiminum að Bandaríkin eigi og ráði yfir Grænlandi. Fyrstu viðbrögð í Grænlandi og Danmörku eru neikvæð..." segir í frétt RÚV.
Stundum gengur Trump fram af sjálfum sér. Ýtir hugmyndir fram sem hann veit að ganga ekki upp. Má hér nefna yfirtöku Panama skurðinn eða kaup á Grænlandi. En athyglisverð eru þessi viðbrögð: Rasmus Jarlov þingmaður danska þjóðarflokksins var líka ómyrkur í máli. "Grænland er danskt og hefur verið það síðan árið 1380."
Ekki er þetta hárrétt hjá danska þingmanninum en kannski nærri lagi. Kíkjum fyrst á hvernig Grænland komst undir konungshendur. Grænland varð fyrst hluti af norska konungsríkinu árrið 1261 gerðu Grænlendingar formlega eið við Noregskonung (Magnús lagabætir) og samþykktu að verða hluti af norska konungsríkinu. Þetta var hluti af þróuninni þar sem Noregskonungur var að styrkja yfirráð sín yfir norrænum byggðum, þar á meðal Íslandi.
Þegar Danmörk, Noregur og Svíþjóð sameinuðust í Kalmarsambandinu 1397, komust lönd undir stjórn danska konungsins. Eftir að sambandið leystist upp árið 1523 hélt Danmörk yfirráðum yfir Noregi. Eftir Napóleonsstyrjaldirnar 1814 varð Noregur hluti af Svíþjóð, en Grænland varð eftir undir Dönum. Frá því hefur Grænland verið í danska ríkinu.
Og snúum okkur til nútímans. Grænland var gert að dönsku amtssvæði árið 1721 í kjölfar trúboðsstarfa og nýlenduvæðingar Dana. Árið 1953 varð Grænland formlega hluti af Danmörku og fékk heimastjórn árið 1979 og aukna sjálfstjórn árið 2009.
Þetta virkar allt klippt og skorið en er ekki. Síðasta skráða heimild um norræna byggð er frá 1408, þegar brúðkaup Íslendinga, Þorsteins Ólafssonar og Sigríðar Björnsdóttur, fór fram í Hvalseyjar kirkju. Eftir þetta hverfur byggðin úr sögulegum heimildum.
Evrópskir rannsóknarleiðangrar Evrópumanna komu þarna við á 16. öld án landnáms en Hans Egede (1721) kom Grænland aftur á blað. Hin eiginlega endurkoma Evrópubúa til Grænlands hófst með dönskum trúboðsmanni, Hans Eged. Hann stofnaði nýlendu og hóf kristniboð meðal Inúíta, sem höfðu lifað þar óáreittir eftir að norræna byggðin féll. Með komu Hans Egede og stofnun danskrar nýlendu árið 1721 hófst nýtt tímabil í sögu Grænlands. Þetta markaði upphaf danskrar nýlenduvæðingar og tengdi Grænland aftur við Evrópu. Þannig má segja að hvítir menn hafi í raun komið aftur til Grænlands með komu Hans Egede árið 1721, eftir að hafa verið fjarverandi í rúm 300 ár.
Tilkall Dana til Grænlands á sögumlegum grunni er því byggt á veikum grunni og eins gætu Íslendingar gert kröfur til Grænlands, því landið byggðist úr Íslandi og var sjálfstætt þjóðveldi hátt í 260 ár áður en Noregskonungur tók yfir. Þeim dettur ekki í hug slík vitleysa að gera tilkall til landsins en hefðu átt á sínum tíma að gera tilkall til Jan Mayen en Norðmenn hirtu þessa mikilvægu eyju og ætluðu líka að hirða Austur-Grænland en Danir hindruðu það.
Er heldur ekki viss um að Grænlendingar nútímans líti svo á að þeir tilheyri Danmerkur sterkum böndum eða þeir séu Danir yfirhöfuð. Þeir hafa mikið reynt að sleppa undan yfirráðum Dani en eru of fámennir og veikburða, rétt eins og Færeyingar, til að slíta sambandið. Þegar auðævi Grænlands, sem eru eðalsteinar og góðmálmar verða að fullu nýttir, sem og olía, verður sagt bless við Danmörk og Dani. Grænlendingar eru heldur ekki ákafir að fara undir stjórn annan "nýlendu herra", Bandaríkin. Havaí er víti til varnar ef menn vilja halda menningu sinni og ekki fara í minnihluta.
Bandaríkjamenn líta Grænland hýra af tveimur ástæðum, góðmálmar og sem varnarstöð. En hvers vegna ekki að semja um bandarískar herstöðvar á Grænlandi án yfirtöku og láta bandarísk námufyrirtæki grafa er erfitt að skilja. En hótunin um töku Panamaskurðinn snýst um komandi viðskiptastríð við Kína og snýst um að koma í veg fyrir hærra vöruverð í BNA vegna tolla á kínverskar vörur og það er gert með lægri umferðagjöld á bandarísk skip sem fara um skurðinn. Því er hótað.
Bloggar | 24.12.2024 | 00:53 (breytt kl. 00:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þegar flestir Íslendinga vakna með timburmenni á nýársdag 2025, hafa skattar hækkað. Ekki mikið en samt hækkað. Fáir taka eftir því að tekjuskatturinn á að hækka um áramótin en hann hækkaði líka um síðustu áramót. Sjá slóð: Skattabreytingar á árinu 2024
Tekjuskattur einstaklinga | 2023 | 2024 | ||||||||||||
Prósenta í 1. þrepi: | 31,45% (þar af 14,67% útsvar) | 31,48% (þar af 14,93% útsvar) | ||||||||||||
Prósenta í 2. þrepi: | 37,95% (þar af 14,67% útsvar) | 37,98% (þar af 14,93% útsvar) | ||||||||||||
Prósenta í 3. þrepi: | 46,25% (þar af 14,67% útsvar) | 46,28% (þar af 14,93% útsvar) |
Og enn hækka skattarnir 2025 :Í eftirfarandi töflu má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk í kr. fyrir árin 2024 og 2025, sjá slóð: Skattabreytingar á árinu 2025
Tekjuskattur einstaklinga í staðgreiðslu | 2024 | 2025 | ||||||||||||
1. þrep: | 31,48% | 31,49% | ||||||||||||
2. þrep: | 37,98% | 37,99% | ||||||||||||
3. þrep: | 46,28% | 46,29% |
Virkar ekki mikil hækkun, en er hækkun samt. Það á hins vegar að hækka skattleysismörk eru alltaf lág og spurning hver þau hafi eitthvað að segja.
Nú hefur komandi ríkisstjórn boðað hækkanir á auðlindagjöldum og ferðamannaskatt. Ef borguð verða komugjöld, þá hlýtur jafnt að ganga yfir alla, bæði Íslendinga og útlendinga og allir borga komugjöld! Þetta er sum sé aukaskattur.
Ekkert er minnst á veggjöld í stjórnarsáttmálanum, enda ekki útfærður í smáatriðinum. En það má búast við að gjöld verði lögð á vegfarendur því boðað er átak í jarðgangnagerð. Þeir sem nota göngin borga (er ekki að segja að það sé neikvætt, bara að göngin verði fjármögnuð þannig). Svo á líka við um Sundabraut sem á að fara í og það mun kosta að nota hana. Vegfarendur þurfa líka að greiða fyrir nýju Ölfusárbrú dýrum dómum í veggjöld. Og ef vegfarandinn vogar sér að líta til hægri eða vinstri á nátttúruperlu, þarf hann að borga. Það mun kosta peninga að yfirgefa höfuðborgarsvæðið eða koma inn á það.
Já, það er ekki bara ríkisvaldið og sveitarfélögin sem hugsa sér gott til glóðarinnar um áramótin, fyrirtækin - birgjarnir hafa ákveðið með sinnu miklu fordómsspá, að hækkanir á hráefni þurfi að skila sér inn í verðlagið um áramótin og það eigi að hækka matvælaverð.
Bílskrjóðurinn sleppur ekki og eldsneytisverð helst áfram hátt með ofurálagningu á olíuverði. Stofnanir munu ekki láta sitt eftir liggja og alls konar þjónustugjöld (sem tölvan sér um að reikna á sekúndubroti) verða hækkuð og bankanir með sífellt minni viðveru og fækkun útibúa, sjá til þess að borga verður fyrir allt. Verður rukkað fyrir að mæta í persónu í bankaútibú? Það er rukkað fyrir að hringja í bankann. Bloggritari er að fara til Reykjavíkur á eftir, því að útibú Íslandsbanka í heimbyggð hans neitar að taka við mynt!
Já, Ísland er skattaparadís allra annarra en íslenskra borgara. Gleðilegt skattaár 2025.
Bloggar | 23.12.2024 | 11:29 (breytt kl. 12:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er réttnefni að kalla samkomulagið, eða drög að samkomulag, stefnuyfirlýsingu en ekki stjórnarsáttmála. Þetta er eins og handrit að bók, það á eftir að koma með loka prófarkalestur textans.
Hvað ætla frúnar að gera? Koma böndum á stjórnsýsluna. Fyrsta skrefið með að leggja niður ráðuneyti og er vonandi fyrirheit um framhald.
Annað atriði í drögunum er réttlæting með auðlindagjöld. Þar er flokki Fólksins mest treystandi með Eyjólf Ármannsson og Sigurjón Þórðarson sem hafa vit á sjávarútvegi og atvinnumálum en því miður hneppti Hanna Katrín Friðriksson hnoss atvinnumálaráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson varð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Eyjólfur er sérfræðingur í orkumálum en Sigurjón í sjávarútvegi). Þetta eru mikilvægustu ráðherrastólarnir á eftir fjármálaráðherra stólinn og utanríkisráðherra stólinn. Það á að keyra aftur í gang virkjanir og taka til í sjávarútvegi. Stórútgerðin á að borga meira í skatta (gjöld kalla þeir þetta).
Í áttunda lið segir að ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld. Þarna eiga aurar að streyma í ríkiskassann en þurfum við Íslendingar þar með að borga fyrir að umgangast landið okkur?
Svo á að eyða peningum "...með fjárfestingu sem styrkir stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu um land allt. Ríkisstjórnin mun leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun." Sem er kannski ekki slæmt því að það er skortur á úrræðum fyrir aldraða. Það á sem sagt að bæta hressilega í velferða- og heilbrigðisþjónustu. Spurning hvort það séu til peningar í þetta þegar ríkið er rekið með halla. Það á að fjölga lögreglumönnum sem er jákvætt.
Það er hins vegar engar róttækar breytingar á útlendingamálum og þó. Þar segir að ríkisstjórnin vill gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýslu til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Heimilt verður að afturkalla alþjóðlega vernd og brottvísa fólki sem fremur alvarleg afbrot eða ógnar öryggi ríkisins. Þetta með erlendu glæpamennina og brottvísun þeirra er almenn skynsemi og ótrúlegt að þetta hafi ekki komið fram í spánýjum útlendingalögum frá því í vor. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra og fróðlegt hvort hún standi í lappirnar. Kannski verður fáar árásir á stefnuna í útlendingamálum þar sem róttæklingarnir eru farnir af þingi, Píratar og VG. Ekki munu Miðflokksmenn eða Sjálfstæðismenn standa á móti hertri útlendingamálastefnu.
Svo eru það utanríkismálin. Þorgerður K. Gunnarsdóttir verður utanríkisráðherra og ljóst má af orðalagi sáttmálans að ekki verður rekin einka utanríkisstefna. Sama blabla um að við eigum að vera í NATÓ, ekkert nýnæmi en svo kemur bullið um þjóðaratkvæði um "áframhald á viðaldarviðræður" við ESB. Hvaða framhald? Er út af dagskrá og fáir hafa áhuga inngöngu í gjaldþrota ESB sem er að stefna í viðskiptastríð við Bandaríkin. Ef þetta fer í þjóðaratkvæði 2027 í stjórnarlokin, þá vonandi hafnar þjóðin afgerandi aðild. Fríverslun við allan heiminn er hagkvæmara fyrir Ísland en álfu bálknið í Brussel.
Að lokum er sagt að mótuð verður öryggis- og varnarmálastefna. Það er skynsamlegt og nauðsynlegt.
Allar Evrópuþjóðirnar eru að undirbúa sig undir stríð, almenningur er hvattur til að eiga neyðarbirgðar af mat, fjármagn í varnartengd mál aukin o.s.frv.
En vonandi taka Íslendingar meira frumkvæði í varnarmálum sínum. Það er ótækt að þeir hunsi málaflokkinn algjörlega eins og þeir hafa komist upp með hingað til.
Vonandi þegar Trump lítur á listann yfir fjármagn sem aðildarþjóðir NATÓ leggja til varnarmála, að hann reki ekki augun í framlag Íslands sem er 0,02% af vergri þjóðarframleiðslu á meðan 23 af 32 aðildarþjóðum eru komnar yfir 2% markið og nánast allar aðrar eru við mörkin...nema Íslandi. Sé kallinn segja upphátt: "What are those losers in Iceland doing? They have to submit their fair shares! Don´t even care to protect themself! Tariffs right now, everybody have to paid their fair shares!"
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins 2024
Bloggar | 22.12.2024 | 20:18 (breytt kl. 22:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar menn eru að reyna að selja eigin bækur, þá er gripið til sjokkerandi fyrirsagnar til að grípa athygli væntanlegra lesenda.
Morgunblaðið segir svo frá nýkominni bók:
Mín tilfinning er sú að Íslendingar hafi bara smám saman orðið kristnir eins og aðrar þjóðir og engin athöfn farið fram, frekar en í Noregi.
Þetta segir Sigurður Sigurðarson, höfundur nýrrar bókar, Óminni tímans, sem fjallar um stórmerka atburði úr Íslandssögunni, þar á meðal meinta kristnitöku. Í bókinni eru rök leidd að því að engin kristnitaka hafi verið árið 1000. Einnig að orð Snorra goða séu skáldskapur: Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?
Er hér einhver nýlunda á ferð, ný vitneskja fyrir sagnfræðinnar? Nei hreint ekki. Það er alveg ljós að það var komist að málamiðlun milli heiðina manna og kristina því það stefndi í meiriháttar átök og skiptingu lands milli andstæða hópa. Hvenær þetta gerðist, 999 eða 1000 e.Kr. skiptir litlu máli.
Líklegt er að kristnir hafi verið fámennari enda landið heiðið en sterkir höfðingjar fóru fyrir minnilhlutanum. Það er athyglisvert að kristið fólk var meðal landnámsmanna á landnámsöld enda kom margt fólkið frá byggðum norræna manna á Bretlandseyjum. Sjá þennan árekstur á milli kristni og heiðni í Kjalnesinga sögu.
En hvers vegna dó kristnin út eftir landsnámsöld? Það er eiginlega meiri spennandi spurning. Blokkritari hefur rakið þá sögu áður er hann ritrýndi bókina "Eyjan hans Ingólfs" eftir Ásgeir Jónsson sagnfræðing og seðlabankastjóra. Sjá slóð: Eyjan hans Ingólfs og sjá einnig: Er Írafárið að byrja upp á nýtt?
Í stuttu máli má ætla að landnámið hafi átt sér stað í tveimur bylgjum. Fyrri bylgjan hafi komið að mestu frá Bretlandseyjum, þar sem norrænar byggðir stóðu höllum fæti en síðari komið frá Noregi með heiðið fólk að meginstofni og bændum.
Ástæðan fyrir að keltnesk áhrif hurfu svo svo fljótt, úr menningunni, tungu og trú, er einmitt þessi ástæða. Keltneska fólkið var frekar í lágstéttinni og líkur á að koma genunum áfram mun minni en hjá hærri settum. Þrælastofninn hafi hreinlega dáið út á fyrstu öldinni en aðrir blandast. Sjá má þetta í DNA gena mengi Íslendinga, hversu mikið það breyttist frá upphafi landnáms til 11. aldar.
En hér er ekki ætlunin að fjalla um frumkristni á Íslandi. Heldur hvernig kristnin komst varanlega á Íslandi upp úr 1000. Það er því nokkuð sennilegt að menn hafi komist að pólitísku samkomulagi um þetta leyti af mörgum ástæðum. Ein ástæðan var að kristni var komin á annars staðar á Norðurlöndum (Svíþjóð var heiðið mun lengra sem og Finnland) og því erfitt að eiga í samskiptum við Norðmenn ef menn væru heiðnir. Fyrst var reyna að leysa málið með að menn prímsignuðu, voru áfram heiðnir en gátu umgengið kristið fólk.
Í samkomulaginu var komist að málamiðlun eins og áður sagði. Heiðnir máttu blóta á laun og éta sitt hrosskjöt á meðan þeim eldist aldur. Það hefur því tekið langan tíma að koma kristni á Íslandi og margir trúboðar komu hingað, sumir alla leið frá austurvegi og boðuðu "villitrú".
Ástæðan fyrir því hversu langan tíma þetta tók er einmitt skortur á klerkastétt, tekjum og höfuðsetur kristni. Það kom með einni valdaætt.
Fyrsti biskup Íslands var Ísleifur Gissurarson, sem var vígður árið 1056 og gegndi embættinu í Skálholti. Hann hafði mikil áhrif á kirkjuskipulag landsins og var í raun fyrsti Íslendingurinn sem var vígður biskup. Hann hafði áður lært í Þýskalandi. Gissur Ísleifsson, var sonur Ísleifs Gissurarsonar og tók við embætti biskups í Skálholti eftir föður sinn árið 1082. Hann stóð fyrir því að gera Skálholt að varanlegu biskupssetri og efldi mjög kirkjustofnunina á Íslandi. Kristnhald komst því fyrst á Suðurlandi en festist ekki í sessi á Norðurlandi fyrr en eftir 1100. Jón Ögmundarson var fyrsti biskup Íslands og stóð fyrir því að Hólar í Hjaltadal voru gerð að biskupssetri árið 1106. Hann var vígður árið 1106 og gegndi starfi fram til dauðadags árið 1121. Jón lagði áherslu á kristindóminn í daglegu lífi Íslendinga og hreinsun goðatrúarinnar.
Þessir biskupar gegndu lykilhlutverki við að festa kristna trú í sessi og byggja upp kirkjustofnanir á Íslandi á 11. öld. Biskupsembættin í Skálholti og síðar Hólum urðu miðstöðvar trúarlífs og menntunar.
Það er því ekkert ólíklegt að menn hafi komist að samkomulagi á Alþingi um siðbreytingu og eiginlega bráðnauðsynlegt ef menn ætluðu halda upp eitt samfélag með lögum og geta átt í samskiptum við nágrannaþjóðir.
Fornsögurnar, Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, Kristni saga, Landnámabók, Snorra-Edda og Heimskringla og saga Ólafs Tryggvasonar greina frá þessu. Þetta voru engir vitleysingar sem skrifuðu þessar sögur, þessir sagnaritarar voru "hámenntaðir" á þessum tíma og sögðust fylgja sannleikanum þar sem honum verður best komið að. Hafa skal það sem sannara kann að reynast var sagt.
Því er sagan sennileg um að ákvörðun um kristnitöku á Alþingi árið 1000 hafi tekin undir forystu Þorgeirs Ljósvetningagoða Þorkelssonar, sem var lögsögumaður Alþingis á þeim tíma. Hvern annan ef ekki lögsögumaðurinn sjálfur?
Hann var heiðinn goði en var fenginn til að leysa úr þessum ágreiningi milli kristinna manna og heiðinna, þar sem bæði hópar höfðu hótað að hafna sameiginlegum lögum ef ekki næðist niðurstaða.
Sagan segir að Þorgeir tók sér einn dag og eina nótt til að hugleiða málið. Að morgni lagði hann fram tillögu sína, sem fól í sér að allir Íslendingar skyldu fylgja einu lögskipulagi, og það yrði kristin trú. Hins vegar leyfði hann að nokkrir heiðnir siðir héldust í fyrstu til að milda breytinguna. Til dæmis máttu menn:
- Borða hrossakjöt (sem kristni menn litu á sem heiðinn sið).
- Blóta á laun (fremja heiðnar fórnir, svo lengi sem það var ekki opinbert).
- Stunda barnaútburð (sem var bannaður samkvæmt kristnum siðum).
Þessi málamiðlun var talin nauðsynleg til að forðast átök og tryggja friðsamlega upptöku kristni í landinu. Með þessu var Ísland formlega kristið, þó að heiðnir siðir hafi haldist í nokkurn tíma á eftir eins og komið hefur verið hér inn á.
Bloggar | 22.12.2024 | 11:43 (breytt 23.12.2024 kl. 09:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einn af frjálslindu fjölmiðlum í Bandaríkjunum tók sig loksins til og tók viðtal við 50 samstarfsfólk Joe Biden. Niðurstaðan var auðljós þeim sem vildu sjá allan tímann. Joe Biden var með einkenni heilabilunar strax frá upphafi. Þeir sem fylgjast með þessu bloggi geta flétt aftur þar sem bloggritari hélt fram frá upphafi að Biden hefði ekki andlega getu til að stjórna Bandaríkjunum.
Sagt er í bandarískum fjölmiðlum að starfsfólk Hvíta húsið hafi orðið þetta ljóst á fyrstu mánuðum forsetatíðar Biden. Upp hófst þá feluleikur. Fundir voru hafðir stuttir, spurningar sendar skriflega fyrirfram, jafnvel til náið samstarfsfólks og Biden las upp svörin af minnimiðum sem hann hefur alltaf við hendina eins og glöggir sjónvarpsáhorfendur geta séð. Önnur auðljós einkenni eru "milljón" mismæli eða svör út í hött þegar hann loksins gefur svör og oftast voru svörin bara "nei" eða "já".
Ástandið var svo slæmt að ríkisstjórnarfundir voru ekki haldnir og þeir fáu sem haldnir voru (algjörlega nauðsynlegir) voru undir forsæti Jill Bidens, eiginkonu Joes! Fjölmiðlar (vinstri) þóttust fyrst uppgötva að hann væri ekki hæfur þegar kappræða hans við Donald Trump fór fram í sumar. Engum var þá um dulið, jafnvel heimskasta fólk í Bandaríkjunum að eitthvað var og er að.
Joe Biden hefur eytt helminginn af forsetatíð sinni í Scranton, Pennsylvaníu þar sem heimili hans er. Barnið (fjölmiðlar) sem áttu að benda á að keisarinn væri ekki í fötum, brást hlutverki sínu nema fjölmiðlar eins og Foxnews og Newsmax og hlaðvarps stjórar. Netið benti miskunarlaust á farsann sem var í kringum forsetatíð Joe Biden.
Biden hefur alltaf minnt bloggritara á garðyrkjumanninn Chance í sögunni Being there, einfelding sem ríka fólkið tekur upp á arma sína og heldur að sé snillingur. Söguþráðurinn í "Being There" virtist benda til þess að fáfræði sé sannarlega sæla og að einhver eins og Chance gæti hugsanlega verið svarið við öllum ömurlegum heimsins. Í lok sögunnar var fína fólkið að velta fyrir sér að gera Chance að næsta forseta Bandaríkjanna!
En ef Joe Biden stjórnaði ekki Bandaríkjunum, hver þá? Var stjórnkerfið á sjálfstýringu? Stjórnuðu ráðherrar eftir eigin hyggviti en ekki ákveðinni stefnu? Það gæti skýrt margt sem hefur farið úrskeiðis, svo sem hörmulegt undanhald frá Afganistan, opin landamæri, há verðbólga og matvælaverð o.s.frv.
Eftir að Kamala Harris tapaði afgerandi í forsetakosningunum í nóvember, virðist hafa hýrnað yfir karli og tók hann með kostum kynjum er Trump heimsótti Hvíta húsið nýverið. Hann virðist fagna því að Trump sé að taka við, ekki Kamala Harris en honum var steypt af stóli í sumar þegar ljóst hvert stefndi. Ekki svo út úr heiminum að hann hafi ekki tekið eftir því.
Síðastliðinn einn og hálfan mánuð hefur Trump stjórnað Bandaríkjunum frá heimili sínu í Mar-o-lago. Þangað streyma þjóðarleiðtogar, forystumenn atvinnulífsins og pólitískusar til að "kyssa á hringinn". Þaðan eru sendar sendinefndir til að leysa erfið ágreiningsmál og stríð eins og stríðið í Úkraínu. Nú síðast var hann að hafa afskipti af bráðabirgða fjárlögum sem hann hafnar.
Þetta er með ólíkindum að mesta herveldi heims hafi verið stjórnlaust í 4 ár. Kannski ekki einsdæmi í sögunni ef maður t.d. skoðar sögu Rómaveldis og keisaranna. Sumur hálf brjálaðir, siðspilltir og morðóðir. Aðeins einn annar Bandaríkjaforseti var svona gjörsamlega óvirkur, en það var Woodrow Wilson en hann fékk heilablóðfall 1919 en því var leynt fyrir almenningi. Konan Wilsons (líkt og Jill Biden í dag?) stjórnaði í andlegri fjarveru hans það sem eftir var forsetatíðar hans eða 16 mánuði. En í dag, með alla nútíma fjölmiðla, að þetta skuli vera hægt?
Af hverju núna? Af því að Biden er hættur sem forseti, Demókratar hafa tapað Fulltrúa- og Öldungadeildina. Ekkert að tapa.
Bloggar | 20.12.2024 | 15:15 (breytt kl. 16:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mörg vandamál blasa við þeim sem skoða vanda Reykjavíkur. Af hverju er allt í kalda koli í borginni?
Lítum á manngerða vandann. Hinn almenni borgari á höfuðborgarsvæðinu sem leggur í þá svaðiför að fara til Reykjavíkur í vinnu eða annarra erinda, má búast við mörgum hindrunum á leiðinni. Hann þarf að margfalda áætlaðan ferðatíma með þremur og finna þannig út komu tíma. Hann má búast við að eyða 1-2 klst að fara 10 km leið fram og til baka. Ástæðan er einföld, stjórn vinstri manna í borginni hefur ákveðið með fullri vitund að leggja stein í götu borgarans - í bókstaflegri merkingu. Þrengingar gatna, hraðahindranir sem eru yfir 2 þúsund talsins, aflagðar akreinar og forgangur tómra strætisvagna fram yfir einkabílinn en einnig fyrirtækjabílsins en fyrirtæki verða daglega fyrir mikilu fjárhagstjóni vegna tafa í umferð. Af hverju er aldrei talað um það? Ekki minnast á flugsamgöngur til borgarinnar ógrátandi. Og mislæg gatnamót? Nei, borgarlínan verður fyrst að koma! Eina sem er vel gert eru hraðbrautir reiðhjóla sem standa auðar við hliðina á akbrautum, yfirfullar af bifreiðum.
Þétting byggðar í borginni er komin í tóma vitleysu eins og sjá má af nýlegu dæmi. Skeytingarleysi um þarfir borgaranna er algjört. Vöruhúsi er plantað nokkra metra fyrir framan fjölbýlishús, skítt með vilja íbúanna. Og nýja íbúðir eru byggðar án bílastæða og afleiðingin er (hef heyrt dæmi um slíkt) stríð um þau fáu stæði sem íbúarnir fá. Svo eru skipulags snillingarnir hissa á að þessar íbúðir seljist ekki!
Talað er reglulega um ríkisbálknið. En hvað með borgarbálknið? Borgin er svo illa rekin að hún er undantekningalaust rekin með halla í A hluta árum saman. Ekki er skorið niður í borgar stjórnsýslunni, ef eitthvað er, er bætt við starfsfólk ef marka má nýlegar starfa auglýsingar. 11 þúsund manns vinna fyrir Reykjavíkurborg sem er ríki í ríkinu. Bragginn var bara birtingamynd sóunar fjármuna útsvarsgreiðenda í Reykjavík.
Miðborgin er algjört umhverfisslys, lundabúðir og hótel tugum saman á litum reit.
Þarf að minnast á stefnu borgarinnar gagnvart fyrirtækjum og stofnunum? Er enginn sem veltir fyrir sér af hverju það rísa íbúar byggðir í grónum iðnaðarhverfum? Fjandsamleg stefna gagnvart atvinnurekstri (aðall vinstri manna) hefur hrakið fyrirtækin til nágranna sveitafélaga. Hafnarfjörður er að verða mesti iðnaðarbær Íslands með upprisu iðnaðarhverfa á Völlunum.
Stofnanir eins og Hafrannsóknarstofnun hefur fundið athvarf í Hafnarfjarðarhöfn og nú eru áform um að Tækniskólinn, stærsti skóli landsins, flyti einnig til Hafnarfjarðar. Margar aðrar stofnanir eru komnar til Hafnarfjarðar, þar sem þær fá að vera í friði fyrir reglugerðafargan og afskipti Reykjavíkurborgar. Það er engin tilviljun að fyrirtæki og stofnanir leiti annað. Sama þróun á sér stað t.d. í Bandaríkjunum, þar sem er atgervi - og fjármagnsflótti úr woke borgum Demókrata.
Ofan á allt annað eru gildi borgarinnar sem leggur áherslu á forgang jaðarhópa en ekki almennra borgara. Stanslausar árásir á kristni og kristin gildi (kristin fræði er ekki kennd í grunnskólum borgarinnar). Barnafjölskyldur fá ekki inn í leikskóla og einka aðilar boða innkomu inn á "leikskólamarkaðinn" til að leysa málið. "Woke makes you broke" segir Kaninn og borgir, fyrirtæki og alríkið ætlar að láta af þessari stefnu í landi hinu frjálsu. Ekki hér á Íslandi.
Vei þeim er heimsækja borgina, það er gerð atlaga að einkabílnum er hann ekur um götur en einnig líka ef honum er lagt. 1200 kr. kostaði það bloggritara að leggja í bílastæðishús í miðborginni í eina klst (var tilhneyddur að koma í borgina). Borga þarf fyrir að leggja bíla allt vestur í Vesturbæ borgarinnar. Og HÍ sem hefur sömu gildi og stefnu og Reykjavíkurborg (woke menning), ætlar að seilast í vasa blankra háskólastúdenta og rukka þá fyrir að voga sér á einkabílnum inn á háskólalóð.
Barnafjölskyldur, nemar, aldrað fólk (sem verður að nota einkabílinn vegna heilsubrest) og fátæklingar eru allt hópar sem borgaryfirvöld gefa "skít í", afsakið orðbragðið. Hagsmunir Jóns og Gunnu eru aldrei hafðir í fyrirrúmi, þau eru bara útsvarsgreiðendur, ekki borgarbúar sem ber að hlú að (nýjasta nýtt er 7 milljóna sekt á eldri hjón sem girtu meðfram göngustíg til að koma í veg fyrir slys).
"Stadt luft macht frei" sögðu miðaldarmennirnir, þegar borgir voru vinjar frjálsræðis, einstaklingsfrelsi og -framtaks. Ekki lengur, einstaklingurinn fær ekki að vera í friði fyrir álögur og afskipti borgaryfirvalda.
Bloggar | 19.12.2024 | 11:24 (breytt kl. 14:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1. Fyrsti og mikilvægasti eiginleiki farsæls kennara er að hafa tao (veginn). Tao er það sem færir hugsun nemenda í takt við kennarann. Tao er gæði yfirvalds og heiðarleika sem fær nemendur (og foreldra þeirra) til að trúa á kennarann. Tao er karakter.
2. Góð kennsla snýst aldrei bara um kennarann. Þetta er alltaf tvístefnu gata. Þetta snýst um samskipti kennara og nemanda.
3. Rétt eins og njósnir hersins skipta sköpum í stríði, þá er skilningur nemenda lykillinn að farsælli kennslu. Taka ber mið af Zeitgeist og menningu. Reynda verður að skilja ástríðu nemenda til að auðvelda þeim að tileinka sér kennslustundina.
4. Í þágu þess að lágmarka fyrirhöfn kennarans og hámarka árangur hans (shih): Aldrei að lesa texta upphátt fyrir nemendur. Láttu nemanda alltaf lesa fyrir hann.
5. Öll kennsla er röð æfinga þar sem kennarinnn staðsetur nemandann markvisst (hsing) þannig að hann læri af henni.
6. Spyrðu aldrei "Einhverjar spurningar?" og búast við að fá svari. Kennarinn verður alltaf að vera skrefi á undan nemendum og staðsetja spurningar sínar á stefnumótandi hátt. Reyna verður að hugsa eins og nemandi og komdu með spurningar sem nemendur gætu viljað svara.
7. Kennarinn á að reyna að vera formlaus: að renna í gegnum bekkinn eins og hann værir ekki þar, á meðan hann vísar honum alltaf lúmskur í þá átt sem kennarinn vilt að hann fari.
8. Rétt eins og hernaður er list svika, þannig er kennsla list óbeina leiðslu. Aldrei á að reyna að þvinga nemendurna; fá verður þá alltaf til að koma til kennarans eftir leiðsögn og vilja til að læra.
9. Kennarinn á aldrei að fara "kaldur" inn í skólastofuna; æfa alltaf fyrirfram. Svo vitnað sé í Sun Tzu: "Það er með því að skora mörg stig sem maður vinnur stríðið fyrirfram með musterisæfingu bardagans."
10. Kennarinn á að þekkja nemendur sína og þekkja sjálfan sig. Hann að vera hreinskilinn um styrkleika sína og veikleika. Nýta sér styrkleika sína sem mest og lágmarkaðu það sem hann er veikur fyrir. Sömuleiðis, þekkja styrkleika og veikleika nemenda sinna. Hjálpa þeim að byggja á styrkleikum sínum. Trúa á þá en ekki biðja þá um að gera hluti sem þeir geta ekki.
Bloggar | 18.12.2024 | 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020