Varnir Íslands í ýmsum sviðsmyndum ef Íslendingar sjálfir væru sjálfir við stjórnvöl

Það er ágætt viðtal við Baldur Þórhallson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í Heimildinni um varnarmál landsins. Hann er einn skynsamasti fræðimaður Íslands á þessu sviði. Hans innlegg hefur verið frábært.  Sjá slóð: Ráðamenn verði að tala skýrar við þjóðina um varnarmál

Baldur útskýrir að mikilvægt sé að hafa þrjár sviðsmyndir í huga. Í fyrsta lagi væri möguleiki á skemmdarverkum á innviðum, í öðru lagi árás lítillar sveitar óvinahers og í þriðja lagi stigmögnuðum átökum og skærum í Norður-Atlantshafi.  Hann ræddi um að það þyrfti að vera hér loftvarnarkerfi og eldflaugakerfi.

Ég skrifaði á sömu vegu í blogg grein fyrir nokkru og Baldur varðandi loftvarnarkerfi og eldflaugavarnarkerfi fyrir a.m.k. Suður-Ísland, eins konar Iron Dome kerfi. Ég er sammála Baldri um að fyrsta árásin á Íslandi yrði í formi árásar sérsveita óvinaríkis eða hryðjuverkaárás.

Er þetta ótrúleg sviðsmynd? Nei, Ísland hefur verið skotmark (Keflavíkurflugvöllur) síðan á dögum kalda stríðsins og löglegt skotmark í næsta stríði enda NATÓ ríki. Það er næsta öruggt að ein kjarnorkusprengja hafi verið merkt Keflavíkurflugvelli síðan á dögum Sovétríkjanna.

En ég er ósammála Baldri (sem er varkár fræðimaður) um að við getum ekki stofnað hér varnarlið upp á stærð á við undirfylki  (e. company). Slíkt lið, þótt lítið sé, ca. 150 - 250 manns, getur verið ígildis sérsveitar hers og gert mikið gagn í sviðmynd hermdarverka, hryðjuverka eða árásar elítu hersveita erlends hers.

Núverandi varnir Íslands

Fyrir utan loftvarnareftirlitskerfið, ratsjárnar fjóru, þá er fátt um fastar varnir.  Héðan er stundað kafbátaeftirlit og hingað koma reglulega flugsveitir frá ýmsum NATÓ-ríkjum sem staldra stutt við. Loftrýmiseftirlitið er því ekki samfellt. Óvinaher þarf því bara að lesa íslenskar fréttir og bíða eftir að flugsveitin fari, og fari þá í aðgerðir. 

Annars, þegar engin flugsveit er á landinu, er treyst á að herþotur frá Bandaríkjunum bruni frá austurströnd BNA og til Íslands sem fyrsta viðbragð. En málið er að hverri flugsveit þarf að fylgja sveit tæknimanna og hún gæti verið lengi á leiðinni. Skil því ekki hvernig hún geti starfað lengur en einn dag án tækniaðstoðar.

Í hafinu kringum Íslands má þó búast við að kafbátar frá einhverju NATÓ-ríki sé að sniglast.

Ef Íslendingar væru að skipuleggja eigin varnir

En hvernig væru varnir Íslands, ef Íslendingar þyrftu sjálfir að sjá um varnir sínar? Þessa spurningu höfum við Íslendingar ekki þurft að svara síðan 1940, þegar Agnar Kofoed-Hansen varð Lögreglustjóri Reykjavíkur, og undirbjó Íslendinga best sem hann gat undir komandi átök. Hann var herforingja menntaður frá Danmörku og kunni til verka og var einmitt með lögregluliðið á skotæfingu á Laugarvatni þegar breski herinn renndi í höfn. Sjá einnig hugmyndir hans um heimavarnarlið Íslands eftir stríðslok.

Agnar Eldberg Kofoed-Hansen og heimavarnarlið Íslands

Menn hafa verið að tala niður, bæði stjórnmálamenn og fræðimenn að hér sé hægt að koma upp her. Barlómurinn er að við eru of fá, of fátæk...o.s.frv. Samt höfum við velheppnað dæmi úr Íslandssögunni með Herfylkingunni í Vestmannaeyjum á 19. öld sem var vel skipulögð hereining.

Segjum að Íslendingar vilji hafa smáher frekar en heimavarnarlið. Byrjum á að skilgreina hvað er her og svo hvað er smáher.

Til að hafa her, þarf stórfylki. sem er:

Stórfylki, stórhersveit (Brigade)

Liðsforingi (Officer): Stórfylkishershöfðingi, 1 stjörnu (Brigadier General)

Lýsing: 3-4 hersveitir (regiments)/herfylki (battalions) auk stuðningssveita. Hin raunverulega starfandi eining í stríði.

Fjöldi: 5.500 - 11.000 eða 2.000 - 4.000.

Ég er ekki að sjá að við munum nokkurn tímann hafa efni á eða vilja að reka svo stóra hereiningu. En þá erum við komin að skilgreiningu á smáher (og í raun einnig á heimavarnarliði ef viljum kalla þessa hereiningu slíku nafni  eða varnarlið):

Fylki (Battalion)

Liðsforingi (Officer): Undirofursti (Lieutenant Colonel)

Lýsing: Venjulega 3 fótgönguliðsundirfylki (infantry companies) auk fylkishöfuðstöðvar (headquarters company); eða 3 stórskotaliðsundirfylki (artillery batteries) auk stórskotaliðshöfuðstöðvar (headquarters battery). Oft um herlið sem allt er búið sams konar vopnum. Í Bretlandi er liðið samsett af 3-4 riffilundirfylkjum (rifle companies) og 1 léttvopnuðu stuðningsundirfylki (light supporting weapons company).

Fjöldi: 600 – 1.000.

Við gætum rekið svona smáher, bæði hvað varðar fjármögnun hans og mönnun. En hvað væri fyrsta og besta skrefið? Og raunverulegur vilji fyrir að koma upp? Þá eru við komin niður í undirfylki sem er þá stærð sérsveitar hers.

Undirfylki, herflokkur (Company, Squadron, Battery)

Liðsforingi (Officer): Kapteinn (Captain) eða majór (Major)

Lýsing: Venjulega 3 sveitir/flokksdeildir (platoons). Lægsta stjórnunardeildin. Fjórðungur af herfylki (battalion). Sama og stórskotaliðsundirfylki (artillery battery), flugundirfylki (air force flight) og riddaraliðsundirfylki (cavalry troop/squadron).

Fjöldi: 150 - 250.

Getum við rekið slíka hereiningu? Já alveg örugglega.  Segjum svo að þetta verði raunin. Mannskapurinn er til staðar, reiðubúinn við ýmsar aðstæður, líka við náttúruvá og annan vanda sem steðjar að Íslandi.

Þá er það varnarbúnaðurinn. Hvað þurfa Íslendingar til að verja landið (höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin) og lofthelgi landsins?

Við þurfum á loftvarnarkerfi og eldflaugkerfi að halda auk almennra handvopna. Svo vill til að við erum með starfrækt loftvarnarkerfi, fjórar ratsjárstöðvar í fjórum landshlutum landsins. Og Íslendingar reka þetta loftvarnarkerfi sjálfir undir umsjón Landhelgisgæslunnar og NATÓ. Frábært viðvörunarkerfi en ekki varnarkerfi. Raunverulegt varnarkerfi (sem er ekki til á Íslandi) væri eldflaugakerfi. Hvernig myndi slíkt varnarkerfi líta út?

Ísraelar útfærðu fyrstir besta eldflaugakerfi heims sem þeir kalla "Iron Dome" á ensku en gæti þýtt á íslensku "járnhjúpur" eða "eldflaugahjúpur". Meira segja Bandaríkjamenn hafa keypt af Ísraelum slík eldflaugakerfi til eigin nota. Og aðrar þjóðir einnig, svo sem Bretar sem keyptu eitt slíkt fyrir 13 milljarða kr. (The Sky Sabre system). Eldflaugahjúpurinn (Iron Dome) skynjar, metur og stöðvar margs konar skammdræg skotmörk eins og eldflaugar, stórskotalið og sprengjuvörp. Það er áhrifaríkt bæði degi til eða að nóttu og í öllum veðurskilyrðum, þar með talið lágskýjum, rigningu, rykstormum og þoku.

Hversu áhrifarík er járnhvelfing Ísraels? Ísarelski herinn fullyrðir  um 85% - 90% árangur fyrir "Járnhvelfinguna" við að stöðva aðsvífandi eldflaugar sem er ljómandi árangur.

Þurfum við meira? Kafbátaeftirlit við strendur landins er nauðsynlegt en þá meira í þágu NATÓ, ekki sérstaklega Íslands (í tilfelli smáátaka á landi).

Við erum þá komin að niðurstöðu:

Herafli: A.m.k. undirfylki.

Loftvarnarkerfi: Viðvörunarkerfi sem þegar er til á Íslandi.

Eldflaugakerfi: Staðsett á Suðvesturhorni landsins og Suðurnesjum og kostar a.m.k. 13 milljarða króna.

Sjóvarnir: Er ekki að sjá að Íslendingar geri stóra hluti hér, þótt við séum eyríki. Við gætum þó rekið tundurspilla, einn eða tvo. Tundurspillir er notaður sem varnarskip gegn kafbátum og flugvélum, venjulega 2000 til 8000 brúttó tonn.

Sviðsmyndir átaka á Íslandi eða við landið

Sviðsmyndir Baldurs: "Í fyrsta lagi væri möguleiki á skemmdarverkum á innviðum, í öðru lagi árás lítillar sveitar óvinahers og í þriðja lagi stigmögnuðum átökum og skærum í Norður-Atlantshafi."

Í fyrstu tveimur sviðsmyndunum getum við sjálf auðveldlega ráðið við með eigið varnarlið eða hermdarverka, hryðjuverka eða árásar elítu sveita erlends hers. Þriðja sviðsmyndin er of erfið fyrir okkur og við ráðum ekki við hana nema með hjálp NATÓ enda verkefni bandalagsins.

Niðurlag

Með litlum herafla sem Íslendingar gætu komið sér upp, gefst tækifæri til að hafa hann þrautþjálfaðan og vel vopnum búinn. Íslendingar hafa sýnt með rekstri lögreglu, björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar að þrátt fyrir fámennið, hafa Íslendinga alla tíð verið fagmenn í sínum störfum og getað tekið á við ólíklegust verkefni.

Hvað varðar varnarbúnað og mannvirki, þá eru Íslendingar þegar með varnarmálafjárlög og eyða peningum í varnarmál. Við greiðum í mannvirkjasjóð NATÓ og rekum loftvarnarkerfi. Við fáum örugglega stuðning NATÓ við að byggja upp varnarmannvirki sbr. Keflavíkurflugvöll.

Varnirnar munu fyrst og fremst snúast um varnir Suður-Íslands, sérstaklega suðvesturhornsins og Suðurnes. Hér er flestir Íslendingar búsettir og varnir auðveldar. Af hverju kemst ég að þessari niðurstöðu? Í raun geri ég það ekki, heldur breska hernámsliðið og Þjóðverjar í seinni heimsstyrjöldinni með hernaðaraðgerðinni Íkarus (þ. Fall Ikarus).Báðir stríðsaðilar vildu ná tangarhaldi á Suður-Íslandi fyrst og fremst.

Þótt breski herinn hafi sent herlið til ýmsa staði, þá snérust varnir þeirra og síðar Bandaríkjahers fyrst og fremst um varnir Suðurnesja og Suðvestur-Íslands. Þetta hefur ekkert breyst síðan þá.

Hervarnir eru fælingartól. Herleysi kallar á árás. Þeir sterku ráðast á þá veiku. Lífið er ekki flóknara en það.


Skýrsla um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum er ófullnægjandi

Þjóðaröryggisráð Íslands gefur út reglulega skýrslur. Ég er með eina í höndunum sem er frá 2021. Get ekki séð nýrri. Hvað um það.  Þessi skýrsla er 45 bls. Sjá slóð:

Skýrsla um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum

Þessi skýrsla er fróðleg aflestrar. Ef hugtakið þjóðaröryggi er skilgreint, þá má vera ljóst að það nær yfir ólíklegustu þætti. Það getur varðar þjóðaröryggi að ef matvælaskortur verður og náttúruvá getur reynst vera þjóðaröryggismál. Skýrsla er góð út af fyrir sig.  En hins vegar fær sá þáttur sem varðar varnir lítið rými í skýrslunni eða rúmar 3 bls.

Hérna má sjá efnisskipan í skýrslunni. Inngangur 1. Farsóttir og áhrif COVID-19-faraldursins 1.1. Útbreiðsla kórónuveirunnar 1.2. Viðbragðskerfi vegna farsótta 2. Loftslagsbreytingar 3. Náttúruvá 4. Skipulögð glæpastarfsemi 45 5. Netglæpir 6. Peningaþvætti 7. Hryðjuverk 8. Hernaðarlegir þættir og fjölþáttaógnir 9. Mikilvægir innviðir 9.1. Fjármála- og efnahagsöryggi 9.2. Öryggi stjórnkerfis 9.3. Öryggi landamæra 9.3.1. Landamæragæsla 9.3.2. Landhelgi 9.4. Löggæsla, neyðar- og viðbragðsþjónusta 9.5. Samgöngur 9.6. Orkukerfi 9.6.1. Raforka 9.6.2. Jarðefnaeldsneyti 9.6.3. Varmaflutningur 9.7. Fjarskipti 9.8. Netöryggi 9.9. Matvæla- og fæðuöryggi 9.9.1. Fæðuöryggi 9.9.2. Matvælaöryggi.

Skýrslan ber þess öll merki að lítil sérfræðiþekking er á varnarmálum. Það þyrfti að skrifa sér skýrslu um varnarmál per se og taka út fyrir sviga. En þessi skýrsla er aldrei skrifuð. Hvers vegna? Jú, búið er að leggja niður Varnarmálastofnun Íslands sem hefði útbúið slíka skýrslu fyrir Þjóðaröryggisráð sem hefur aldrei fengið slíka skýrslu í hendurnar enda stofnuð 2016 en Varnarmálastofnun Íslands var lögð niður 2010.

Nú liggur fyrir tilaga til þingsályktunar um rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála hjá Alþingi. Sjá fyrri blogggrein mína um málið. Slíkt rannsóknarsetur á greinilega að koma með sérfræðiþekkingu um varnarmál inn í landið og er það vel. En ég tel mistök að fela háskólastofnun slíkt verkefni.

En fyrirkomið er vanhugsað. Væntanlegar skýrslur sem ætti að gera um þjóðaröryggismál og koma frá slíku rannsóknarsetri, gæti varðar þjóðaröryggisleynd. Þarna kunna Íslendingar ekki að meðhöndla hernaðarleyndarmál sem kunna að leynast í slíkri skýrslu. Óvinir Íslands þurfa bara góða þýðendur til að komast að hernaðarleyndarmálum Íslands eða bara lesa skýrslu þjóðaröryggisráðs! 

Rannsóknarsetrið fyrirhugaða ætti að vera skrifstofa innan veggja Varnarmálastofnunar Íslands og skýrslur þess að vera leyndarmál ef upplýsingarnar innihalda varnarleyndarmál. 

Ég ætla enda þessa grein á fyrstu bls kaflans sem raunverulega fjallar um varnarmál. Hann ber heitið: "8. Hernaðarlegir þættir, fjölþáttaógnir og varnarmannvirki."

Hér er hálf bls. úr upphafi kaflans og þar kveður við sama viðkvæðið og frá 1951.

"Í þjóðaröryggisstefnu kemur fram að varnir Íslands séu reistar á tveimur meginstoðum: aðildinni að Atlantshafsbandalaginu (NATO) frá árinu 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin frá árinu 1951.36 Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Ísland hefur sérstöðu sem herlaus þjóð innan Atlantshafsbandalagsins og ekki er fyrir hendi innlend geta til að verjast hefðbundinni hernaðarógn. Þær breytingar sem átt hafa sér stað í evrópskum öryggismálum vegna Úkraínudeilunnar árið 2014 hafa haft bein áhrif á íslensk öryggismál, þar á meðal framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin og þátttöku Íslands í verkefnum Atlantshafsbandalagsins."

Grundvallarforsenda stefnunnar er löngu brostin, sbr. "...er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir."

Síðan þá, 1951, er Ísland orðið margfalt fjölmennarar, forríkt ríki og hefur getu til að koma sér upp eigin varnir.  Eftir stendur viljaleysið til að gera eitthvað í málinu. Og það í dag, þegar stríð geysar í Evrópu og hætta er á þriðju heimsstyrjöld.

 


Bloggfærslur 2. mars 2023

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband